Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Guðni Þorvaldsson.
Guðni Þorvaldsson.
Mynd / smh
Lesendarýni 8. febrúar 2016

Uppgræðsla og beit

Höfundur: Guðni Þorvaldsson
Þessi grein er innlegg í umræðu um uppgræðslu- og beitarmál sem fram hefur farið í Bændablaðinu og víðar.
 
Uppgræðsla
 
Víða um land eru lítt grónir sandar eða melar. Í sumum tilvikum stafar gróðurleysið af því að aðstæður eru óhagstæðar gróðri, t.d. vegna mikillar hæðar yfir sjó eða mikils sandburðar. Í öðrum tilvikum hefur áður gróið land blásið upp. Við getum flýtt endurkomu gróðurs á þessi svæði með ýmsu móti.
 
Ógróna sanda og mela vantar lífrænt efni en lífrænt efni eykur vatnsheldni jarðvegsins og möguleika hans til að geyma næringarefni. Aukið lífrænt efni gerir jarðveginn þannig að betra búsvæði fyrir plöntur og fræ. Það er hægt að koma lífrænu efni í jarðveginn með ýmsu móti, t.d. með því að dreifa búfjáráburði, heyi eða öðru lífrænu efni á hann. Önnur leið er að hefja ræktun plantna á þessum svæðum. Því meiri uppskeru sem nýsáningarnar gefa því meira lífrænt efni myndast. Til að plöntur geti gefið mikla uppskeru þurfa nauðsynleg næringarefni að vera til staðar. Mest vantar af nitri í sandana en önnur efni getur einnig skort eins og fosfór, kalí og brennistein. Næringarefnunum er hægt að koma í jarðveginn með tilbúnum eða lífrænum áburði og svo geta belgjurtir lagt til nitur. Plöntur umbreyta ólífrænu efni í lífrænt með aðstoð sólarljóss. Hluti lífræna efnisins fer í ofanjarðarhluta plöntunnar og hluti í rætur. Með sáningu og áburðargjöf á sanda og mela er verið að byggja upp lífrænt efni í jarðveginum, auka magn takmarkandi næringarefna eins og niturs og fosfórs og skapa skjól fyrir aðrar tegundir til landnáms. Þegar hætt er að bera á slíkar sáningar hörfar gjarnan sáðgresið smám saman og aðrar tegundir taka við. Sáning og áburðargjöf getur flýtt gróðurframvindu þessara svæða um tugi ára eða jafnvel aldir.
 
Einungis lítill hluti þess lífræna efnis sem plöntur framleiða verður til frambúðar í jarðveginum, stór hluti þess brotnar niður tiltölulega fljótt. Í Svíþjóð hafa menn metið seiglustuðla (humification coefficients) fyrir mismunandi form lífræns efnis út frá niðurstöðum langtímatilraunar sem staðið hefur í 50 ár (Kätterer et al. 2011). Niðurstöðurnar gefa til kynna að rætur séu mun stöðugri að þessu leyti en ofanjarðarhluti plantnanna. Tæp 40% róta urðu að stöðugu lífrænu efni en innan við 20% ofanjarðarhlutans. Samsvarandi tala fyrir búfjáráburð var um 30%.
 
Árið 1974 var lögð út tilraun á Geitasandi á Rangárvöllum þar sem misstórir skammtar af kúamykju voru plægðir niður í sandinn (25, 50, 100 og 150 tonn/ha) og til samanburðar voru tveir skammtar af tilbúnum áburði (60 og 120 kg N/ha í áburðartegundinni 17-17-17). Engmo vallarfoxgrasi var síðan sáð í tilraunina. Hverjum þessara reita var svo skipt upp í þrjá minni reiti sem fengu mismunandi skammta af tilbúnum áburði næstu 7 árin (100N-20P-50K, 0N-20P-50K og 100N-0P-0K). Tilraunin var tvíslegin árlega og uppskeran fjarlægð. Eftir að tilrauninni lauk lá hún ósnert þar til síðastliðið sumar að reitirnir voru gróðurgreindir og jarðvegssýni tekin úr þeim. Þá voru allir reitirnir enn algrónir, sáðgresið nánast horfið og annar gróður kominn í staðinn. Gróðurframvinda reitanna var ólík eftir því hvaða áburðarmeðferð reitirnir fengu 40 árum áður. Mikið var af grösum í reitum sem fengu stærstu mykjuskammtana en krækilyngi þar sem minna var borið á. Ég þekki ýmis dæmi þess að menn hafi ræktað upp tún á sandi og hætt að bera á þau eftir nokkur ár og þá hafa þau breyst í lyng- eða grasmóa, allt eftir aðstæðum á hverjum stað og því hve lengi þau höfðu verið í ræktun.
 
