Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fulltrúar málshöfðunarinnar Gráa hersins og VR; Ingibjörg Sverrisdóttir, Wilhelm Wessman og Sigríður Stefánsdóttir og Svanhildur Þórsteinsdóttir. Fremri röð: Harpa Sævarsdóttir, Ragnar Þór Ingólfsson og Þorbjörn Guðmundsson.
Fulltrúar málshöfðunarinnar Gráa hersins og VR; Ingibjörg Sverrisdóttir, Wilhelm Wessman og Sigríður Stefánsdóttir og Svanhildur Þórsteinsdóttir. Fremri röð: Harpa Sævarsdóttir, Ragnar Þór Ingólfsson og Þorbjörn Guðmundsson.
Mynd / Grái herinn
Skoðun 5. júní 2020

Til skammar

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Réttur borgara í lýðræðisríki og skilvirkni í stjórnsýslu Íslands er fyrirbæri sem án efa er löngu kominn tími til að setja framar í goggunarröð kerfisstjórnenda á Íslandi. 
 
Ástæður þess að þetta er hér nefnt eru fjölmörg mál, þar sem kerfið virðist vera til kerfisins vegna, en ekki vegna fólksins sem það átti upphaflega að þjóna. 
 
Vandi er að spá í hvort þetta stafar af  því að stjórnendur eru ráðnir þar inn á röngum forsendum eða eru ekki hæfir til verksins. Mun líklegri skýring er þó trúlega sú að lögin og regluverkið á bakvið stofnanirnar séu svo illa unnin og svo flókin að starfsfólkið skilur ekki til hvers er ætlast af því. Kannski er það líka meðvitað að gera kerfið svo flókið að það þurfi helst sérfræðinga í alþjóðalögum, sanskrít eða forn-egypsku á svimandi launum til að túlka hvað alþingismenn hafi raunverulega meint með lagasetningunni.   
Þetta á því miður ekki síst við stofnanir sem sérstaklega er ætlað að þjóna þeim viðkvæmustu á meðal vor, öldruðum og öryrkjum. Gildir þá einu þótt einstaklingar hafi dómsúrskurði upp á vasann um að hafa verið beittir misrétti af viðkomandi stofnun. Útkoman er sú að skjólstæðingar stofnananna upplifa það að kerfið vinni beinlínis gegn þeirra hagsmunum. 
 
Skerðing á bótum öryrkja sem sýna viðleitni til að afla sér aukatekna er ein birtingarmynd þessa. Þar hefur ríkisstofnun verið beitt af fullri hörku með svívirðilegri valdníðslu gagnvart þeim sem minnst mega sín. 
 
Lífeyrismál og misbeiting stofnana til að hafa af eldri borgurum áunnin lífeyrisréttindi er síðan stórmál af sama meiði. Það hefur nú leitt til þess að þrír félagar úr Gráa hernum, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, hafa að beiðni og fyrir hönd samtakanna höfðað mál á hendur Tryggingastofnun fyrir hönd íslenska ríkisins vegna skerðinga stofnunarinnar á ellilífeyri og heimilisuppbót á móti greiðslum frá lífeyrissjóðum.
 
Í stefnunni er það rakið að kerfi skyldulífeyrissparnaðar, sem komið var á fót með kjarasamningum á árinu 1969, hafi verið ætlað að koma til viðbótar en ekki í stað almannatrygginga. Með núverandi skerðingum sé verulegur hluti þess ávinnings sem rekja má til lífeyrissjóðakerfisins hins vegar færður frá sjóðfélögum til ríkisins. 
 
Í stað þess að sjóðfélagar fái sjálfir notið lífeyrissparnaðar síns eru réttindi þeirra í lífeyrissjóðunum notuð til að draga úr útgjöldum ríkisins til almannatrygginga. Um er að ræða ígildi eignaupptöku á allt að 72,9% greiðslna frá lífeyrissjóðunum að mati Gráa hersins. Bent er á að þetta sé brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi eignarréttarins, og ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans, sem leggja bann við mismunun.
 
Það er blóðugt að eldri borgarar og öryrkjar þessa lands þurfi að standa í stöðugu stappi við kjörna fulltrúa þjóðarinnar til að tryggja afkomu sína. Það er í hæsta máta undarlegt að þjónar fólksins á Alþingi Íslendinga skuli stilla sér þannig upp gegn þessum hluta þjóðarinnar. Að þeir semji lög og reglur sem eru túlkaðar á þann hátt að heimilt sé að beita stofnunum ríkisins beinlínis gegn þessum þjóðfélagshópum. Á sama tíma þykir ekkert tiltökumál að ríkið veiti stóreignamönnum heimild til að braska með helstu auðlindir þjóðarinnar, sem meta má á hundruð, ef ekki þúsundir milljarða króna, rétt eins og þeir eigi þær.  – Er ekki mál að þessari svívirðu linni? 
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...