Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Spunasystur hittast hálfsmánaðarlega og láta ekki óblítt veður stoppa sig.
Spunasystur hittast hálfsmánaðarlega og láta ekki óblítt veður stoppa sig.
Mynd / Aðsend
Hannyrðahornið 11. maí 2021

Mikil gróska í félagsstarfi ullarvinnsluhópa og ýmis tækifæri eru í nýtingu hráefnisins

Höfundur: smh

Á dögunum var haldinn fyrsti Evrópski ullardagurinn. Ísland tók þátt í viðburðinum og safnaðist fólk saman í smærri og stærri hópum til að upplifa viðburðinn í beinu streymi frá Róm, þaðan sem útsendingunni var stjórnað.

Allnokkrir aðilar, einstaklingar og hópar, vinna markvisst að ullarvinnslu í stórum og smáum stíl á Íslandi og gjarnan í félagsskap sem myndaður er utan um áhugamálið. Hér á eftir fer umfjöllun um nokkra þá sem tóku beinan þátt í Evrópska ullardeginum auk annarra sem héldu hann hátíðlegan og eru virkir í ullarvinnslu með einum eða öðrum hætti.

Spunasystur – Rangárvallasýsla

Spunasystur er hópur kvenna í Rangárvallasýslu. Saga þeirra hófst þegar nokkrar vinkonur tóku sig saman og fóru á námskeið til að læra að spinna. Þær hittust reglulega til að æfa sig og vinna saman að þessu nýja áhugamáli og fljótlega bættust fleiri í hópinn sem höfðu sama brennandi áhugann á spuna og gömlu handverki.

Sextán Spunasystur

Í dag eru Spunasystur 16 talsins og hittast hálfsmánaðarlega yfir veturinn og skiptir þá engu hvernig veðrið er, það stoppar þær ekkert við að koma saman. Hver og ein mætir með sinn rokk, kembivél eða bara prjóna ef þeim sýnist svo. Þær eiga flestar kindur og því eru þær mikið að vinna sína eigin ull. Það gefur spunanum annan blæ þegar verið er að vinna með eigin ull því þá er nákvæmlega vitað hvaðan hráefnið er og hvað þær eru með í höndunum, auk þess sem þekking á hráefninu eykst og hægt að færa hana yfir í ræktunarstarfið og þannig efla þá eiginleika sem hverjum og einum þykir eftirsóknarverður.

Þær hafa farið á ýmiss konar námskeið í alls konar spuna bæði hér á landi og erlendis og fengið til sín kennara víðs vegar að úr heiminum. Það má því segja að í hópi Spunasystra sé orðin til margþætt þekking á margs konar spuna og meðferð ullar og öðru hráefni sem má spinna úr. En þær láta spunann ekki einan nægja, heldur eru þær líka að lita, bæði með jurtum og öðrum efnum. Þær gera sápur, vefa, þæfa, flétta úr hrosshárum og súta gærur og skinn.

Áhrif af vinnu Spunasystra gætir orðið víða í Rangárvallasýslu og þá sérstaklega í Rangárþingi ytra og Ásahreppi. Þar má orðið finna þó nokkrar vinnustofur þar sem unnið er með ull, vefstofu, sútunarverkstæði og spunaverksmiðju. Og sauðfjárbændur horfa til þeirra í sinni ræktun og hafa bætt við litaflóruna í sínu fjárhúsi.

Því má segja að ull og ræktun hennar hafi náð æði miklum framförum síðan þær byrjuðu með sitt starf, því þekking á ullargæðum eykst þegar unnið er með ullina alla leið frá ræktun lambsins til fullunninnar peysu.

Margar af Spunasystrum eru farnar að rækta feldfé og hafa unnið bæði ull og gærur af þeim, en þar á meðal er einnig lögð áhersla á að rækta ull í fjölbreyttum litum og með háragerð sem hentar í ólík verkefni.

Hópur úr Handraðanum prjónar saman á Evrópska ullardeginum.

Handraðinn – Eyjafjörður

Handraðinn er hópur fólks í Eyjafirði sem í upphafi kom saman til að að sauma eða gera upp þjóðbúninga undir leiðsögn. Það kveikti áhuga fyrir þjóðlegum hefðum og hópurinn fór að sinna ýmsum tegundum handverks um leið og hópurinn stækkaði.

