Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Orkukreppan hófst strax á árinu 2019
Mynd / Heimildir: https://agridata.ec.europa.eu/extensions/DataPortal/food-supply-security.html og Hagstofa Íslands.
Skoðun 16. janúar 2023

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni

Árið 2022 var sögulegt, eftir tveggja ára baráttu við Covid-19 sjúkdóminn, sem er þó alls ekki lokið, braust út stríð í Evrópu. Þessir atburðir hafa leikið efnahag heimsins grátt.

Erna Bjarnadóttir.

Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir má þó að einhverju leyti rekja til breytinga sem áttu sér stað áður en Covid -19 faraldurinn skall á.

Matvælaverð heima og heiman

Verðbólga lék flest lönd heims grátt á árinu 2022. Sem dæmi reyndist tólf mánaða verðbólga í löndum ESB, miðað við nóvembermánuð, vera 11,1% að meðaltali en á sama tíma hækkaði matvælaverð um 18,3%.

Hér á landi mældist á sama tíma 9,3% verðbólga og verð á matvælum hækkaði um 10,4% sama tíma. Reyndist það minni hækkun en í nokkru landi innan ESB.

Sem dæmi hækkaði verð á mjólk, ostum og eggjum að meðaltali um 26,7% innan ESB á meðan hækkunin hér á landi nam 12,2%.

Á nýju mælaborði ESB um fæðuöryggi má með auðveldum hætti nálgast þessar upplýsingar fyrir lönd ESB. Það kemur eflaust mörgum á óvart að sjá Ísland sitja í neðsta sæti í þessum hópi en má án vafa rekja til þess að hækkanir á orkuverði hafa hingað til ekki lagst með jafn miklum þunga á virðiskeðjuna hér á landi samanborið við þessi nágrannalönd.

Á orkukreppan sér dýpri rætur?

Stríðið í Úkraínu hefur ýtt undir hækkanir á orkuverði síðustu misseri. Staðan var þó viðkvæm fyrir.

Í nýlegu viðtali í Green European Journal var Helen Thompson hagfræðingur spurð út í aðdraganda orkukreppunnar og stöðuna í Evrópu um þessar mundir.

Thompson bendir þar á að fyrir það fyrsta varð samdráttur í olíuframleiðslu heimsins á árinu 2019 sem leiddi til þess að bil myndaðist milli framboðs og eftirspurnar.

Þegar hagkerfi heimsins tóku við sér eftir heimsfaraldurinn fór verð á olíu að hækka sem olli áhyggjum stjórnvalda í Bandaríkjunum og Evrópu. Annar viðsnúningur varð síðan þegar eftirspurn Kína eftir gasi jókst verulega á árinu 2021.

Þetta leiddi til mikillar samkeppni um gas, einkum milli Evrópu og Kína. Áhrif þessa á framfærslukostnað Evrópubúa komu fram strax haustið 2021.

Stríðið í Úkraínu hefur aukið áherslu á orkuskipti. Spurð hvort við eigum að reyna að sameina viðbrögð okkar við loftslagskreppunni og öryggisáhyggjum Evrópu svaraði Thompson að það megi setja það fram með þeim hætti. Hægt sé að ramma viðfangsefnið í kringum þörfina á að breyta orkunotkun okkar bæði af því það gerir okkur háð löndum eins og Rússlandi og vegna loftslagskrísunnar.

Þannig þurfi almenningur að ganga í gegnum ákveðna erfiðleika en um leið eygja þá von að hægt sé að framleiða mikla orku án mikillar losunar kolefnis.

Gallinn við þessa sviðsmynd er hins vegar að sneitt er framhjá mikilvægum hluta myndarinnar í tengslum við takmarkanir á jarðefnaeldsneyti. Sú saga sem t.d. Emmanuel Macron og [fyrrum] forsætisráðherra Bretlands, Liz Truss, notuðu – „við þurfum bara að þola þetta vegna Úkraínu“ – gerir ráð fyrir því að ef og þegar stríðinu lýkur muni orkukreppan ganga yfir. Það mun ekki gerast, segir Thompson.

Þar að auki mun framtíð þar sem losun kolefnis af manna völdum verður minni en hún er nú, ekki breyta því að Evrópa verður áfram háð auðlindum eins og t.d. málmum annars staðar að úr heiminum.

Nýtt ár – hvað mun það bera í skauti sér?

Samkvæmt samantekt Alþjóðabankans hefur hrávöruverð farið almennt lækkandi síðustu mánuði. Verð á orkugjöfum eins og olíu, gasi og kolum er þó enn hærra og jafnvel mun hærra en undir árslok 2021 (nóvember ́21 – nóvember ́22). Verð á korni er einnig hærra en fyrir einu ári. Það þarf því ekki að koma á óvart að verð á kjúklingakjöti á heimsmarkaði var 41% hærra í nóvember ́22 en í nóvember ́21. Nokkuð sem hlýtur að koma illa við hag neytenda víða um heim. Fosfór- og kalíáburður er enn langtum hærri í verði en í árslok 2021 en verðhækkanir á köfnunarefnisáburði hafa gengið til baka.

Vísitala áburðarverðs, sem byggir á upplýsingum frá Alþjóðabankanum, hefur því lækkað úr 204,51 stigi í nóvember 2021 í 201,83 stig í nóvember 2022. Í nóvember 2020 stóð sama vísitala hins vegar í 77,14 stigum og hefur verð á áburði því hátt í þrefaldast á tveimur árum.

Nú spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samdrætti í þriðjungi ríkja heimsins á nýbyrjuðu ári. Stríðið í Úkraínu, stýrivaxta- og verðhækkanir og útbreiðsla Covid-veirunnar í Kína eru meðal þeirra vandamála sem blasa við efnahagskerfum heimsins.

Það er því útlit fyrir að matvælaframleiðsla standi áfram frammi fyrir miklum áskorunum og að verð á matvælum verði áfram hátt í sögulegu samhengi með tilheyrandi afleiðingum fyrir þau sem við kröppust kjör búa í heiminum.

Skylt efni: Matvælaverð

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...