Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Rangt gefið
Skoðun 11. júní 2018

Rangt gefið

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Það er og hefur verið rangt gefið í peningamálum landsins um langt árabil. Það er því fagnaðarefni að þeir sem fara fyrir framkvæmd peningastefnunnar, Seðlabankinn sjálfur, skuli nú vera búinn að viðurkenna að þessi gjörningur sé rangur.

Hagræðingarnefnd hefur verið að störfum í Seðlabankanum um nokkurt skeið til að skoða hvað betur megi fara í peningamálastefnunni sem þar er iðkuð. Nú leggur nefndin til í skýrslu sem ber heitið „Framtíð íslenskrar peningastefnu“ að völd Seðlabankans verði aukin og að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr verðbólgumarkmiði. Reyndar eru færðar fram 11 tillögur um endurbætur á peningastefnunni.

Það er fullt tilefni til að hrósa skýrsluhöfundunum Ásgeiri Jónssyni, Ásdísi Kristjánsdóttur og Illuga Gunnarssyni fyrir að hafa komist að þessari niðurstöðu. Samt má alveg halda því fram að það þurfti enga nefnd til að komast að þessum sannleika. Skýrsluhöfundar segja réttilega: „Sérhver peningastefna hefur kosti og galla. Það skiptir ekki höfuðmáli hvaða stefna er valin – heldur að farið sé eftir þeim leikreglum sem hvert fyrirkomulag krefst á hverjum tíma.“

Einmitt það, af hverju í ósköpunum hafa stjórnvöld og Seðlabankinn þá valið að fara ekki að leikreglum?

Fyrir hvern eða hverja hefur peningastefnan verið rekin? Er það fyrir þjóðina eða hefur það verið fyrir einstaka hagsmunahópa?

Varðandi völd Seðlabankans, t.d. er lýtur að peningaútgáfu, þá hefðu menn einfaldlega átt að fara að lögum um Seðlabankann í stað þess að afsala sér í raun með aðgerðarleysi þeim völdum til viðskiptabankanna. Þeir hafa komist upp með að búa til innistæðulausa rafmynt til að gambla með um langt árabil og rakað til sín peningum úr samfélaginu á fölskum forsendum og um leið gert peningastjórn Seðlabankans vita máttlausa.

Í einni af 11 tillögum nefndarinnar er komist að þessari merkilegu staðreynd sem fjölmargir hafa bent á í gegnum tíðina.

„Á Íslandi er málum svo háttað að ríflega fjórðung vísitölu neysluverðs má rekja til húsnæðisverðs. Þetta getur valdið óheppilegri skörun á milli markmiða um verðstöðugleika annars vegar og fjármálastöðugleika hins vegar. Ekki aðeins fyrir þær sakir að Seðlabankinn þurfi að beita stýrivöxtum til þess að hafa hemil á húsnæðisverði sem hefur 25% í verðbólgumarkmiði bankans heldur hafa vextir bankans mjög takmörkuð áhrif á húsnæðisverð sökum þess að vaxtaleiðni hérlendis frá stýrivöxtum yfir til lengri verðtryggðra vaxta er afar veik og tölfræðilega ómarktæk.“

Árum saman hefur verið vitað að þetta er í ósamræmi við framkvæmd peningastefnu í öllum okkar viðskiptalöndum og skrúfar upp verðbólgu. Þannig hefur þessi eini liður haft hundruð milljarða af almenningi og fyrirtækjum á liðnum árum og gert venjulegt launafólk að þrælum bankanna. Var m.a. bent á þetta ósamræmi í þessum dálki í síðasta Bændablaði og vísað í tölur Eurostat.

Það versta varðandi framkvæmd útreiknings á neysluvísitölunni á Íslandi er að hún hefur stórskaðað allan almenning á Íslandi. Þannig hefur fjöldi fólks misst aleigu sína vegna þess að rangur vísitöluútreikningur hefur í tengslum við verðtryggingu skrúfað upp skuldastöðu fólks. Margir hafa líka bugast í baráttunni við þetta óréttlæti og ákveðið í kjölfarið að yfirgefa þessa jarðvist. Þetta er grafalvarlegt mál og snýst ekki bara um einhvern leik að tölum, heldur fólk af holdi og blóði. Ábyrgð þeirra sem stýrt hafa þessum ósóma er því óhugnanlega mikil. 

Skylt efni: Skoðun

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...