Einkenni Handraðans eru að leita þekkingar um horfna starfshætti og miðla henni áfram, taka þátt í starfsdögum safna og menningartengdum viðburðum, að halda fræðslufundi og vera með námskeið til dæmis í spuna, vefnaði, tólgarsápugerð, útsaumi, skyrgerð, knipli og ýmislegt fleira að ógleymdum þjóðbúningasaumi sem er alltaf fullbókaður.

Heimili Handraðans er í gamla Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði.

Stofnfundur var haldinn fimmtudaginn 22. nóvember 2001 og hét félagsskapurinn þá Laufáshópurinn.

Stofnfélagar árið 2001 voru tæplega 30, nokkrum árum seinna var nafni félagsins breytt í Handraðann með nokkra undirhópa.

Það geta allir gerst félagar og eru þeir núna um 190, en ekki nema um 50 virkir.

Tveir undirhópar Handraðans

Handraðinn er með tvo fasta daga í mánuði fyrir fundi og undirhópar í félaginu eru líka með einn til tvo fasta fundardaga í mánuði
Undirhópar, eða hópar innan félagsins, eru:

Laufáshópur, sem er með starfsdaga í Laufási nokkrum sinnum á ári í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri. Það fólk hefur saumað sér fatnað til að skarta þessa daga og eru það búningar frá um 1900-1930.

Gásahópur/miðaldahópur hefur líka saumað sér búninga tengda tímabili Gásakaupstaðar og hafa verið í búðum þar eina helgi að sumri.

Báðir þessir hópar eru líka með ýmsa muni tengda þessum tímum og hafa verið með sýningar á Handverkshátíðinni á Hrafnagili.
Spunahópur hittist nokkrum sinnum í mánuði og spinnur saman og á Laugalandi er aðgangur að vefstól/stólum til að vefa þjóðbúningasvuntur eða Brekán svo eitthvað sé nefnt.

Lopapeysur eru aðalsöluvaran í Þingborg.

Þingborg – Árnessýsla

Þingborgarullin er sérvalin úrvals lambsull.

Ullarvinnslan Þingborg rekur sögu sína aftur til ársins 1990, er hópur kvenna á Suðurlandi sótti þar námskeið í ullariðn, undir stjórn Helgu Thoroddsen vefjarefnafræðings og Hildar Hákonardóttur veflistakonu. Kennd voru bæði gömul og ný vinnubrögð við ullarvinnslu og almenn fræðsla um eiginleika ullar og vinnslu hennar.

Fljótlega kom upp hugmynd að verslun með ullarvörur og innan árs frá því fyrsta námskeiðið var haldið opnaði námskeiðshópurinn verslun í gamla samkomuhúsinu í Þingborg í gamla Hraungerðishreppi, nú Flóahreppi, og stofnað var samvinnufélag utan um hópinn og reksturinn og voru stofnfélagar 35.

Fyrstu árin skiptu Þingborgar­konur með sér verkum í versluninni á sumrin, en hún var eingöngu opin yfir sumarmánuðina. Síðan hafa einstakar konur innan hópsins tekið að sér að reka verslunina og stundum tvær saman. Verslunin var lengi rekin á kennitölu samvinnufélagsins en frá 1. janúar 2019 hefur hún verið rekin sem einkahlutafélag einnar í hópnum. Auk þess er starfskraftur í 60 prósent hlutastarfi og því hefur ræst sú sýn sem lagt var upp með, að skapa atvinnu fyrir konur á svæðinu.

Verslunin tekur ullarvörur í umboðssölu og eins er keypt inn nokkuð af vörum til að selja. Allar prjónavörurnar í versluninni eru úr Þingborgarlopa en hann er sérunninn fyrir Þingborg af Ístex og svo hefur verið allt frá árinu 1992. Þingborgarkonur fara í Þvottastöð Ístex á Blönduósi einu sinni á ári og velja lambsull sem svo er þvegin á Blönduósi og kembd hjá Ístex í Mosfellsbæ. Einnig er þvegin ull og kembd í kembivélinni okkar í Þingborg, bæði til sölu í versluninni og í verktöku.