Á Geitasandi voru einnig tilraunir með langtímaáhrif áburðar sem stóðu í 50 ár (Þorsteinn Guðmundsson o.fl. 2016). Á þessum 50 árum skilaði hvert kg af ábornu N meira kolefni til jarðvegsins eftir því sem niturskammtarnir voru lægri. Ef borin voru 100 kg N/ha bundust 5 kg af kolefni á hvert kg N, þrátt fyrir að öll ofanjarðaruppskera væri fjarlægð af reitunum. Fosfór skorti einnig á Geitasandi, reitir sem aldrei fengu fosfór gáfu mjög litla uppskeru og gróðurfar var annað en í öðrum reitum. Fyrir mistök var einu sinni borinn fosfór á einn þessara reita. Áhrifin af því urðu þau að gróðurfar breyttist og uppskeran jókst. Þegar hætt var að uppskera tilraunina 30 árum síðar gætti þessara áhrifa enn. 
 
Ofangreindar niðurstöður undirstrika það að sáning og áburðargjöf á ógróna sanda og mela flýtir mjög landnámi gróðurs og hefur afgerandi áhrif á gróðurframvindu til lengri tíma litið. Því meir og lengur sem borið er á frumsáninguna því meiri verður uppskeran bæði ofan- og neðanjarðar og þar af leiðir að meira verður til af stöðugu lífrænu efni í jarðveginum. Þó svo að lífræna efnið sé mikilvægur grunnur fyrir framþróunina hafa aðrir þættir mikilvæg áhrif einnig, eins og t.d. berggrunnurinn, veðurþættir, hæð yfir sjó, fjarlægð frá sjó, fokefni o.fl. 
 
Í uppgræðslustarfinu hafa menn lengi horft til plantna sem binda nitur úr andrúmsloftinu og geta því sparað okkur nituráburð. Alaskalúpínan hefur reynst mjög öflug en aðrar tegundir eins og hvítsmári, rauðsmári, baunagras, giljaflækja, umfeðmingur, gullkollur, refagandur o.fl. geta einnig komið að notum. Lúpínan er umdeild en ef okkur er alvara í því að endurheimta fyrri landgæði er erfitt að sneiða alveg hjá henni. Hana á ekki að nota alls staðar og skýrar reglur þurfa að vera um notkun hennar. Það getur verið skynsamlegt að sá einhverju með henni til að hún hörfi fyrr. Fyrir mörgum árum var lúpínu sáð á Skógasandi ásamt dúnmel. Dúnmelurinn var tiltöluleg fljótur að ná yfirhöndinni þannig að lúpínan var mest í jöðrum breiðunnar. Það er auðvelt að nálgast fræ af hvítsmára og rauðsmára og þessar tegundir ætti að nota við landgræðslu þar sem skilyrði henta þeim. Það þarf að vanda yrkjaval og smita fræið með rótarhnýðisbakteríum. Sums staðar eru aðstæður svo erfiðar fyrir gróður t.d. vegna þurrka eða sandfoks að þær kalla á sérstakar aðferðir og tegundir. 
 
Beit
 
Um allan heim eru villtir grasbítar, spendýr, fuglar og skordýr sem éta gróður sér til lífsviðurværis. Fram að landnámi Íslands voru það eingöngu fuglar og skordýr sem nýttu gróðurinn en með landnáminu komu maðurinn og búféð til sögunnar. Ég hef áður skrifað um þann þátt í Bændablaðið (Guðni Þorvaldsson, 2013). Beit er ekki föst stærð, beitarálag getur verið mikið eða lítið og varað mislengi og á það jafnt við búfé sem aðra grasbíta. Beitarþunga og beitartíma búfjár er hins vegar tiltölulega auðvelt að stýra en það er mikilvægt að halda vöku sinni í því efni svo að land verði ekki ofnýtt. Villtir stofnar sem hafa aðgang að ræktuðu landi geta orðið stærri en náttúruleg búsvæði þeirra þola. Þetta þarf t.d. að hafa í huga t.d. varðandi gæsir og álftir. Þær nýta sér tún og akra bænda, einkum vor og haust. Ef túnanna nyti ekki við myndu stofnarnir grisjast meir, einkum í hörðum árum.
 
