Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Dúkka 312 getur þakkað líf sitt umönnun Stellu í vor en hún var mjög líflítið lamb þegar hún fæddist. Hún fékk mömmu sína til að aðstoða sig við að gefa henni mjólk og vafði hana síðan inn í úlpuna sína og keyrði um í dúkkukerrunni. Þegar mamma Stellu kom
Dúkka 312 getur þakkað líf sitt umönnun Stellu í vor en hún var mjög líflítið lamb þegar hún fæddist. Hún fékk mömmu sína til að aðstoða sig við að gefa henni mjólk og vafði hana síðan inn í úlpuna sína og keyrði um í dúkkukerrunni. Þegar mamma Stellu kom
Mynd / Gunnhildur Pétursdóttir
Líf&Starf 19. nóvember 2015

Sviðaveisla, grillveisla, ljósmynda­samkeppni og stórdansleikur

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Um veturnætur hélt Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu sinn árlega haustfagnað en upphaf þessarar hátíðar má rekja til héraðssýningar á lambhrútum sem fyrst var haldin haustið 2005. Frá þeim tíma hefur dagskráin undið upp á sig og sækir mikill fjöldi fólks Dalina heim þessa helgi.
 
Líkt og verið hefur frá árinu 2005 er héraðssýning lambhrúta hluti af dagskránni en að þessu sinni mættu 95 hrútar til leiks í þremur flokkum.
 
Norðan varnarlínu var sýningin haldin að Kjarlaksvöllum í Saurbæ og sunnan varnarlínu var sýningin haldin á Svalbarði í Miðdölum. Flestir voru hrútarnir í flokki hvítra hyrndra hrúta, eða 57 alls. Í flokki kollóttra hrúta mættu 24 hrútar til keppni og í flokki mislitra hrúta voru hrútarnir 14. 
Líkt og oft er á héraðssýningum sem þessum átti stór hluti hrútanna sæðingastöðvarhrút sem föður, eða 56 hrútar alls. Saumur 12-915 var þar í sérflokki með 15 syni, Hvati 13-926 átti 7 syni og þeir Hnallur 12-934, Sporti 12-936 og Tjaldur 11-922 áttu 5 syni hver. Aðrir sæðingastöðvarhrútar áttu færri syni á sýningunni. Efstu þrjú sætin í hverjum flokki skipuðu eftirtaldir hrútar:
 
Mislitir hrútar
 
Hrútur númer 3931 frá Breiðabólsstað, Fellsströnd. Grár sonur Myrkva 10-905 og á móðurlegg er stutt í Grána 03-957. Þessi hrútur hafði fyrr í haust 86 stig.
 
Hrútur númer 302 frá Vatni, Haukadal sem hafði fengið nafnið Sigur. Þessi hrútur er grámórauður að lit og föðurfaðir hans Kveikur 05-965. Hann hafði fyrr í haust einnig fengið 86,5 stig.
Hrútur númer 442 frá Leiðólfsstöðum, Laxárdal. Mórauður hrútur undan Verði 12-925 en móðurfaðir hans Höfðingi 10-919. Hann hafði fyrr í haust fengið 84 stig.
 
Kollóttir hrútar
 
Hrútur númer 5 frá Hrappsstöðum, Laxárdal og hefur verið nefndur Baukur. Þessi hrútur er undan Jónsa 14-028 sem er til heimils á Hornsstöðum en fæddur í Broddanesi og sonur Djákna 13-065 eins öflugasta gerðarhrút landsins nú um stundir. Móðir hrútsins er síðan aðkeypt og fædd á Heydalsá hjá Guðjóni Sigurgeirssyni undan Dollar 07-350. Baukur hafði fyrr í haust fengið 86,5 stig.
 
Hrútur númer 404 frá Leiðólfsstöðum, Laxárdal. Þessi hrútur er blanda af hyrndu og kollóttu þar sem hann er sonur Hvata 13-926 og aðeins hnýflóttur en í móðurætt rekur hann ættir sínar m.a. til Mókolls 03-978. Hann hafði fyrr í haust fengið 86 stig.
 