Lopapeysur eru aðal söluvaran í Þingborg. Konur í hópnum sem og þær sem leggja inn peysur hanna sín eigin mynstur og þannig verður til mjög fjölbreytt flóra af lopapeysum. Einnig er mikið úrval af lituðu bandi og lopa, Þingborgarlopinn er eftirsóttur af prjónafólki.

Á fimmtudögum hittast Þing­borgarkonur og bera saman bækur sínar. Oft er gestkvæmt þessa daga, áhugafólk leitar í þekkingarsmiðjuna og öll förum við glöð heim.

Hefðum haldið við

Ullarvinnslan hefur reynst mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni að halda við hefðum í ullarvinnslu og ekki síður að skapa nýjar. Ullin á mikla framtíð fyrir sér nú þegar augu fólks eru að opnast fyrir því að nota ull og önnur náttúruleg efni til fatagerðar o.fl. í stað gerviefna. Við leggjum einnig mikla áherslu á gæðastjórnun, siðræna verslun og sjálfbæra framleiðslu.
Sjá má vöruúrval á www.thingborg.is

Ullarselið á Hvanneyri í Halldórsfjósi.

Ullarselið – Borgarfjörður

Í Halldórsfjósi á Hvanneyri er að finna draumaheim ullarfíkilsins. Veröld sem umvefur þig hlýju og fegurð íslensku ullarinnar. Hvert sem litið er, er ull í einhvers konar formi. Peysur af öllum toga, húfur bæði hefðbundnar og óhefðbundnar, jurtalitað einband í öllum regnbogans litum, flókaskór, íleppar, púðar, teppi, sjöl, band og mynd af kindinni sem það kom af, og svo er það handspunna bandið.
Handspunnið band, hvað er það? Margir Íslendingar eiga minningar af því þegar móðir þeirra eða amma sátu við rokk og spunnu ull í band. Taktfastur sláttur rokksins og liprar hendur sem teygðu lopann og mötuðu inn á snældu rokksins. Verk sem gekk kynslóða á milli lengur en búið hefur verið á Ísafold, fyrst var spunnið á spunatein, svo halasnældu og loks gamla góða rokkinn.

Gömul tóvinnuhefð

En það er þessi gamla hefð fyrir tóvinnu sem varð að stórum hluta til þess að Ullarselið var stofnað árið 1992. Ári áður hafði kennsla í tóvinnu hafist í Bændaskólanum og strax varð ljóst að vantaði vinnustofu eða gallerí fyrir handverksfólk á Vesturlandi. Farið var að leggja grunn að því sem síðar varð Ullarselið. Lykilfólk í stofnun Ullarselsins voru Sveinn Hallgrímsson, þáverandi skólastjóri Bændaskólans, og Jóhanna Erla Pálmadóttir, en hún hefur kennt tóvinnu frá 1991 til dagsins í dag.

Ullarselið var stofnað með það að leiðarljósi að halda lífi í gömlum handverkshefðum, vera staður fyrir handverksfólk til að starfa saman og skapa frjósaman jarðveg. Einnig stuðla að því að handverk kvenna sé metið að verðleikum. Frá upphafi hefur verið lögð gífurleg áhersla á gæði og vandað handverk, engin vara fer í sölu án þess að fara í gegnum strangt gæðaeftirlit.

Ullarselir eru um 30 talsins, handverksfólk víðs vegar af Vesturlandi, nánast allt konur en með hópnum starfa tveir karlmenn. Reynt er að hittast reglulega yfir vetrartímann á spunakvöldum. Þau eru oftast haldin í kringum þann tíma er tóvinnan er kennd í Bændaskólanum og þá býðst nemendum að mæta og vinna í sinni handavinnu og fá aðstoð frá þeim viskubrunnum sem mæta.

Spunakvöldin hafa undanfarin ár verið opin þeim sem langar að fá örnámskeið í spuna og fólk innan og utan héraðs hefur komið og lært. Þetta hefur vakið mikla lukku enda er alltaf gaman að fá inn nýtt fólk.

