Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson ábúendur að Kaldbak á ofanverðum Rangárvöllum með snævi þakta Heklu í bakgrunninum.
Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson ábúendur að Kaldbak á ofanverðum Rangárvöllum með snævi þakta Heklu í bakgrunninum.
Líf&Starf 9. febrúar 2017

Flangsvesenoglætiklanka

Höfundur: Vilmundur Hansen

Nöfn á sauðfé eru fjölbreytt en algengast mun vera að nefna það eftir útlitseinkennum eins og lit eða hornalagi. Nöfn sem vísa til skapgerðar eru einnig vel þekkt. Ábúendur að Kaldbak á Rangárvöllum viðhalda annarri og sérkennilegri nafnahefð fyrir sauðféð sitt.

Algeng nöfn sem tengjast lit, hornalagi og skapgerð eru Fönn, Gríma, Flekka, Móra, Botna, Frekja og Blíða. Algengustu nöfn á ám á Íslandi munu vera Hvít, Gul, Hyrna og Kolla.

Einnig er þekkt að bændur nefni allar ær í ásetningsárgangi með nafni sem byrjar á sama bókstaf og vita þannig hvaða ár viðkomandi ær eru fæddar.

Eflaust kannast færri við ærnöfn eins og Úrkoma, Væta, Klettaklanka, Sigurklanka eða Hæ-Kola, Hæ-Gjöf, Hæ-Fósturlandsinsfreyja og Flangsvesenoglætiklanka.

260 ær og mikil skógrækt

Sigríður Heiðmundsdóttir og Viðar Steinarsson, ábúendur að Kaldbak á ofanverðum Rangárvöllum, eru með sauðfé, hross og skógrækt auk þess sem þau eru að breyta fjósinu í gistiheimili og aðstöðu fyrir ferðamenn.

Viðar segir þau vera með um 260 vetrarfóðraðar kindur sem þau þekkja allar með nafni og um 40 hross. „Við höfum stundað skógrækt í samvinnu við Suðurlandsskóga í tæp þrjátíu ár og ræktum skóg á um annað hundrað hekturum við Ytri-Rangá en alls er Kaldbakur  um 400 hektarar að stærð. Ætli við séum ekki að setja niður um 10 þúsund plöntur á ári og árangurinn er mjög góður. Mest hefur verið sett niður af birki. Ösp og stafafura dafna einnig vel en greni hefur aftur á móti átt erfiðara uppdráttar. Svo er nýtt afbrigði af lerki sem heitir Hrymur sem lofar góðu.“

Auk skógræktar hafa Sigríður og Viðar verið virk í ræktunarstarfi búfjár. Í dag eru hrútar og stóðhestar frá þeim landsþekktir og meðan þau bjuggu með kýr komu nokkur naut frá þeim á Nautastöð Bændasamtaka Íslands að Hesti í Borgarfirði.

Nafn gimbra frá móður

Sigríður, sem er fædd og uppalin á Kaldbaki, segir langa hefð fyrir því að ánum í sveitinni sé gefið nafn. „Ég, eins og aðrir krakkar hér í sveitinni, átti mínar kindur og vandist því að gefa þeim nöfn. Þrátt fyrir að nöfnin sem kindurnar fengu séu ekki endilega hefðbundin sauðfjárnöfn byggja þau á ákveðnu kerfi sem felst í því að gimbrar halda að hluta nafni móður og er það eins konar ættarnafn.

Þegar foreldrar mínir fluttu að Kaldabaki, árið 1958, hafði móðir mín með sér nokkrar kindur og margar þeirra báru heitið Klanka sem hluta af nafni sínu, eins og Hólaklanka, Klettaklanka og Sigurklanka.

Klönku-nafnið kom til þannig að móðir mín heitir Klara og bróðir hennar stríddi henni með því að uppnefna hana Klönku. Hún kallaði svo fyrstu kindina sína Klönku eftir uppnefninu. Í framhaldinu komu svo Gullklanka, Sjarmklanka og fleiri gimbrar með Klönku-nafninu.“

Viðar segir annað svona kyn eins og þau kalla hálfnöfnurnar eða ær sem bera skyld heiti sé vætukynið. „Má þar nefna nöfn eins og Úrkoma, Væta, Rigning, Suddavæta og Slydda.“

Hæ-kynið

Stærst af þessum kynjum er Hæ-kynið hennar Sigríðar. „Þegar ég var barn gaf móðurbróðir minn mér kind sem ég nefndi Hæ-Móru. Sú kind varð reyndar ekki langlíf þar sem hún rotaði sig þegar hún stökk á dyrakarm í fjárhúsunum. Þá kom önnur Hæ-Móra og út frá henni er allt Hæ-kynið komið.“

Viðar segir að hægt sé að rekja stóran hluta fjárstofnsins á Kaldbaki til Hæ-Móru og í kjölfar hennar hafi komið kindur sem báru heiti eins og Hæ-Kola, Hæ-Gjöf, Hæ-Prýði, Hæ-Vissa, Hæverska og ein sem hét Hæ-Fósturlandsinsfreyja.“

Aðspurð segir Sigríður að fram til þessa hafi engin kind fengið heitið Hæ-Lux.

