Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lokaviðburður Matsjárinnar á Hótel Laugarbakka.
Lokaviðburður Matsjárinnar á Hótel Laugarbakka.
Mynd / Aðsendar
Lesendarýni 7. desember 2022

Samtök smáframleiðenda matvæla þriggja ára

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri SSFM/BFB.

Þann 5. nóvember urðu Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM) þriggja ára. Þetta þriðja starfsár hefur verið viðburðaríkt eins og fyrstu tvö og samtökin haldið áfram að vaxa og dafna.

Oddný Anna Björnsdóttir

Það sem hæst bar á árinu var að Beint frá býli (BFB) varð aðildarfélag að SSFM og fengu félagsmenn BFB sem voru ekki þegar félagsmenn í SSFM þá fulla aðild að SSFM og undirrituð varð framkvæmdastjóri beggja félaga.

Félagsmönnum með fulla aðild hélt áfram að fjölga og eru nú orðnir 215. Ríflega helmingur er á lögbýlum, um fjórðungur á höfuðborgarsvæðinu og svipaður fjöldi í bæjarfélögum hringinn í kringum landið. Vörur þeirra eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og auðga matarflóru landsmanna svo um munar.

Aukaaðilar eru á fimmta tug, en aukaaðild er eins konar styrktaraðild fyrir þá sem eru ekki smáframleiðendur sjálfir en vilja styðja samtökin. Í hinu ómetanlega ráðgjafaráði sitja ríflega 40 öflugir einstaklingar með reynslu og þekkingu á sviði samtakanna.

Stefnumótandi markmið og aðgerðaáætlun

Hér á eftir verður farið yfir helstu lykilverkefni samtakanna á árinu sem tengdust stefnumótandi markmiðinu um að hámarka ávinning af aðild. Stefnumótandi markmiðin, öll lykilverkefnin og link á ítarlega aðgerðaáætlun samtakanna má finna í almennu kynningunni á SSFM/BFB á vef samtakanna: ssfm.is/skyrslur.

Einföldun regluverks

Við áttum tvo fundi með matvælaráðherra á árinu þar sem umræðupunktarnir voru einföldun regluverks, að fulltrúar matvælaframleiðenda ættu sæti í stjórn Matvælasjóðs og beiðni um að ráðherra geri samning við SSFM/ BFB um eflingu smáframleiðslu matvæla, þar sem forgangsverkefnið væri að vinna greiningu og skýrslu með tillögum að einföldun regluverks á sviði matvæla sem ráðherra tók vel í.

Áhersla var lögð á að ganga sem fyrst í að uppfæra smáræðisreglugerðina svo hún gefi matvælaframleiðendum sem selja vörur í eigin hagnaðarskyni undanþágu frá því að sækja um starfsleyfi til heilbrigðiseftirlitsins fyrir hvern matarmarkað sem þeir taka þátt í, en sú vinna er í gangi hjá ráðuneytinu.

Eins var hvatt til þess að reglugerð sem gefur starfsemi sem heyrir undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir möguleika til að skrá atvinnureksturinn í miðlæga rafræna gátt í stað þess að sækja um starfsleyfi, nái einnig til matvælaframleiðenda og er það nú í skoðun hjá ráðuneytinu.

Við hvöttum til þess að lokið yrði sem fyrst við að einfalda og samræma eftirlitskerfið og tryggja að framkvæmd eftirlits sé sambærileg um land allt. Við lögðum jafnframt til að skipað yrði teymi fulltrúa matvælaráðuneytisins og eftirlitsaðila sem framleiðendur geti leitað til tengt framkvæmd reglugerða og eftirlits, ef þeir eru ósáttir við túlkun eftirlitsmanns.

Þorbjörg Ásbjörnsdóttir og Lára Guðnadóttir, Geitagott á Landbúnaðarsýningunni.

Við lögðum einnig áherslu á mikilvægi þess að hafa þá sem munu vinna eftir reglugerðunum og fulltrúa þeirra með í ferlinu þegar reglugerðir og leiðbeiningar með þeim eru skrifaðar, eins og var gert í hinu svokallaða heimaslátrunarmáli. Að lokum fögnuðum við því að Berglind Häsler, aðstoðarmaður ráðherra, tæki sæti í stjórn Matvælasjóðs, enda fyrrum félagsmaður og þekkir því vel til.

Stefnumótun á sviði matvæla

SSFM sendu inn ítarlega umsögn um greinargerð sem lýsir áherslum og fyrirhuguðu verklagi matvælaráðherra við stefnumótun á sviði matvæla á kjörtímabilinu sem finna má á vef samtakanna.