Allt sem Ullarselið lætur frá sér er handgert úr íslensku hráefni og þar fer mest fyrir ullinni. Sú ull sem er notuð er ýmist gamli góði lopinn, handspunnið band, kembd eða ókemd ull í þæfðar vörur og ofnar. Svo með tilkomu smáspunaverksmiðjunnar Uppspuna eru konur farnar að senda ull úr eigin ræktun og fá til baka fullunnið band eða lyppur til að spinna úr. Einnig er hægt að fá handspunnið band úr kanínufiðu og geitafiðu. Íslenska geitin gefur af sér dásamlega mjúka ull sem loksins er hægt að nýta til hins ýtrasta með tilkomu Uppspuna. Í Ullarselinu er eitt besta úrval landsins af handspunnu bandi og vörum úr því. Einnig er gott úrval af skartgripum og tölum og alls lags góssi úr hornum og beinum.

Ullarselið er til húsa í Halldórs­fjósi á Hvanneyri, það er opið allt árið um kring og tekið er vel á móti öllum sem vilja leggja leið sína til þangað.

Hannyrðir í Uppspuna, á efri hæðinni fyrir ofan vinnsluna.

Uppspuni – Rangárvallasýsla

Uppspuni er fjölskyldurekin smáspunaverksmiðja, staðsett rétt austan við Þjórsárbrú. Uppspuni tók til starfa 1. júlí 2017 og var opnað formlega 18. mars 2018.

Í dag vinna tveir starfsmenn fulla vinnu við Uppspuna og 4 aðilar eru í hlutastarfi, enda verkefnin næg og fjölbreytt.

Uppspuni vinnur alla ull sem til fellur á búi eigendanna, auk þess sem ull er keypt í nágrenninu til vinnslu og sölu í lítilli verslun sem er fyrir ofan vinnsluna.

Þá er hægt að koma með ull af eigin kindum í Uppspuna og fá hana unna í band eftir óskum hvers og eins.

Sérstök áhersla er lögð á að vinna með sauðalitina eins og hver kind gefur. Þannig verður hver vinnslulota einstök og ekki alltaf mögulegt að fá nákvæmlega sama lit að ári. Það er misjafn litur milli kinda og það er einnig misjafn litur á kindum milli ára og þar spilar margt inn í ferlið.

Nokkrir áhrifaþættir eru veðurfar og fóður, en miklar rigningar hafa önnur áhrif á ull, bæði hvað varðar lit og gæði, heldur en mikið sólskin gerir. Eins er töluverður munur á ull af sauðfé sem gengur á hálendi Íslands yfir sumarið eða nýtir beit niðri við fjöruborðið.

Flekkótt reyfi með því mýksta sem kemur í hús

Vinna með ull eins og kindin gefur hefur einnig sýnt okkur að mismunandi litir geta gefið mismunandi áferð eða mýkt og hefur vakið sér­staka athygli að flekkótt reyfi eru oft með því mýksta sem kemur í hús.

Aldur kindarinnar getur sömuleiðis haft áhrif á garnið sem kemur úr vinnslusalnum og þótti sérstaklega áhugavert að elstu kindurnar voru stundum með allra mýkstu útkomuna.

Það er áhugavert og spennandi verkefni að fást við ull af íslensku fé alla daga og búið að vera afskaplega gefandi. Uppspuni er með nokkrar ólíkar tegundir af garni í reglulegri vinnslu, en auk þess ýmsar hliðarafurðir úr ull eða hluti sem má nota til að vinna ull með.
Fram undan eru spennandi tímar þar sem enn frekari vinnsla með ull og aðferðir við vinnslu munu líta dagsins ljós.

Gærur af feldfé.

Feldfjárbændur á Íslandi

Feldfjárrækt er nokkuð nýleg hliðargrein í ræktun sauðfjár á Íslandi. Upp úr miðri síðustu öld var skoðað að rækta feldfé hér, en það náði ekki fótfestu.

Um 1980 var farið að rækta það markvisst og þá helst í Meðallandi og fyrir vestan, m.a. á Vestfjörðum.

