Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
„Fyrirkomulag okkar er þannig að ég stýri veitingarekstrinum algjörlega næstu þrjú árin í það minnsta og Daniel er þögull og afskiptalaus eigandi,“ segir hollenski veitingamaðurinn Mathieu Wierk Zevenhuizen um tildrögin að komu hans til Íslands.
„Fyrirkomulag okkar er þannig að ég stýri veitingarekstrinum algjörlega næstu þrjú árin í það minnsta og Daniel er þögull og afskiptalaus eigandi,“ segir hollenski veitingamaðurinn Mathieu Wierk Zevenhuizen um tildrögin að komu hans til Íslands.
Mynd / smh
Líf&Starf 27. apríl 2016

Vegasjoppumaturinn svo óspennandi að ég hætti að prófa hann

Höfundur: smh
„Við bjóðum hér nánast eingöngu upp á mat sem er unninn úr hráefni sem er upprunnið annaðhvort hér í Hreðavatnsskála eða úr nánasta nágrenni,“ segir veitingamaðurinn í Hreðavatnsskála.
 
Mathieu Wierk Zevenhuizen stýrir rekstri Hreðavatnsskála og hótels sem er við hlið skálans – nærri hinni kunnu Grábrók. Hann er með hollenskt ríkisfang en á sér nokkuð ævintýralega forsögu. Hann er fæddur í Tyrklandi en þegar hann var tveggja ára fluttist fjölskylda hans til Grikklands, en að tveimur árum liðnum aftur til Tyrklands. Þegar hann var níu ára var hann sendur í heimavistarskóla í Hollandi í þrjú ár. Árið 1970 flutti öll fjölskyldan til Sviss þar sem hann lauk skólaskyldu og hóf nám í matreiðslu. Þegar því námi lauk fór hann til Englands og Skotlands til að stunda sína atvinnu í tvö ár. Að svo búnu hvarf hann aftur til Sviss þar sem hann gekk í hjónaband og eignaðist börn. Árið 1991 flutti hann til Kýpur með fjölskyldu sinni og þaðan til Kaíró í Egyptalandi og dvaldi þar í fjögur ár. Þá hélt hann aftur til Sviss og skildu þau hjónin þá, að sögn Mathieu vegna mikilla ferðalaga hans sem nýtt starf krafðist. Í Sviss stýrði hann veitingastað í félagi við annan mann, en þegar því samstarfi lauk hóf hann feril sem sjálfstæður matreiðslumeistari.  
 
„Í apríl fyrir um ári síðan var ég að leita að starfi til að sinna um sumarið þegar ég rakst á auglýsingu þar sem auglýst var eftir matreiðslumeistara og veitingamanni til að starfa á Íslandi. Hún reyndist vera frá Daniel Siegler, eiganda Hreðavatnsskálans og Hótels Grábrókar, en hann er hálfur Íslendingur og hálfur Svisslendingur – sem skýrir hvers vegna hann auglýsti í Sviss. Ég kom svo í heimsókn í nokkra daga í maí og hann sannfærði mig um að setjast hér að og taka Hreðavatnsskála að mér. Fyrirkomulag okkar er þannig að ég stýri veitingarekstrinum algjörlega næstu þrjú árin í það minnsta og Daniel er þögull og afskiptalaus eigandi,“ segir Mathieu um aðdragandann.
 
Gerir sjálfur sitt pasta og brauðmeti
 
Mathieu segir að hann leggi mikinn metnað í alla matargerð í Hreðavatnsskála. Hann hafi prófað vegasjoppumat á þjóðveginum, en þótt hann svo óspennandi að hann hafi fljótlega hætt því. Mér finnst mikilvægt að við gerum eins mikið og við getum sjálf. Við gerum til að mynda okkar eigið brauðmeti; bæði venjulegt brauð en einnig pylsubrauð, hamborgarabrauð og pitsubotna. Svo gerum við okkar eigið pasta, bæði venjulegt en líka sjö mismunandi bragðtegundir af pasta; til dæmis sítrónu, tómata, chili og engifer – með átta mismunandi lögun. Ég er með venjulegt eggjapasta sem ég þurrka en svo erum við að byrja að framleiða lífrænt pasta úr lífrænt vottuðu durum semolina-mjöli.  Stefnan er að fá lífræna vottun á pastað okkar innan ekki langs tíma.    
 