Lykiláherslur umsagnarinnar endurspeglast í drögunum að matvælastefnu sem ráðherra kynnti á Matvælaþinginu í nóvember – sem eru þó mjög almennt orðuð. Við væntum þess að í aðgerðaáætlun með stefnunni verði skýrar, tímasettar og fjármagnaðar aðgerðir útlistaðar sem innihalda þær mikilvægu og brýnu tillögur sem við komum með í umsögninni.

Auka þekkingu og þróa verkfæri

Hæst bar Matsjáin sem var samstarfsverkefni SSFM og landshlutasamtaka sveitarfélaga um land allt. Verkefnið var styrkt af Matvælasjóði og tók RATA að sér verkefnisstjórn. Matsjáin var 14 vikna rafrænt námskeið sem samanstóð af sjö lotum með heimafundum, fræðslu og erindum, verkefnavinnu og ráðgjöf og lauk með veglegri uppskeruhátíð og matarmarkaði á Hótel Laugarbakka í apríl. Um helmingur félagsmanna tók þátt og var almenn ánægja með verkefnið sem vilji er til að hafa framhald af.

Gerð vefbókar um merkingar matvæla, ásamt hugbúnaðarlausn sem vinnur með ÍSGEM gagnagrunninum við útreikning næringargildis út frá uppskrift sem Matvælasjóður styrkti og SSFM eru samstarfsaðilar Matís í, var í fullri vinnslu á árinu en markmiðið er að gefa félagsmönnum færi á að prófa tilraunaútgáfu fyrir lok árs.

Skapalónið (e: template) fyrir gæðahandbók sem var kynnt félagsmönnum í lok síðasta árs og finna má á vef samtakanna hefur nýst mörgum sem sýnir að slík samstarfsverkefni geta gert gæfumuninn.

Bætt kjör og fjölbreyttar söluleiðir

Félagsmenn eru með sérstök afsláttarkjör hjá á þriðja tug aðila. Í ár var meðal annars gerður afsláttarsamningur við Póstinn sem gefur þeim smáu örlítið betri möguleika í samkeppni við þá stóru.

Að hafa aðgang að fjölbreyttum söluleiðum skiptir félagsmenn máli og því hélt samstarfið við Krónuna um Matarbúr áfram, en í því er vörum félagsmanna stillt upp á afmörkuðu svæði í stærstu verslunum Krónunnar á tilteknum tímabilum. Fjarðarkaup og Hagkaup í samstarfi við Karrot fóru svipaða leið í ár og gerðu smáframleiðendum matvæla hátt undir höfði á vissum tímabilum. Söluaðilum sem sérhæfa sig í vörum smáframleiðenda hélt áfram að fjölga og má helst nefna vefinn Matland og verslunina Taste of Iceland á Laugavegi.

Matarbúrið í Krónunni Lindum, nóvember 2022 (þurrvöruhlutinn).

Eftir tvenn jól án matarmarkaða hafa þeir sjaldan verið fleiri og hvetjum við neytendur til að sækja þá, panta í gegnum eigin og sameiginlega vefi smáframleiðenda.

Kynningarmál og almannatengsl

Reglur BFB um félagsmerkið og upprunamerkið Frá fyrstu hendi voru uppfærðar og félagsmenn sem eru með beina aðild að BFB hvattir til að nýta þau, enda gefa þau starfsemi og vörum þeirra mikla sérstöðu.

Mikið púður var lagt í undirbúning fyrir þátttöku í Terra Madre Nordic, matarhátíð smáframleiðenda á vegum Slow Food Nordic í Stokkhólmi 1.-3. september. Þar var matarmarkaður, málþing, vinnustofur, fyrirlestrar, svæðisfundir og síðast en ekki síst matarhandverkskeppnin Nordic Artisan Food Awards. Sjö félagsmenn sendu vörur í keppnina og hlutu hvorki meira né minna en þrír þeirra verðlaun.

Í grein minni í síðasta blaði var fjallað um velgengni smáframleiðenda á Landbúnaðar- sýningunni í Laugardalshöll þar sem 40 félagsmenn kynntu vörur sínar á sameiginlegum bási SSFM/BFB og víðar.

Ráðgjöf, stuðningur og gagnlegar upplýsingar

Samtökin veita félagsmönnum ráðgjöf og stuðning, miðla gagnlegum upplýsingum til þeirra og vekja athygli á málefnum sem þá varða. Þau eru einnig gátt inn til smáframleiðenda matvæla sem þýðir að þeir sem þurfa að ná til þeirra geta gert það í gegnum póstlistann og lokaða Facebook hópinn.

Verðskulduð athygli

SSFM/BFB munu á nýju ári halda áfram að vinna að hagsmunamálum smáframleiðenda matvæla, vera málsvari þeirra og stuðla að framförum í málefnum sem þá varða. Matarfrumkvöðlar eru rokkstjörnur sem fá verðskuldaða athygli þessi misserin og munu án efa halda áfram að eflast og fjölga á næstu árum.

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...