Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2014 verður haldinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi helgina 15.-17. ágúst. Skógræktarfélag Akraness, í samstarfi við Skógræktarfélag Skilmannahrepps, er gestgjafi fundarins.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir um Akranes og Hvalfjarðarsveit, þar sem gestum gefst tækifæri á að sjá með eigin augum þann árangur sem þar hefur náðst við uppgræðslu og skógrækt. Hápunktur fundarins er hátíðarkvöldverður í Fjölbrautaskólanum á laugardagskvöld þar sem valinkunnir menn verða heiðraðir fyrir framlag sitt til skógræktar og dans stiginn fram á nótt.
Í fræðsluerindum á fundinum verður sjónum meðal annars beint að skógrækt á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit, skaðvöldum í skógi, eplarækt og ræktun jólatrjáa.
Dagskrá aðalfundar, starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands og aðrar gagnlegar upplýsingar má nálgast á vefsvæði Skógræktarfélags Íslands