Helga á Engi í félagsskap „vina sinna“
Mynd úr safni Bændasamtakanna. Með henni fylgir vélritaður miði sem á stendur: „Helga á Engi í félagsskap „vina sinna“, Skjóna frá Vatnsleysu í Biskupstungum og Kolbrúnar frá Sveinskoti á Álftanesi. Helga er einn af þessum „auðkýfingum sálarinnar“, sem í landi okkar hefur barizt við örbirgð og erfiðleika í einstæðingsskap æskuára og ekkjudómi þroskaára. Hennar auðlegð er endurnærð hrifning í síbylju í hvert skipti sem hún heyrir, sér eða skynjar einhverja fegurð, listsköpun, kærleika eða sigraða sorg.“ Helga Þórðardóttir Larsen frá Engi var fædd 1901 og lést 1989. Hún ólst upp í Tungunum og flutti til Reykjavíkur um tvítugsaldurinn. Hún giftist í Danmörku en missti mann sinn 1937. Árið 1952 fluttist hún að Engi í Mosfellssveit. Árið 1963 kom út viðtalsbók um hana, rituð af Gísla Sigurðssyni, sem bar titilinn Út úr myrkrinu. Af heimildum að dæma var Helga aðsópsmikil og skörungur hinn mesti.