Vegabætur strax
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samgöngur og þar með talið vegakerfið eru lífæð landbúnaðar og byggðar um land allt. Því er það mikið áhyggjuefni að það skuli búið að vera fjársvelt eins og raun ber vitni í heilan áratug.
Samkvæmt úttekt Gamma vantar ekki minna en 230 milljarða til að koma innviðum landsins í skaplegt horf. Í þessum pakka eru samgöngumannvirki, flutningar, framleiðsla og flutningur orku og vatns og fjarskiptainnviðir. Hins vegar eru samfélagsinnviðir sem í felast menntun, heilbrigði, réttarkerfi, menning og afþreying.
Ætla má að það þurfi ekki minna en 100 milljarða til að lagfæra vegakerfi landsins svo það sé mönnum bjóðandi. Síðan þurfi að lágmarki 20 milljarða á ári til að viðhalda kerfinu. Þetta er verkefni sem þjóðin (kjósendur) ætlast til að alþingismenn leysi. Kjósendur ætlast örugglega ekki til þess að þingmenn samþykki samhljóða tillögur á Alþingi sem miða að lausn á þessu máli korter í kosningar og svíki það svo nokkrum vikum seinna og beri þá fyrir sig að ekki sé til fjármagn. Væntanlega voru allir þingmenn bæði með opin augu og eyru þegar aukin framlög til vegamála voru samþykkt í haust. Þá lá fyrir hvað þurfti mikið fjármagn í samgöngumálin og það var í verkahring þingmanna að sjá til þess að tryggja nauðsynlegt fjármagn.
Ef þetta vefst mjög mikið fyrir mönnum þá má benda á nokkra hluti. Bíleigendur og vinnuvélarekendur eru í dag rukkaðir í heild um gjöld af ýmsu tagi sem nema líklega um 70 milljörðum króna. Það er því ekki hægt að segja að þessi hópur, sem í eru flest heimili landsins, sé ekki þegar að borga fullt gjald fyrir afnot af vegakerfinu og vel það.
Gallinn er að stærstur hluti af framlagi umferðarinnar í ríkissjóð er notaður til annars en að bæta og viðhalda vegakerfinu. Svo mjög hefur verið gengið á vegafé að vegakerfið um allt land er hreinlega að eyðileggjast og enn á að róa á sömu mið. Er nú svo komið að hættulegustu ferðamannastaðirnir á landinu sem kosta flest mannslíf og ómælt heilsutjón er vegakerfið sjálft. Ætlar einhver að reyna að halda því fram að þingmenn beri enga ábyrgð á þessu?
Ef menn vantar pening til bráðnauðsynlegra verkefna í samgöngumálum, þá ber mönnum að leysa það. Varla vilja Íslendingar hafa til frambúðar ótiltekinn fjölda mannslífa á samviskunni sem óhjákvæmileg afföll vegna ónýtra vega.
Forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar hafa greint frá því að áætluð tekjuaukning ríkissjóðs vegna aukningar í ferðaþjónustu á árinu 2017 sé um 20 milljarðar króna. Við það bætist aukið innstreymi ríkissjóðs á undanförnum árum vegna stórfjölgunar á erlendum ferðamönnum. Þrátt fyrir þetta innstreymi er vart hægt að merkja það í innviðauppbyggingu á ferðamannastöðum, eins og varðandi salernisaðstöðu, lagfæringu á öryggisgirðingum, eða bílastæðum. Þar er enn sami vandræðagangurinn og helst að röflað hafi verið um það árum saman í kostnaðarsömum nefndum hvort það eigi að taka komugjöld af ferðamönnum eða ekki. Ef þetta er svona mikið vandamál, af hverju hækka menn þá ekki virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna í landinu þannig að hún standi þar jafnfætis öðrum atvinnurekstri? Þar mætti sækja nokkra milljarða á ári.
Það er enginn að kalla eftir fleiri nefndum til að skila skýrslum til að fylla skúffur ráðherra. Það er bara verið að kalla eftir að menn leysi málin á skjótvirkan hátt. Ef menn telja nauðsynlegt að leggja á komugjöld á farþega, þá á hiklaust að gera það. Þar væri hægt á fljótlegan hátt að sækja 4 til 5 milljarða á ári með tvö þúsund króna gjaldi á haus. Það mætti líka setja upp ýmsa aðra gjaldtöku án þess að leggja enn einn skattinn á þá sem aka um ónýta vegi landsins.