Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Höfundur: Ingibjörg Jónsdóttir, land- og umhverfis- fræðingur og verkefnastjóri vottunar og gæða hjá Yggdrasil Carbon.

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að eyðileggjast og allir á henni myndu deyja.

Ég fór yfir stöðuna og sagði henni meðal annars frá ósonlaginu sem ég upplifði á sínum tíma að væri orðið svo götótt að það væri tímaspursmál hvenær öllu lyki. Á þeim tíma var gripið til aðgerða sem leiddu til þess að ósonlagið er í ágætismálum í dag. Ég vildi skilja dóttur mína eftir með þá hugsun að í fyrsta lagi er jörðin ekki að eyðileggjast og allir að deyja og í öðru lagi, að ef við leggjumst öll á eitt í því að finna lausnir, þá er hægt að ná ýmsu fram.

Þó að ég hafi stappað stálinu í dóttur mína þá er staðan þessi: Við erum komin yfir þolmörk sex af níu lykilkerfum jarðar svo hér geti þrifist heilbrigt líf. Þau sex kerfi eru loftslagið, líffjölbreytni, ferskvatn, næringarhringrásir niturs og fosfórs, umbreyting lands eins og skógareyðing og svo efni í umhverfinu sem tilkomin eru af mannavöldum. Þar má nefna t.d. eiturefni, lyf og fleira sem endar í hringrásinni.

Mikil áhersla hefur verið á loftslagið síðustu ár. Varan „kolefniseining“ gengur nú kaupum og sölum og samsvarar hún einu tonni af koltvísýringi sem hefur verið dregið úr andrúmslofti eða hefur með stýrðum aðgerðum ekki verið losað út í andrúmsloftið. Á meðan öllu máli skiptir að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, þá eru verkefni sem binda koltvísýring og gefa af sér kolefniseiningar góð og nauðsynleg lausn samhliða, svo við náum settum markmiðum.

Lög, reglugerðir og staðlar innanlands og erlendis halda vel utan um starfsemi með kolefniseiningar og eru kröfur til loftslagsverkefna að aukast dag frá degi. Allur ávinningur þarf að fara í gegnum vottun óháðs aðila til að tryggja gæði og gegnsæi og mikilvægt að aðgerðir sýni fram á heildræn jákvæð áhrif sem er stutt við með mælingum eða vísan í viðurkenndar rannsóknir. Á meðan sumir horfa á þessar auknu kröfur sem íþyngjandi, eru þær veigamikið aðhald til að tryggja að aðgerðir séu raunverulega að takast á við þann vanda sem að okkur steðjar.

Skógrækt er ein loftslagslausnin sem er talin til náttúrumiðara lausna (e.nature based solutions). Stærsta krafan á loftslagsskógrækt er sú að verkefni séu hönnuð á heildrænan hátt svo tryggt sé að ein lausn hafi ekki neikvæð áhrif á annan þátt. Til að tryggja það er nauðsynlegt að kortleggja og greina vel það sem fyrir er á svæðinu áður en verkefni hefst. Horft er þar til að mynda til ástands jarðvegs og gróðurs, mikilvægra fuglategunda, verndargildis gróðurtegunda og vistkerfa, kolefnisforða, grósku og grýtni. Þegar er komin góð greining á svæðinu þarf að hanna verkefnið á þann hátt að þar verði ávinningur í víðu samhengi.

Til að tryggja gæði og ávinning, þarf líka að vera gott aðgengi að upplýsingum og rannsóknum. Þó vissulega bætist alltaf í rannsóknir hérlendis, vantar enn töluvert þar upp á, t.d. hvað varðar ágengi trjátegunda, losun vegna jarðvinnslu og rannsóknir á líffjölbreytni. Viðurkennd gögn eru grunnforsenda vottaðra loftslagsverkefna en þegar gögnum er ábótavant, þarf að vinna með bestu upplýsingar sem eru í boði hverju sinni og hanna verkefnin á varfærinn hátt. Sú hönnun getur falið í sér að forðast einrækt trjátegunda og skilja eftir svæði inn á milli sem eru valin með tilliti til líffjölbreytni, kolefnisforða og verndargildis. Einnig þarf að gera ítarlegt áhættumat í samtali við hina ýmsu sérfræðinga og vakta verkefnin reglulega út verkefnatímann, sem er í tilfelli vottaðra skógræktarverkefna yfirleitt 50 ár. Afar mikil tækifæri eru í því að nýta náttúrumiðuð loftslagsverkefni til að safna ítarlegum gögnum um náttúrufar og lífríki til lengri tíma. Til dæmis setja myndavélar á verkefnasvæði til að fylgjast með þróun fuglalífs, vakta líffjölbreytni og mæla reglulega sýrustig og heilbrigði jarðvegs samhliða kolefnisbindimælingum. Einnig er hægt að nýta verkefnin til að fylgjast með sjálfsáningu tegunda. Möguleikar á fjölbreyttri gagnasöfnun í 50 ára verkefnum eru í raun óþrjótandi og myndi nýtast víða í samfélaginu.

Loftslagsskógrækt er fýsilegur kostur þegar kemur að vottuðum náttúrumiðuðum lausnum. Það er vegna góðrar bindigetu þeirra tegunda sem eru notaðar og góðs aðgengis að upplýsingum og rannsóknum. Loftslagsverkefni þurfa þó að vera fjölbreytt til að við náum ávinningi á mismunandi sviðum og er því mikil þörf á því að greina og auka fýsileika vottaðra verkefna í endurheimt vistkerfa til að stýra fjármagni einnig á þá staði. Á það ekki síst við ef kröfur til innfluttra tegunda aukast enn frekar.

Ósonlagið er klárt, hvað næst? Það er stundum yfirþyrmandi að sinna verkefnum í umhverfisgeiranum þar sem allt er í rauninni „næst“. Svo ég afmarki mig við efni greinarinnar og fjalli um það sem er næst hjá mér sjálfri, þá er það fyrst og fremst að hanna fjölbreytt loftslagsverkefni sem ganga ekki á önnur lykilkerfi jarðar. Læra meira, gera betur og hvetja aðra til að gera það sama. Það geri ég helst með áframhaldandi opnum og heiðarlegum samtölum við aðila með mismunandi hagsmuni, þekkingu og reynslu. Eins held ég áfram að stappa stálinu í dóttur mína með lausnir og bjarta framtíð að leiðarljósi.

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...