Á Bakkakoti í Skaftafellssýslu hjá Guðna Runólfssyni og Ingunni Hilmarsdóttur, varð til eitt öflugasta feldfjárræktarbúið. Rétt fyrir síðustu aldamót varð hrun í feldfjárrækt og henni einungis haldið áfram að litlu leyti í Meðallandinu.

Upp á síðkastið þegar fólk hefur uppgötvað að nýju hve ull er frábær, er ekkert skilið eftir og feldfjárræktin fór að fá áhugasama ræktendur til liðs við sig sem töluðu máli hennar og óskuðu eftir að geta tekið þátt í þessari ræktun.

Sauðfjárveikivarnir hömluðu dreifingu erfðaefnis, en þegar sæðingarstöðvar Íslands tóku inn hrúta með feldfjárgenum fór boltinn að rúlla og í dag eru til kindur með feldfjárblóði víða um land og áhuginn er mikill.

Félag hefur verið stofnað um ræktunina og mikill metnaður lagður í að fylgja þeim markmiðum sem sett hafa verið til að kind geti talist til feldfjár.

Eitt aðalmarkmið feldfjárræktar er að rækta gráar kindur með langa hrokkna lokka sem hafa mýkt og gljáa. Mesta áherslan er lögð á áferð og útlit ullarinnar og gefin einkunn fyrir hvern þátt hennar, lit og þéttleika. En holdfylling skiptir litlu sem engu máli.

Fyrst og fremst er það gæran af feldfé sem er verðmæt, en ullin er sömuleiðis áhugaverð og hafa feldfjárbændur prófað sig áfram við nýtingu hennar. Uppspuni hefur spunnið ull fyrir feldfjárbændur, en einnig hefur verið sent til spunaverksmiðja erlendis til að fá fjölbreyttari útgáfur af garni.

Uppstoppaðir hausar af forystufé uppi á vegg. Mynd / úr einkasafni

Fræðasetur um forystufé – Þingeyjarsýsla

Daníel Hansen forstöðumaður greinir hér frá starfseminni:

„Þegar ég flutti í Þistilfjörð fyrir allnokkrum árum sá ég fyrst hvernig forystufé vinnur og varð alveg heillaður. Ég fór að kynna mér þetta fé betur og sá fljótlega að þetta eru einstakar skepnur með hæfileika sem annað sauðfé er ekki með. Mér fannst sérstaklega merkilegt að það er hvergi til í heiminum nema hér á landi og er allt ættað úr Norður-Þingeyjarsýslu. Á Svalbarði er gamalt samkomuhús og fékk ég hugmynd að því að stofna setur um forystufé og fá afnot af húsinu. Húsið hafði staðið autt í mörg ár og eftir að Forystufjárræktarfélag Íslands var stofnað 1. apríl 2000 fór allt af stað. Mestur tími fór í að safna styrkjum til að gera við húsið og byggja upp Fræðasetur um forystufé. Allt tókst að lokum með mikilli sjálfboðavinnu og aðstoð margra sérfræðinga. Setrið á hvergi betur heima en á því svæði þar sem allt forystufé á uppruna sinn. Fræðasetur um forystufé var formlega opnað í júní 2014.

Upplýsingasetur

Í Fræðasetri um forystufé er búið að safna saman óhemju miklum upplýsingum um forystufé, greinum, frásögnum, myndum og öllu því sem þessu fé tengist. Þar geta allir sem áhuga hafa sótt upplýsingar og höfum við talsvert aðstoðað nemendur og vísindamenn sem eru að vinna að verkefnum bæði innanlands og erlendis. Þá hefur talsvert verið leitað til okkar, sérstaklega erlendis frá að fá okkur til að flytja fyrirlestra um forystufé en mikill áhugi á því er víða í nágrannalöndum okkar.

Rannsóknir

Ekki eru miklar rannsóknir til um forystufé en þær sem gerðar hafa verið eru aðgengilegar í setrinu. Við höfum stuðlað að rannsóknum, m.a. samanburði á ull af forystufé og öðru fé og kom þar í ljós að forystufé er með öðruvísi ull.