Hrútur númer 3 frá Dunki, Hörðudal og hefur verið nefndur Fjarki. Hann er sonur Safírs 10-932 og í móðurætt rekur hann ættir sínar til Frakkssonar 03-974 og Kjóa 04-816. Hann hafði fyrr í haust fengið 86,5 stig.
 
Hyrndir hrútar
 
Hrútur númer 6 frá Rauðbarðaholti, Hvammssveit. Bollangur, jafnvaxinn og vel gerður að öllu leyti. Faðir hans er Hersir 13-503 sonur Safírs 11-533 sem skipaði efsta sæti hyrndra hrúta árið 2011. Í framættum má svo finna Raft 05-966 og Abel 00-890. Hann hlaut í haust 87 stig og fékk jafnframt viðurkenningu sem besti lambhrútur héraðssýningarinnar árið 2015.
 
Hrútur númer 3 frá Stóra-Vatnshorni, Haukadal sem búið var að nefna Þrist. Faðir hans er Saumur 12-915 og í móðurætt rekur hann sig til Borða 08-838 og Lóða 00-871. Gríðarlega vænn og mikill hrútur sem fékk 86,5 stig fyrr í haust.
 
Hrútur númer 580 frá Háafelli, Miðdölum sem búið var að nefna Vöðva. Hann er sonarsonur Kvists 07-866 og skammt á móðurhlið rekur hann sig í Laufa 08-848 en þar má einnig finna Kveik 05-965 og Erp 01-919. Hann hafði fyrr í haust fengið 87,5 stig.
 
Sýningarskrá héraðssýningar má finna á heimasíðu Dalabyggðar og einnig ítarlegri úrslit í hverjum flokki.
 
Gimbrarsýning
 
Samhliða hrútasýningum var keppt um fallegasta gimbrarlamb Dalasýslu. Þar voru dómarar gestir á hrútasýningunni en gimbrarnar voru merktar með merkispjaldi og svo kusu menn þá gimbur sem þeim þótti fallegust. 
 
Tilefni gimbrarsýningarinnar var farandverðlaunagripur sem Kjartan og Guðrún á Dunki gáfu í tilefni af 30 ára afmæli FSD en félagið var stofnað árið 1985. Alls tóku 13 gimbrar þátt þetta fyrsta ár sem keppnin var haldin og réðust úrslit á einu atkvæði. Hlutskörpust varð gimbrin Dúkka 312 í eigu Stellu Margrétar Birgisdóttur, sex ára frá Bæ í Miðdölum, en Stella var búin að skreyta sína gimbur vel og heillaði gimbrin marga gesti á sýningunni á Svalbarði. 
 
Besta 5 vetra ærin
 
Líkt undanfarin ár var veitt viðurkenning fyrir efstu ær sýslunnar fæddar 2010 byggt á heildareinkunn í kynbótamati en þá er búið að reikna kynbótamat þar sem upplýsingar um afurðir ærinnar fyrstu fjögur árin liggja fyrir. Til viðbótar þurfa ærnar sem koma til greina einnig að hafa átt lömb vorið 2015. Að þessu sinni skipaði efsta sætið ærin Áslaug 10-121 frá Ásgarði í Hvammssveit með einkunn 113,8. Þess má geta að þessi ær er alsystir sæðingahrútsins Kára 10-904.
 
Íslandsmótið í rúning
 
Á laugardeginum var Íslandsmótið í rúning haldið í áttunda skipti í Nesoddahöllinni í Búðardal. Alls mættu 12 til leiks þetta árið og Íslandsmeistari annað árið í röð varð Hafliði Sævarsson frá Fossárdal í Berufirði. Í öðru sæti varð Guðmundur Þór Guðmundsson frá Kvennabrekku, Miðdölum og þriðja sæti skipaði Julio Gutierrez frá Hávarsstöðum, Leirársveit. Keppnin fer þannig fram að allir keppendur klippa þrjár kindur, tími og hversu marga galla keppendur gera ræður því svo hvar í röðinni þeir lenda. Í lokaumferðinni keppa svo efstu þrír að lokinni undankeppni og klippa þá fimm kindur hver. Samhliða rúningskeppninni var fjöldi vélasala með tæki til sýnis við reiðhöllina auk þess sem nokkrir voru með sölubása í tjaldi inni í höllinni. Einnig skemmtu Magnús og Ívar í reiðhöllinni sem gerðu garðinn frægan í „Ísland got talent“ síðasta vetur.
 
