Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Bananaekrur á Tenerife eru oft byggðar upp á hleðslu undan halla, svo hægt sé að planta á jafnsléttu.
Bananaekrur á Tenerife eru oft byggðar upp á hleðslu undan halla, svo hægt sé að planta á jafnsléttu.
Á faglegum nótum 14. júní 2017

Á Tenerife er líka landbúnaður

Höfundur: Snorri Sigurðsson sns@seges.dk
Árlega fara þúsundir Íslendinga til Tenerife og er þessi eldfjallaeyja með vinsælustu ferðamannastöðum nú um stundir. Flestir sem þangað fara sækja í sólina en þar sem eyjan hefur afar fjölbreytt landslag er hún einnig vinsæll áfangastaður fyrir göngu- og hjólreiðafólk. 
 
Það eru væntanlega ekki margir sem fara til Tenerife til þess að kynna sér landbúnað eyjunnar og ekki margir sem tengja hana yfirhöfuð við landbúnað. Það kann því að koma mörgum á óvart að á Tenerife er stundaður þónokkur landbúnaður og t.d. er þar stunduð umfangsmikil bananarækt.
 
Um Tenerife
 
Tenerife er stærsta og fjölmennasta eyjan af hinum sjö Kanaríeyjum og er um leið fjölmennasta eyja Spánar. Hún er, sem flestum er væntanlega kunnugt, í Atlantshafi og er um 300 kílómetra vestur af Afríkuríkinu Marokkó. 
 
Stærð hennar er um 2 þúsund ferkílómetrar og þar búa um 900 þúsund manns. Tenerife er eldfjallaeyja og gnæfir eldfjallið Teide yfir eyjunni en það er þriðja hæsta eldfjall jarðar með sína 3.718 metra yfir sjávarmáli. Síðast varð eldgos í fjallinu fyrir rúmum 100 árum og er fjallið talið enn vera virk eldstöð. 
Veðurfarið á Tenerife er afar milt og árið um kring er hitastigið um 20-25 gráður og fer hitastigið sjaldan yfir 30 gráður. Náttúrufar eyjunnar er einstakt og er mikill munur á gróðurfari eftir því hvar á eyjunni er borið niður. 
 
Vegna staðvinda frá norðaustri er afar mikill gróður á norðurhluta eyjunnar og votviðrasamara þar en á suðurhluta eyjunnar, þar sem oftar er þurrt og sólríkt.
 
10% af vergri „landsframleiðslu“
 
Þrátt fyrir gríðarleg umsvif ferðamannaiðnaðar á Tenerife er ýmis annar atvinnuvegur stundaður á eyjunni og er landbúnaður einn þeirra. Í dag stendur hann undir um 10% af vergri „landsframleiðslu“ Tenerife en umfangsmest er að sjálfsögðu ferðamennskan. Landbúnaðurinn gegnir þó veigamiklu hlutverki enda viðheldur hann fjölbreytni í landslaginu og byggð í dreifbýli eyjunnar.
 
Umfangsmikil bananarækt
 
Á Tenerife er landbúnaðurinn vel þróaður og er fjölbreyttari en margur heldur og þegar horft er til einstakra greina er bananaræktin lang umfangsmest.
 
Alls eru bananar framleiddir á rúmlega 4 þúsund hekturum lands og eru bananaakrar afar auðþekkjanlegir fyrir hinn almenna ferðamann enda oft alklæddir striga, m.a. til þess að verjast uppgufun vatns, og þá eru þeir oftast á sléttlendi. Það er hins vegar ekki mjög víða hægt að finna sléttlendi og því eru akrarnir byggðir upp með hleðslu undan hallanum svo akurinn nær að vera á jafnsléttu. Þessi einstaka uppbygging á sér afar langa sögu og minnir steinhleðslan á vel hlaðna íslenska veggi, enda oft notaðir hraunsteinar í hleðsluna líkt og sést hér á landi.
 
Bananaræktin kom til Kanaríeyja frá Suðaustur-Asíu snemma á 16. öld og var ræktun á bönunum framan af ekki stunduð í stórum stíl og það var ekki fyrr en 1882 er ræktunin var orðin það umfangsmikil að útflutningur gat hafist en fyrsta sendingin fór til Englands það ár og síðan hafa bændur á Tenerife ekki litið um öxl. Nú nemur árleg framleiðsla um 150 þúsund tonnum og er megnið, um 90% af þessari framleiðslu, flutt til Spánar þar sem framleiðslan nýtur sérstakrar verndar gegn öðrum innfluttum bönunum.
 
Ýmis önnur landbúnaðarframleiðsla
 
Næst á eftir bananaræktinni kemur tómataræktin og er hún einnig afar umsvifamikil á Tenerife og nema tekjur af tómataframleiðslu eyjunnar um 80% af tekjum frá bananaframleiðslunni. Þá eru einnig margir bændur í kartöflurækt og framleiðslu á margs konar skrautblómum.  Á eyjunni er einnig nokkuð umfangsmikil hunangsframleiðsla auk þess sem vínberjaframleiðsla eyjunnar er vel þekkt og þá fyrst og fremst til léttvínsframleiðslu, en þaðan koma ýmsar þekktar tegundir af léttvíni.
 
Hefðbundin búfjárrækt er einnig stunduð á eyjunni en hún er þó ekki sérlega umfangsmikil. Þar er þó stunduð bæði svínaframleiðsla, sauð- og geitfjárrækt auk þess sem kúabúskapur er stundaður í nokkrum mæli en á Tenerife eru um 6 þúsund mjólkurkýr og þónokkur geitamjólkurframleiðsla, eru geitaostar líklega þekktasta framleiðsla eyjunnar þegar horft er til mjólkurframleiðslunnar.
 
Október – mánuður kaktuslúsarinnar
 
Á Tenerife eru kaktusar algengir og á þeim lifir kaktuslúsin (Coccus Cacti). Þessi lús er mjög sérstök enda hefur hún verið nýtt í hundruð ára til litunar á efnum, en lús þessi framleiðir sérstakt purpurarautt efni sem hægt er að nota til litunar á efnum. 
 
Hér áður fyrr kom hráefni til litunar á rauðum lit mest frá Suður-Ameríku og Mexíkó, en lús þessi var flutt til Kanaríeyja á 16. öld svo Evrópumenn gætu sjálfir framleitt hið vinsæla litarefni sem unnið er úr þessari lús og eggjum hennar. 
 
Í október fara bændur og búalið á stjá og sækja lús þessa og egg hennar. Þetta er oftar en ekki tengt við einhverja ferðaþjónustuviðburði og vinsælt meðal ferðamanna að slást í för með bændum og aðstoða við að safna þessu mikilvæga hráefni til litunar.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk

4 myndir:

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...