Við ætlum til að byrja með að selja lífræna pastað okkar hér í litlu búðinni okkar en einnig hjá Kaja organic á Akranesi. Ég fæ mitt nauta- og lambakjöt beint frá Mýranauti – sem er ekki langt frá Borgarnesi. Þetta er nánast eingöngu það kjöt sem við notum hér á matseðlinum, en svo erum við að sjálfsögðu með okkar eigin pastarétti.“
 
Smáframleiðendur standi saman
 
Mathieu elur varphænur í húsi á bak við Hreðavatnsskála, þar sem þær vappa frjálsar um og viðra sig undir beru lofti þegar þannig viðrar. Þar eru bæði landnámshænur og brúnar Lohmann og tveir íslenskir hanar að auki. Þær sjá eldhúsinu fyrir öllum eggjum í matseldina og pastagerðina, auk þess sem hægt er að kaupa egg beint frá býli í litlu búðinni sem rekin er í sjálfum Hreðavatnsskálanum. Hann segist vera í góðu sambandi við nágranna sína í Reykholti; bæði Fosshótelið þar sem kaupir af honum pasta og egg, en einnig garðyrkjubændur sem ætli að sjá honum fyrir grænmeti og svo keypti hann líka landnámshænur sínar þaðan. 
 
Þegar blaðamaður var í heimsókn í Hreðavatnsskála sýndi Mathieu honum rými sem búið var að taka frá fyrir íslenskar ullarvörur frá Iceware. Rými skálans hugsar hann sem eins konar slóð í gegnum fjölbreytt vöruúrval sem samanstendur af íslenskri búvöru og erlendri í bland; ull, geitaafurðum frá Jóhönnu Magnúsdóttur á Háafelli, lífrænt vottuðum vörum frá Matarbúri Kaja organic á Akranesi og svo auðvitað ýmsum nauðsynjum ferðamanna. „Ég reyni að hafa fyrirkomulagið þannig að það sé  kaup kaups, þannig að ég fæ að selja mínar vörur í litlu versluninni á Háafelli og á Akranesi hjá Karen í Matarbúri Kaja organic – þar sem lífrænt vottað pasta verður frá mér. Sömuleiðis læt ég Fosshótel fá egg og pasta frá mér og ég fæ grænmeti til baka úr Reykholtsdalnum. Við smáframleiðendur verðum að standa saman.“
 
Bústofninn mun stækka
 
Mathieu segir að það sé ekki ætlunin að láta hænurnar duga fyrir búreksturinn í Hreðavatnsskála. „Á döfinni er að við fáum okkur kanínur og önnur hefðbundin húsdýr, sem mun þá virka líka sem aðdráttarafl fyrir ferðalanga – ekki síst börnin. Ég á von á því að það verði mikil umferð hér um í vor og sumar því það er spáð talsverðri aukningu í komu ferðamanna til landsins og þeir verða auðvitað á vegum úti á þjóðveginum á leið norður eða suður. Við erum með opið frá 10 til 22 yfir vetrartímann, en strax frá 1. maí verður opið frá klukkan sex að morgni til miðnættis eða eitt eftir miðnætti. Við getum tekið á móti 24 í gistingu hér í Hreðavatnsskála, þrjú herbergi með hjónarúmi, eitt herbergi fyrir fjóra saman og tvö herbergi sem geta hýst annars vegar sex og hins vegar átta manns. Auk þess erum við með eitt sumarhús til leigu hér í vikutíma fyrir ofan hænsnakofann.“
 
Mathieu segir að samningsbundið starfsfólk verði um sumartímann átta til níu talsins, en fjórir til sex yfir veturinn.

10 myndir:

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....