Allstór rannsókn fór fram á erfðum forystufjár með tilliti til viðkvæmni gagnvart riðu. Voru tekin sýni úr nánast öllu forystufé í Norðausturhólfi. Þar kom í ljós að stór hluti forystufjár á svæðinu er með áhættuarfgerð gagnvart riðusmiti. Í kjölfar rannsóknarinnar hafa ræktendur reynt að nota þær upplýsingar sem þeir hafa til þess að eyða út forystukindum með áhættuarfgerð og nýta hinar til undaneldis.

Nú er að ljúka verkefni þar sem gagnagrunninum Fjárvís er breytt aðeins með tilliti til áherslna í ræktun forystufjár og forystufé er skilið frá hinum fjárstofni landsins í gagnagrunninum. Í kjölfar þess að forystufé verður í sér gagnagrunni er hægt að fara að sækja um hjá UNESCO að fá forystufé viðurkennt sem stofn í útrýmingarhættu en stofninn uppfyllir flest það sem þarf til þess. Aðeins eru um 1.400 hreinræktaðar forystukindur til í landinu og allar ættaðar af Norðausturlandi.

Ull

Fljótlega fórum við að kaupa ull af forystufé hjá bændum. Þá hófst þrautaganga. Engin spunaverksmiðja var í landinu sem gat unnið svo lítið magn sem við látum vinna, eða um 100 kíló á ári. Mest létum við spinna fyrstu árin í Noregi en einnig svolítið í Svíþjóð og Litháen.

Þegar spunaverksmiðjan Uppspuni var opnuð var það eins og himnasending fyrir okkur og var öll okkar ull unnin þar í nokkur ár þar til Spunaverksmiðjan í Gilhaga í Öxarfirði var stofnuð. Hún er í nágrenninu og minnkar það sendingarkostnað fyrir okkur og kolefnissporið minnkar mikið.

Svolítill hluti ullarinnar er handspunninn og er hægt að fá allt hjá okkur, óþvegna ull, þvegna ull, lyppur, handspunnið band og vélspunnið. Þá höfum við látið sérspinna band í tweed-vinnslu. Það er ofið á Suðureyjum fyrir Kormák og Skjöld og er þar í gangi hönnun á vörum úr forystu-tweedi.

Ull af forystufé er mýkri en ull af öðru fé og allt öðruvísi viðkomu. Þetta gerir ullina eftirsóknarverða og að auki er meðhöndlun hennar þannig að bandið er feitara viðkomu. Í dag er unnið úr um 100 kílóum af ull og er mestöll ullin mislit og verðlítil fyrir bændur nema við kaupum kílóið á 500 krónur. Við getum ekki keypt mikla ull utan norðaustursvæðisins vegna sauðfjársjúkdóma.

Gaman er að geta þess að gamlar sagnir segja: „Ef þú klæðist fatnaði unnum úr ull af forystufé þá ratar þú alltaf heim.“ Það er ekki ónýtt að fá það í kaupbæti.

Gilhagi – Öxarfirði

Í tilefni fyrsta evrópska ullardagsins sýndu þau Brynjar Þór og Guðrún Lilja í Gilhaga, Öxarfirði, úr Ullarvinnslunni Gilhaga á sínum samfélagsmiðlum vinnsluferlið í máli og myndum, frá ullarreyfi yfir í tilbúna hespu sem er tilbúin á prjónana. Farið var yfir hvert þrep í vinnsluferlinu og handtökin þar á bakvið útskýrð. Þar sem ullin kemur algerlega ómeðhöndluð til vinnslu hefst ferlið á því að ullin er þvegin. Síðan tekur við vinnsluferli þar sem ullarþræðirnir eru opnaðir, skilið í sundur tog og þel og ullin síðan kembd í lyppur sem fara síðast í gegnum spunavélina. Eftir það er bandið tvinnað eða þrinnað, gufað og að lokum hespað í rétta lengd.

Dagurinn byrjaði á því að þrír góðir bændur frá nágrannabæjum komu við með rúningsgræjur og tóku léttan rúning. Eftir það tók við hefðbundinn vinnudagur í ullarvinnslunni en í hjáverkum var tekið upp vinnsluferlið til að deila á samfélagsmiðlum. Í tilefni dagsins var ákveðið að setja kynningarpakka í sölu en hann inniheldur 5 hespur í þeim spunagerðum sem þau bjóða upp á. Hann er til sölu í vefverslun þeirra á www.gilhagi.is.

