70 ný fiskiskip síðustu fimm ár
Alls voru 1.621 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2017 og hafði þeim fækkað um 26 frá árinu áður. Fiskiskip eru flokkuð í þrjá flokka hjá Samgöngustofu, opna báta, togara og vélskip.
Vélskip eru öll yfirbyggð skip önnur en skuttogarar, en í þeim flokki eru nokkur skip sem eru stærri en stærstu skuttogararnir.
Samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands voru vélskip alls 735 og samanlögð stærð þeirra um 92.460 brúttótonn. Vélskipum fækkaði um 12 milli ára og stærð flotans minnkaði um 2.046 brúttótonn. Togarar voru alls 44, bættist einn við á milli ára, en nokkur endurnýjun varð í flotanum. Sex nýir togarar voru smíðaðir árið 2017, þar af fjögur systurskip. Heildarstærð togaraflotans var 61.841 brúttótonn í árslok 2017 og hafði aukist um 9.425 tonn frá ársbyrjun. Opnir fiskibátar voru alls 842 og samanlögð stærð þeirra 4.154 brúttótonn. Opnum fiskibátum fækkaði um 15 milli ára og samanlögð stærð þeirra minnkaði um 112 brúttótonn.
Á síðustu fimm árum hafa 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann. Átta skuttogarar, 37 vélskip og 25 opnir bátar. Alls voru 53 þessara skipa smíðuð á Íslandi og eru þau öll úr trefjaplasti og undir 30 brúttótonnum. Allir togararnir voru smíðaðir í Tyrklandi, ásamt fjórum af þeim sjö vélskipum sem voru yfir 1.000 brúttótonn.
Flest fiskiskip voru með skráða heimahöfn á Vestfjörðum í árslok 2017, alls 394 skip, en það eru 24% fiskiskipaflotans. Næstflest, alls 290 skip, höfðu heimahöfn skráða á Vesturlandi, eða 17,9%. Fæst skip, 74, voru með skráða heimahöfn á Suðurlandi, eða 4,6% af heildarfjölda fiskiskipa. Flestir opnir bátar voru á Vestfjörðum, 231, og á Vesturlandi, 163. Fæstir, 22, opnir bátar höfðu heimahöfn á Suðurlandi. Vélskip voru einnig flest, 160, á Vestfjörðum en fæst á höfuðborgarsvæðinu, 42. Flestir togarar, 11, höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra og næstflestir, eða átta togarar, á höfuðborgarsvæðinu. Fæstir togarar voru skráðir á Vestfjörðum og Austurlandi, alls þrír.