Húfur gegn einelti á alla fyrstubekkinga
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Hver og ein húfa er með sínu móti, þær eru ólíkar, í mismunandi litum og með ólík mynstur til marks um að við erum öll ólík, hver og einn er einstakur,“ segir Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri í Oddeyrarskóla.
Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti sem var í nóvember tóku fjórir kennarar við skólann sig til og prjónuðu húfu á hvern og einn nemanda í fyrsta bekk. Húfurnar eru með áletruninni Gegn einelti. Þær hófu að skipuleggja prjónaskapinn í liðnum mánuði, brettu svo upp ermar og prjónuðu í gríð og erg þar til allir nemendur höfðu fengið húfu á sitt höfuð.
Þetta er annað árið í röð sem fyrstubekkingar fá húfu að gjöf í tilefni þessa dags. Kristín segir að hugmyndin hafi verið fengin að láni frá Grunnskólanum á Bolungarvík sem einnig deildi uppskriftum að húfum með kollegum sínum nyrðra. Á öllum húfunum stendur: Gegn einelti.
Dugnaðarkonur, þær Linda Óladóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Bára Árný Sigþórsdóttir og Hafdís Bjarnadóttir í Oddeyrarskóla og húfurnar góðu.