Einföld ættrakning

Nafnakerfið virkar þannig að þegar ær af kyni sem ber fornafnið Hæ eins, og til dæmis Hæ-Móra, eignast gimbur fær gimbrin sjálfkrafa Hæ sem fornafn og eitthvað annað eftirnafn eins og Gjöf, Prýði eða Óprýði og heitir því Hæ-Gjöf, Hæ-Prýði eða Hæ-Óprýði. Svipað er að segja um ær sem bera nafnið Klanka nema hvað Klanka er ávallt seinni hluti nafnsins eins og Óvartklanka eða Breiðholtsklanka.

Hæ- og Klönku-heitin eru því nokkurs konar ættarnöfn en viðbótin heiti viðkomandi einstaklings. Þannig geta Hæ- og Klönku-nöfnin teygst í margar kynslóðir og einfalt er að rekja þau aftur til formæðranna.

Sigríður og Viðar segjast reyna að skrá nöfnin í einu orði en að stundum gangi það einfaldlega ekki upp eins og í tilfelli Hæ-kynsins og að þá hafi þau bandstrik á milli nafnanna.

Nöfnin hafa verið skráð samviskusamlega í fjárbækur í marga áratugi og í dag eru þau skráð í Fjárvís.

Nafnarunur

Nöfn ánna á Kaldbak áttu fyrr á árum til að verða nokkuð löng eins og Hæ-Fósturlandsinsfreyja, Úrkomaígrennd, Sjöundalautaskjól, Hikasamaogtapaskúr, Haltukjafti­klanka og Varsamtilklanka.

Dramatískasta nafnið til þessa er Allarsorgirheimsins og þau lengstu Allarmérdettadauðarlýsúrhöfði og Flangsvesenoglætiklanka og allt í einu orði.

Sigríður segir að undanfarin ár hafi verið tilhneiging til að stytta nöfnin svo þau komist fyrir í reitnum fyrir ærnöfn í Fjárvís.

Uppruni nafnahefðarinnar líklega á Heklubæjunum

Sigríður segist ekki viss hvaðan nafnagiftahefðin sé upprunnin. „Í Hólum og Næfurholti á Rangárvöllum hefur alltaf verið hefð fyrir því að gefa ánum nöfn.  Svipuð nafnahefð og við notum þekkist á bæjum á ofanverðum Rangárvöllum og líklega má rekja uppruna hefðarinnar til Heklubæjanna. Hingað kom hefðin með mömmu frá Hólum sem er einn af Heklubæjunum.“

Viðar telur að uppruna hefðarinnar sé að leita í þeirri viðleitni að halda til haga ættum og skyldleika fjárins áður en formleg skráning hófst.

Ný nafnakyn 
 
Viðar segir að annað slagið gerist það að til verði ný nafnakyn. „Slíkt á aðallega við um aðkomukindur og þegar krakkarnir hafa fengið kindur og viljað sjálf gefa þeim nafn. 
Ég kom að Kaldbak um árið 1980 og með fáeinar kindur með mér frá Árnagerði í Fljótshlíð. Þær voru kallaðar Gránukynið þar sem þær voru undan grárri rollu sem ég átti einu sinni. 
 
Ein greinin af Gránukyninu, sem kallast Larissukynið, bar eingöngu rússnesk nöfn eins og Garúska, Babúska, Volga og Moskva og ættmóðirin hét auðvita Larissa í höfuðið á eiginkonu Boris Spassky. Þegar við vorum uppiskroppa með slík nöfn varð til ný grein sem bar eingöngu prinsessu- og drottningarnöfn, mest norsk og dönsk.
 
Það er því engin ákveðin regla um það hvernig ný nafnakyn verða til. „Við ákveðum það bara sjálf þegar okkur hentar og stundum endurnýtum við nöfn eftir að kindur eru felldar eða drepast.“
 
Amboða og fiskanöfn 
 
Önnur nafnakyn sem gaman er að nefna eru ær sem heita eftir amboðum. Þar má nefna Hrífu, Skóflu, Kvísl, Reku, Ausu, Skeið, Sög, og Geispa eftir áhaldi sem notað er til að gróðursetja smáplöntur. Annað kyn var nefnt eftir eyjum við Noregsstrendur. 
 
„Eldri dóttir okkar fékk kind með Klönku-nafninu í tannfé og viðhélt þeirri nafnahefð með því að setja ávaxtanafn framan við og hétu kindurnar hennar nöfnum eins og Ferskjuklanka og Plómuklanka.
 
Yngri dóttir okkar ákvað aftur á móti að nefna sínar kindur eftir fiskum og hafa þær heitið nöfnum eins og Ýsa, Rækja, Síld, Lúra, Flyðra, Lúða, Skata og Bleikja,“ segir Sigríður.
 
Yfirfært á hrossin
 
Viðar segist stundum nota svipað kerfi á hrossin á Kaldbak eins og notuð eru á sauðféð. „Eitt nafnakynið eru afkomendur Sunnu en hennar afkvæmi hafa fengið nöfn eins og Sólar, Sólon, Sól og Sóllilja.  
 
Akafía og Dimitría 
 
Viðar og Sigríður segjast hafa mjög gaman af því að gefa ásetningunum á haustin  nöfn. „Stundum gengur nafnagjöfin eins og í sögu en stundum er hún erfiðari. Okkur tekst líka misjafnlega upp og stundum eru nöfnin venjuleg og margnotuð en stundum frumleg og jafnvel bráðfyndin.“
 
Sigríður segist hafa verið mjög ánægð með nöfnin á systrum sem settar voru á í haust af Larissukyni. „Þær eru dætur Alínu og heita Akafía og Dimitría.“ 
 

Skylt efni: Kaldbak | nafnahefð | Sauðfé

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....