Sviðaveisla á Laugum
 
Á föstudagskvöldinu var svo efnt til mikillar veislu að Laugum í Sælingsdal þar sem boðið var upp á ný svið, söltuð svið og reykt svið. Sviðaveislan var fyrst haldin árið 2008 og sprengdi utan af sér húsnæði fyrstu árin en síðustu fimm ár hefur hún verið í íþróttahúsinu á Laugum. Í ár mættu rúmlega 360 manns á sviðaveisluna en þetta kvöld hefur gegnum árin verið hápunktur helgarinnar hjá þeim sem eldri eru. Að loknu sviðaáti tók við hagyrðingakvöld sem stjórnað var af Hjörleifi Hjartarsyni frá Tjörn í Svarfaðardal. Hagyrðingar voru Jón Kristjánsson, Reykjavík, Helga Guðný Kristjánsdóttir, Botni, Þórdís Sigurbjörnsdóttir, Hrísum, Stefán Skafti Steinólfsson frá Ytri-Fagradal og Sigurjón Valdimar Jónsson frá Skollagróf. Eins skemmtu Viðar Guðmundsson og Snorri Hjálmarsson á hátíðinni. Að loknu hagyrðingakvöldi var dansleikur þar sem Þórunn og Halli léku fyrir dansi og dansað var langt fram á nótt.
 
Grillveisla, ljósmyndasamkeppni og stórdansleikur
 
Á laugardagskvöldinu var svo efnt til mikillar grillveislu í Dalbúð en samhliða henni eru veittar viðurkenningar fyrir efstu hrúta á hrútasýningum. 
 
Grillveislan var vel sótt þetta árið en ríflega 330 manns mættu en grillið var í umsjón Meistarafélags kjötiðnaðarmanna.
 
Samhliða undirbúningi hátíðarinnar var efnt til ljósmyndasamkeppni á Facebook-síðu félagsins. Alls bárust 65 myndir í keppnina en hlutskörpust var mynd Valdísar Einarsdóttur, „Jónína sirkusstjóri“, líkt og sjá má á forsíðu blaðsins í dag. Myndin er tekin í Gillastaðarétt fyrr í haust af Jónínu Magnúsdóttur að hleypa fé inn í réttina. 
 
Kvöldið endaði svo með stórdansleik þar sem hljómsveitin „Made in sveitin“ hélt uppi stuðinu fram undir morgun.
 
Helgin heppnaðist vel í alla staði og fjölmargir gestir heimsóttu Dalina líkt og verið hefur um veturnætur undanfarin ár. Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem leggja hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd í sjálfboðavinnu en án þeirra væri ekki hægt að gera þessa helgi að veruleika. 
 
Auk þess er fjöldi styrktaraðila sem kemur að hátíðinni en þeir eru: Vörumiðlun, Dalabyggð, SAH afurðir, SS, SKVH Hvammstanga, Vogabær, Ytri-Fagridalur, Hvítidalur, Ferðaþjónustan Þurra­nesi, Rjómabúið Erpsstöðum, KB Borgarnesi, Nesoddi, Ferða­þjónustan Seljalandi, Sæferðir, Dalakot, KM þjónustan, Samkaup strax Búðardal, Leifsbúð, Blómalindin, Hárstofan Búðardal, B.A. Einarsson Búðardal, MS Búðardal, Lyfja Búðardal, Eiríks­staðir og Arion banki Búðardal.
 
Eyjólfur Ingvi Bjarnason,
formaður FSD.

12 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....