Aðsóknarmet slegið í Hörpu
Setning búnaðarþings fór nú í fyrsta skipti fram í Hörpunni síðastliðinn laugardag, en venjan hefur verið sú setningarathöfnin fari fram í Súlnasal Hótel Sögu. Fjölbreyttir viðburðir voru haldnir í húsinu í tengslum við setningu búnaðarþingsins og mættu 30 þúsund manns á þá viðburði sem er aðsóknarmet í Hörpu.
Í tengslum við setninguna var Matarmarkaður ljúfmetis-verslunarinnar Búrsins haldinn á jarðhæð Hörpunnar og vélasalar voru mættir með dráttarvélar og tæki til sýnis. Sauðfjárbændur buðu gestum og gangandi upp á grillað lambakjöt úr grillvagni Landssamtaka sauðfjárbænda og hægt var að kaupa eðal nautahamborgara úr hamborgarabílnum Tuddanum frá félagsbúinu að Hálsi í Kjós. Þá stóð kokkakeppni Food & Fun hátíðarinnar yfir í Norðurljósasal Hörpu á sama tíma og setning Búnaðarþings fór fram. Vakti þetta nýja snið búnaðarþings mikla athygli og mættu 21 þúsund gestir á viðburði í og við Hörpuna á milli klukkan 11 og 18 á laugardeginum og 9.000 til viðbótar komu á matarmarkaðinn á sunnudeginum eða samtals 30 þúsund manns. Er það fyrir utan fjölda fólks sem mætti á aðra atburði í Hörpunni utan þessa tíma.