Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Tækifæri í kynbótum nytjajurta
Skoðun 19. ágúst 2021

Tækifæri í kynbótum nytjajurta

Höfundur: Kári Gautason, sérfræðingur hjá BÍ

Bóndi fyrir austan hélt því fram að það væri eins og menn hefðu tekið sér frí frá kynbótum á nytjajurtum.

Þetta minnti hann á söguna af konunni sem hafði fylgst lengi með tveimur mönnum sem skiptust á við að grafa holu og fylla upp í hana. Hún spurði að lokum hvað í ósköpunum þeir væru að gera? Það stóð ekki á svarinu: „Við vinnum hjá borginni og sá sem sér um að planta trjánum er í fríi.“

Síðustu áratugi hefur framleiðni í íslenskum landbúnaði aukist gríðarlega. Hluti þeirrar framleiðniaukningar er vegna innleiðingar á nýrri tækni í húsakosti og vélum, bættri fóðrun og þess háttar. En stór hluti er vegna kynbóta á búfé og jurtum. Framleiðniaukning vegna kynbóta hefur í för með sér varanlega breytingu þannig að minna verður meira. Í sögunnar rás hafa kynbætur á dýrum og plöntum verið það sem skilur að veiðimannasamfélög fornaldar og siðmenningu flókinna samfélaga nútíma. Kýr á Íslandi mjólka margfalt meira en þær gerðu fyrir hundrað árum og um það bil tvöfalt miðað við fyrir þrjátíu árum. Nota þyrfti sömu verkfærakistu í skógrækt og landgræðslu til þess að auka árangur í umhverfismálum.

Síðustu áratugina hafa bændur semsagt varið miklu fé í kynbætur til þess að bæta samkeppnis­hæfni sína. Ríkið kemur að því starfi í gegnum búvöru­samninga, enda eru kynbætur ein öruggasta fjárfesting sem hægt er að stunda. Nú síðast hafa kúabændur og afurðastöðvar þeirra fjárfest í því að hefja innleiðingu á nýjustu tækni í kynbótum mjólkurkúa, erfðamengisúrvali. Það má teljast til mikillar framsýni kúabænda að hefjast handa við innleiðingu erfðamengisúrvals nokkurn veginn um leið og sýnt hefur verið fram á að það væri yfirhöfuð hægt í eins litlum stofni og búið er við hérlendis. Sama metnaði hefur ekki verið fyrir að fara á öðrum sviðum.  

Hunsum ekki plöntukynbætur

Kynbætur á nytjajurtum hafa ekki fengið föst framlög, því hefur það starf verið háð mikilli óvissu um úthlutun styrkja úr hinum ýmsu sjóðum. Slíkt er ótækt til lengdar. Landbúnaður byggir á nýtingu jurta, hvort sem þær eru nýttar beint til manneldis eða notaðar sem aðföng í framleiðslu kjöts og mjólkur. Því er ekki hægt að hunsa grunninn – plöntukynbætur. Fleiri atriði skipta þó máli hér. Um áratugaskeið hefur Landgræðslan haldið úti verkefninu „Bændur græða landið“. Allan þann tíma hafa framfarir í því góða starfi verið afar litlar – bændur fá úthlutað túnvingli og tilbúnum áburði ár eftir ár. Lítið eða ekkert hefur verið unnið að því að kynbæta túnvingulinn eða stunda á því rannsóknir hvaða aðrar tegundir mætti nýta til þess að flýta fyrir uppgræðslu.

Um þýðingu kynbóta má taka dæmi úr annarri átt. Þangað til nýlega stóð bændum til boða þrjátíu ára gamalt erfðaefni í nautakjötsframleiðslu. Á þessu varð breyting með innflutningi á nýju erfðaefni í holdanautastofninn. Hún hefur skilað miklum framförum í gæðum og framleiðni. Sama krafa ætti að vera uppi gagnvart plöntukynbótum – að minna verði meira. 

Sameining krafta í kynbótum

Raunar má færa fyrir því rök að sameina ætti krafta í kynbótum á einn stað. Það gildir einu hvort verið er að kynbæta húsdýr eða plöntur – allt byggir þetta á sömu lögmálunum. Hægt er að beita erfðamengisúrvali og því er beitt með góðum árangri í nytjajurtarækt erlendis. Skógræktin hefur stundað kynbætur að einhverju marki en að því er virðist aðallega með aðferðum liðinnar aldar. Þær aðferðir hafa þó nýst vel í því að gera tré úr hinu smávaxna og kræklótta íslenska birki. Þar hefur Þorsteinn Tómasson, fyrrv. forstjóri RALA, unnið merkilegt starf, sem hefur skilað sér í hraðvaxta og beinvöxnu birki. Í skógrækt eru kjöraðstæður fyrir upptöku erfðamengisúrvals. Ættliðabil í skógrækt er gríðarlangt og mikill akkur af því að stytta það – líkt og hægt er með erfðamengisúrvali. Með því að stytta ættliðabið má auka framfarir um tugi eða hundruð prósenta á ári.  

Nútíminn í landgræðslu og skógrækt

Besta leiðin til að ná árangri er að setja á fót kynbótamiðstöð nytjajurta á grunni jarðræktarmiðstöðvar Landbúnaðarháskólans. Verkefni miðstöðvarinnar væru mjög einföld. Setja þarf ræktunarmarkmið í samvinnu við bændur og aðra hagaðila – sem eru stærstu notendur þessarar vöru, trjáplantna eða landgræðslujurta. Vinna þarf svo skipulega með nýjustu tækni og leiðir við að ná árangri í ræktun. Allt eru þetta þekktar aðferðir sem notaðar hafa verið í marga áratugi til þess að margfalda framleiðni í landbúnaði. Það er tími til kominn að stórbæta efniviðinn í landgræðslu og skógrækt á Íslandi. Tími til þess að plöntukynbótafríinu ljúki og hafist verði handa.

Kári Gautason, sérfræðingur hjá BÍ

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...