Þó svo að beit sé eðlilegt fyrirbæri í náttúrunni hafa ýmsir haft horn í síðu hennar hér á landi, einkum beit búfjár. Ég hef sjaldan heyrt menn tala gegn beit fugla eða hreindýra á hálendinu en gæs gengur þar sums staðar mjög nærri gróðri. Beit getur bæði haft neikvæð og jákvæð áhrif á land. Jákvæðu áhrifin vilja gleymast í umræðunni.
 
Á sama hátt og hófleg áreynsla styrkir mannslíkamann styrkir hóflegt áreiti af völdum sláttar, beitar, klippingar og traðks ýmsar plöntutegundir. Nýlega var kolefnisbinding mæld á opnum svæðum á nokkrum þéttbýlisstöðum í Svíþjóð (Poeplau et al. 2016). Sum þessara svæða voru slegin oft önnur sjaldan. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að svæði sem voru slegin oft bundu marktækt meira kolefni í jarðveginum en svæði sem sjaldan voru slegin. Þeir sem vinna við íþróttavelli og grasflatir vita hvað sláttur og mátulegt traðk hefur jákvæð áhrif á gróðurinn. Þetta vita einnig þeir sem stunda garðrækt, að sláttur, klipping og snyrting plantna er til góðs. Það er einnig hægt að ganga of langt í þessum efnum, ofbeita eða klippa of mikið. Þarna þarf að finna hinn gullna meðalveg. Það eru til sögur af beit á sker og eyjar við sjó þar sem jarðvegurinn skolaðist burt eftir að hætt var að beita. Þarna hefur beitin örvað rótarvöxt eða stuðlað að tegundasamsetningu sem batt jarðveginn (Sickel 1997). 
 
Stundum er talað um að ekki megi beita land nema það sé algróið. Vissulega eru til ógróin svæði sem æskilegt væri að friða á meðan þau eru grædd upp. Víða hefur hins vegar gengið vel að græða upp land samfara hóflegri beit og sjálfgræðsla hefur verið töluverð á bæði beittum og friðuðum svæðum síðustu áratugi (Borgþór Magnússon o.fl. 2006). Beit skilar búfjáráburði og beitarfénaður dreifir honum og fræi frá frjósamari svæðum á minna gróin svæði. Þegar land er alfriðað vill safnast í það mosi og sina en sinan seinkar því að jarðvegurinn hitni á vorin og heldur birtu frá nýgræðingnum og vöxtur hefst því seinna. Mosi hefur ekki eiginlegar rætur og bindur jarðveginn því ekki á sama hátt og plöntur með öflugt rótarkerfi.
 
Guðni Þorvaldsson
  
Heimildir
Borgþór Magnússon, Björn H. Barkarson, Bjarni E. Guðleifsson, Bjarni P. Maronsson, Starri Heiðmarsson, Guðmundur A. Guðmundsson, Sigurður H. Magnússon og Sigþrúður Jónsdóttir, 2006. Fræðaþing landbúnaðarins 2006, 221-232.
Guðni Þorvaldsson, 2013. Hugleiðing um sauðfjárbeit. Bændablaðið 19 (14), 33.
Kätterer, T., Bolinder, M.A., Andrén, O., Kirchmann, H., Menichetti, L., 2011. Roots contribute more to refractory soil organic matter than aboveground crop residues, as revealed by a long-term field experiment. Agriculture Ecosystems and Environment 141 (1-2), 184-192.
Poeplau C., Marstorp H. Thored K. & Kätterer T., 2016. Effect of grassland cutting frecuency on soil carbon storage – a case study on public lawns in three swedish cities. Soil (í prentun).
Sickel, H. 1997. Kystkulturlandskap i forfall - vegetasjonsdynamikk i et nedlagt øyvær på Helgelandskysten. - Universitetet i Oslo, Botanisk Hage og Museum. Cand. scient. thesis. Unpubl.
Þorsteinn Guðmundsson, Guðni Þorvaldsson og Hólmgeir Björnsson 2016. Langtímaáhrif nituráburðar á kolefni, nitur og auðleyst næringarefni í snauðri sandjörð. Skrína (Í yfirlestri).
Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...