Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Lýðræði til hvers?
Mynd / Bbl
Skoðun 24. september 2021

Lýðræði til hvers?

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Íslendingar kjósa sér að jafnaði á fjögurra ára fresti þá fulltrúa sem þeir treysta til að tala sínu máli á Alþingi Íslendinga. Það skiptir því væntanlega töluverðu máli að fólk vandi sig við valið ef það vill ekki sitja uppi með ergelsi í fjögur ár yfir að hafa veðjað á rangan hest.

Í lýðræðisríki sem byggir stjórn sína á fulltrúalýðræði geta málin talsvert vandast þegar fólk þarf að velja sinn fulltrúa sem hluta af stærra mengi einhvers flokks. Þá þarf að treysta á trúverðugleika þeirrar stefnu sem sett er fram í nafni flokksheildar og hversu líklegt það sé að flokksmenn fylgi þeirri stefnu í afgreiðslu mála á Alþingi sem þú veðjar á. Þitt er svo valið, kjósandi góður, við hvaða flokk þú merkir í kjörklefanum og þá væntanlega þér til gleði eða skapraunar næstu fjögur árin.

Fyrir Íslendinga sem þjóð og raunar allar þjóðir, stórar og smáar, hlýtur rétturinn til að stýra eigin málum að vera afar mikilvægur. Við þekkjum allt of margar sorglegar sögur af kúguðum þjóðum og þjóðarbrotum sem hafa verið undir hæl valda- og fégráðugra stjórnenda annarra þjóðflokka árum, áratugum og jafnvel öldum saman. Íslenska lýðveldið er ungt að árum og því þekktu Íslendingar það vel að vera undir stjórn annarra öldum saman.

Talað er um að Íslendingar hafi glatað sjálfstæði sínu þegar Gamli sáttmáli var gerður 1262 og allt til 1918 þegar Ísland varð viðurkennt frjálst og fullvalda ríki með eigið þing og eigin ríkisstjórn.

Reyndar mun Kristján áttundi Danakonungur hafa skipað svo fyrir árið 1840, þvert ofan í tillögur embættismanna sinna, að Íslendingum yrði gefinn kostur á að endurreisa Alþingi sem ráðgjafarþing í stað þess að sækja stéttaþing dönsku eyjanna í Hróarskeldu. Þetta virðist hafa verið sérstakt velviljaverk af æðsta ráðamanni Dana á sama tíma og hagsmunaöfl þar í landi reyndu leynt og ljóst að herða tökin á Íslandi. Þrátt fyrir þetta virtust Íslendingar hálfsofandi yfir eigin hag og var sjálfstæðisbaráttan á köflum harla máttlaus.

Segja má að fólk hafi þó aðeins vaknað til meðvitundar þegar Jörundur hundadagakonungur gerði valdaránstilraun á Íslandi sumarið 1809. Það kveikti þann neista hjá mörgum, að kannski væri til einhvers að þjóðin berðist fyrir eigin hag og reyndi að standa í lappirnar gagnvart erlendu valdi. Sjálfstæðisbaráttan náði svo hámarki í baráttu Jóns Sigurðssonar.

Dönsk yfirvöld héldu áfram að gefa slaka á sínum yfirráðum yfir Íslandi með svonefndum stöðulögum um stöðu Íslands í danska ríkinu 1871 og þegar Kristján níundi Danakóngur „gaf“ Íslendingum svo stjórnarskrá árið 1874. Fullveldi landsins var svo formlega viðurkennt 1918. Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku 1940 sögðu Íslendingar skilið við Dani og fengu svo viðurkenningu á sjálfstæði landsins 1944 með stofnun lýðveldis.

Þegar litið er yfir þessa sögu á hálfgerðu hundavaði er ekki laust við að maður verði hugsi varðandi stefnu sumra pólitískra afla sem bjóða nú fram krafta sína á Alþingi Íslendinga. Eftir alla þá baráttu sem á undan er gengin, hvers vegna í veröldinni ættu Íslendingar þá að afsala sér hluta af sínu ákvörðunarvaldi í hendur á erlendri ríkjasamsteypu? Hvers vegna ERU Íslendingar með ákvörðunum Alþingis að innleiða regluverk frá erlendri ríkjasamsteypu sem setja okkur skorður og skilyrði um hvernig við högum okkar eigin málum? – Erum við virkilega komin niður á sama vesældarplan og ríkti á átjándu og fram á nítjándu öld gagnvart rétti okkar til að stýra eigin málum? – Til hvers förum við þá á kjörstað?

Skylt efni: lýðræði | Fullveldi

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...