Ullarvinnslan Gilhagi hefur núna í sumar verið starfrækt í ár, við vinnsluna er einn starfsmaður í fullu starfi. Vinnur hún einungis ull af sínu sóttvarnarsvæði.

Sigrún Helga Indriðadóttir, handverkskona, bóndi og garðyrkjufræðingur, býr á Stórhóli í Skagafirði. Mynd / úr einkasafni

Stórhóll – Skagafirði

Á Stórhól í Skagafirði býr Sigrún Helga Indriðadóttir, handverkskona, bóndi og garðyrkjufræðingur. Stórhóll er við veg 752 tæpa 20 km frá Varmahlíð. Þar rekur hún Rúnalist Gallerí, litla Beint frá Býli verslun og vinnustofu þar sem seldar eru vörur beint frá býlinu, Sauðaband, Lambaband, Bekraband, Geitaband, ull og Stökur. Undir merkjum BændaBita eru einnig í boði kjötvörur unnar úr sauðfjár- og geitaafurðum, ásamt fleiru.

Sauðaband, Lambaband, Bekraband og Geitaband er unnið fyrir okkur af Uppspuna smáspunaverksmiðju. Ullin kemur öll af okkar kindum, og er rekjanleg til viðkomandi kindar. Sauðaband REBBA 2020 – er unnið úr ull af Rebbu, spunnið árið 2020. Sauða- og Lambabandið er rekjanlegt til einstaklinga en Bekraband og Geitaband er rakið til hjarðar. Regnbogalitað Sauðaband er handlitað á býlinu.

Mikil vinna liggur að baki Geitabandinu. Geitur eru ekki rúnar eins og kindur, heldur kembdar með til þess gerðum kömbum. Að kemba eina geit tekur drjúgan tíma og svo þarf að hreinsa strý og óhreinindi frá fiðunni áður en hægt er að spinna. En að þessu ferli loknu verður útkoman dásamlega létt og mjúkt Geitaband, kasmír frá landnámsgeitunum okkar.

Í Rúnalist Gallerí býðst gestum einnig að sjá tóvinnubrögð og fræðast um ullina og geitafiðuna. Tekið er ofan af, sýndur munur á togi og þeli, kembt með ullarkömbum, spunnið á rokk og halasnældu, sýndir þráðaleggir og margt fleira er hægt að skoða. Flestar vörurnar eru unnar út hráefni frá býlinu eða hráefni úr héraði (local) svo sem myndverk og smámunir úr roði og skinnum.
Geiturnar eru einnig til sýnis og einhverjar þiggja brauðmola og klapp.

Við getum tekið á móti litlum hópum í „kynnisferð“ um geiturnar og galleríið, sem einnig geymir gamla muni tengda búskap. Einnig er hægt að panta smakk af afurðum BændaBita.

Jóhanna Erla Pálmadóttir er verkefnastjóri hjá Textílmiðstöðinni á Blönduósi. Hún er hér með prjónana á garðabandinu á Ullardeginum. Mynd / Svanhildur Pálsdóttir

Textílmiðstöðin á Blönduósi

Í gamla kvennaskólahúsinu á Blönduósi fer fram merkilegt starf sem snýst að öllu leyti um textíl.

Þangað er hægt að koma og sækja sér þekkingu á ýmsum sviðum og dvelja þar við handverk undir leiðsögn í lengri eða skemmri tíma. Haldin eru námskeið reglulega, en einnig getur fólk komið og nýtt sér þann tækjabúnað sem er á staðnum og fengið leiðsögn ef þess gerist þörf.

Á Blönduósi er til dæmis eini stafræni vefstóllinn á landinu, en fleiri stafræn tæki eru á leiðinni til staðarins í gegnum verkefni sem heitir Centrinno og er þverevrópskt samstarfsverkefni, þar sem áherslan er fyrst og fremst að tengja textíl við stafræna þekkingu og ná í hráefni til að vinna með úr nágrenni hvers staðar.

Blönduós er staðsett í Austur-Húnavatnssýslu og er því á Norð-Vesturlandi. Þar eru flest bú sem starfrækja sauðfjárrækt staðsett og því sterk og öflug tengsl við sauðfjárbændur í nágrenninu. Í Textílmiðstöðinni er að byggjast upp víðtæk þekking og færni sem mun nýtast vel í framtíðinni og þar að auki hefur verið unnið stórt verkefni í að skrásetja gamlar og nýjar uppskriftir og munstur tengd vefnaði í stafrænan gagnagrunn.

Námskeiðshald er opið öllum, bæði Íslendingum og erlendum borgurum sem hafa áhuga á að dvelja á stað þar sem falleg náttúra og saga fortíðar umvefur fólk og blæs því í brjóst hugmyndum til að skapa og hanna sín eigin listaverk.

Við Textílmiðstöðina eru 2 starfsmenn í fullri stöðu og 2 í hlutastarfi og stöðugt er unnið að því að auka þekkingu og efla starf í kringum textíl og textíliðnað með áherslu á að nýta íslenska ull í verkefnin eins og kostur er.

Lopi í framleiðslu hjá Ístex.

Ístex – Mosfellsbæ og Blönduósi

Íslenskur textíliðnaður hf. (Ístex hf.) hefur unnið að því í um þrjá áratugi að skapa verðmæti úr íslenskri ull, en þann 15. október næstkomandi eru þrjátíu ár frá skráningu félagsins. Íslenskir bændur eiga 80 prósenta hlut í félaginu.

Ístex hefur verið leiðandi í framleiðslu á ullarbandi úr íslenskri ull. Hér mætti nefna handprjónabandstegundir líkt og Léttlopi, Álafosslopi, Einband, Jöklalopi, Plötulopi og Hosuband. Loðband og Léttlopi á kónum hafa verið mikilvægar fyrir íslenskar prjónaverksmiðjur í gegnum tíðina.

Ístex gefur út á hverju ári fjölbreytta hönnun í Lopabókunum, en nú sem fyrr leita prjónarar eftir spennandi munstrum. Eitt stærsta safn í heimi af Lopauppskriftum má finna að stórum hluta á Lopidesign.is. Ístex lætur vefa yfir 20 gerðir af ullarteppum úr Loðbandi og Léttlopa. Meðal nýjunga hjá Ístex er vélþæg íslensk ull, en félagið framleiðir sængur og einangrunarefni úr þessari íslensku nýjung.
Rekin er ullarþvottastöð á Blönduósi en spuna- og bandverksmiðja í Mosfellsbæ.

Umfjöllunin var unnin í samvinnu við Huldu Brynjólfsdóttur í Uppspuna og ullarvinnsluaðilana sjálfa.

Skylt efni: ull | ullarvinnsla

Jólapottaleppar
Hannyrðahornið 3. desember 2024

Jólapottaleppar

Jólin nálgast óðfluga og alltaf gaman að taka upp jólahlutina og gefa heimilinu ...

Peysan Björk
Hannyrðahornið 20. nóvember 2024

Peysan Björk

Stærðir: XS S M L XL XXL. Yfirvídd: 88 94 100 111 120 128.

Lily Leaper Socks
Hannyrðahornið 6. nóvember 2024

Lily Leaper Socks

Prjónaðir stuttir sokkar í stroffprjóni úr DROPS Fiesta. Fiesta er nýtt nylonsty...

Peysan Fis
Hannyrðahornið 22. október 2024

Peysan Fis

Létta, lipra peysan sem göngugarpar elska að skella í bakpokann.

Bubba
Hannyrðahornið 24. september 2024

Bubba

Stærðir: XS S M L XL XXL.

Manstu vorið?
Hannyrðahornið 10. september 2024

Manstu vorið?

Þessi fallega peysa með gatamynstri á ermum er prjónuð úr DROPS Alpaca og DROPS ...

Búðarháls
Hannyrðahornið 27. ágúst 2024

Búðarháls

Uppskrift að vesti fyrir Ullarviku á Suðurlandi 2024

Dömupeysa
Hannyrðahornið 13. ágúst 2024

Dömupeysa

Prjónuð peysa úr DROPS Cotton Merino. Stykkið er prjónað ofan frá og niður með t...