Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Í leit að uppbroti á tilverunni fluttu hjónin Dagný Guðmundsdóttir og Sigurður Jónsson úr borg í sveit þar sem þau rækta margvíslegar matjurtir og halda hænur.
Í leit að uppbroti á tilverunni fluttu hjónin Dagný Guðmundsdóttir og Sigurður Jónsson úr borg í sveit þar sem þau rækta margvíslegar matjurtir og halda hænur.
Mynd / ghp
Viðtal 26. ágúst 2017

Ætigarður í uppsveitunum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Hversu mikinn mat geta hjón búið sér til á litlu landi? Þetta er spurning sem hjónin Dagný og Sigurður ákváðu að gera atlögu að þegar þau keyptu landið Skyggnisstein í Bláskógabyggð fyrir nokkrum árum. Í dag rækta þau býsnin öll af góðmeti upp á lífrænan máta. 
 
Fyrir nokkrum árum ákváðu hjónin Dagný Guðmundsdóttir og Sigurður Jónsson að venda kvæði sínu í kross og flytja úr borg í sveit.
 
Dagný og Sigurður voru útivinnandi hjón í Reykjavík og höfðu gaman af því að rækta garðinn sinn í hjáverkum. Endrum og sinnum ræddu hjónin um að taka ræktunaráhugann á næsta stig og einn daginn ákváðu þau að stíga það skref til fulls. 
 
„Ég held að þetta sé einhvers konar þörf á að brjóta upp tilveruna. Við vildum fá að takast á við nýja hluti,“ segir Dagný.
 
Í tvö ár leituðu þau sér að jarðnæði til að láta á drauma sína reyna. Þótt matvælaræktun væri ákveðin undirstaða voru þau ekki með fastmótaðar hugmyndir um hvað biði þeirra. 
 
„Við ætluðum að finna út úr því hvað nákvæmlega við myndum gera eftir því hvað staðurinn, sem við keyptum myndi bjóða upp á.“
 
Vinna með landgæðunum
 
Skyggnissteinn í Bláskógabyggð varð fyrir valinu. Landið er um 6 ha, 3 km norður af Geysi, austan Tungufljóts andspænis skógræktinni í Haukadal. Einn hektari er skjólgott frístundaland með sumarbústað. Tæpir 5 ha eru landbúnaðarland.
 
Hjónin bættu glerskýli á bústaðinn sem þau nýta við forræktun plantna á vorin. Gott er að hafa kryddjurtir í seilingarfjarlægð svo auðvelt sé að grípa til þeirra í matseldinni.
 
Fyrri eigendur höfðu ræktað þar margbreytilegan skóg sem nú nýtist á margan hátt. Þar er einnig að finna mikið og fjölbreytt blómaskrúð og víðáttumikla móa með fjalldrapa og bláberjalyngi, gróðursælt votlendi og hólma í fljótinu. Stærsti hluti af landinu hefur verið friðaður fyrir beit í um 30 ár og er mjög vel gróinn.
 
„Kosturinn við landið er að við höfum skjól, mjög mikið af góðu vatni og djúpan moldarjarðveg. Vatnið kemur úr uppsprettulindum Bláskógabyggðar, þeim vatnsmestu sem þekkjast á jörðinni. Um leið erum við ansi langt inni í landi og því er næturfrost langt fram eftir vori,“ segir Dagný en þau Sigurður vinna með landgæðin á ýmsan hátt.
 
Þannig hafa tvö óupphituð gróðurhús og gróðurkassar með ylplasti reynst þeim afar vel. Auk þess bættu þau glerskýli á bústaðinn sem þau nýta við forræktun plantna á vorin. Skóginn hafa þau síðan grisjað til muna og inni í honum má nú finna veglega kartöflu- og rófugarða í skjólgóðum skógarlundi. 
 
Óupphituð gróðurhús reynast vel fyrir hitakærar plöntur. Hægra megin má sjá hina voldugu valurt sem nýtist bæði sem lækningajurt og er sérstök búbót í jarðvegsgerð.
 
„Annað sem við stefnum meira að, en höfum gert of lítið, er að nýta grjót sem hitagjafa,“ segir Dagný.
 
Vistræktaraðferðir við íslenskar aðstæður
 
Veturinn áður en hjónin hófust handa á Skyggnissteini undirbjuggu þau sig með lestri bóka um ræktun auk þess að viða að sér upplýsingum af vefnum og það var einmitt í slíku vafri sem þau kynntust vistrækt (e. permaculture).
 
„Við sáum að þarna var eitthvað sem passaði algjörlega inn í okkar hugmyndafræði. Við höfðum einhverja óljósa hugmynd um hvað við vildum gera og fannst merkilegt að það væri fullt af fólki úti um allan heim sem væri að hugsa akkúrat svona og að það væri til hugtak fyrir þetta – permaculture.“
 
Matjurtarbeð hannað í mandölusniði að hætti vistræktar. Þarna má sjá lauka, gulrætur, næpur, sellerí, rófur, kál, baunir, kamillu og fleira. Túnið nýtir fjölskyldan í leik og störf. 
 
Vistrækt er heildrænt ræktunar- og hönnunarkerfi sem líkir eftir náttúrunni með sjálfbærni að markmiði. Í því felst m.a. matvælaframleiðsla sem vinnur með náttúrulegu umhverfi. Ein af megináherslum vistræktar er tengsl milli einstakra þátta og staðsetningar þeirra innan kerfis með það fyrir augum að mynda stöðugt og afkastamikið samfélag sem líkir eftir samvirkni og skilvirkni náttúrulegra vistkerfa.
 
Vistrækt er áströlsk að uppruna en hugmyndafræðin hefur breitt úr sér víða um heim, sér í lagi í Asíu, Afríku og Eyjaálfu. Garðyrkjuaðferðir vistræktar eiga því til að byggja á heitu loftslagi og þurrum jarðvegi. Því felst ákveðin áskorun í því að aðlaga vistræktaraðferðir að íslenskum aðstæðum. 
 
„Ég hef viljað að ræktunin okkar sé æt og sem mest fjölær. Við höfðum einnig alltaf verið ákveðin í því að ræktunin okkar yrði lífræn. Við vildum leita leiða til að vinna með náttúrunni í stað þess að berjast við hana. Fólk hefur verið að vinna með náttúrunni gegnum aldirnar og við þurfum bara að rifja upp aðferðir sem notaðar voru. Um allan heim hefur fólk kunnað aðferðir til að nýta vatnið, nýta hitann, nýta skjólið og samræktun svo ég nefni eitthvað.“
 
Þarna eru þau Dagný og Sigurður að prófa þekkt samval innan vistræktar sem nefndist „Systurnar þrjár“. Maískorn, kúrbítur og baunir eru ræktaðar saman og eiga að hjálpa hvert öðru. Maísplantan er sterkur burðarbiti fyrir baunaplöntur sem þarf eitthvað til að klifra upp. Baunirnar sækja nitur í jarðveginn sem gagnast bæði maísnum og kúrbítnum. Kúrbítur er skriðjurt sem þekur moldina, viðheldur því raka í jarðveginum og kemur í veg fyrir illgresi.
 
Dagný og Sigurður hafa því prófað sig áfram með ýmsar aðferðir í matjurtarræktun sinni. Sumt hefur virkað vel og annað ekki.
 
„Það sem er flókið við það er að þetta er svo margþætt. Ákveðnar aðferðir geta verið að virka eitt sumarið og ekki það næsta. Þetta er ekki vísindaleg vinna hjá okkur. Þótt við skráum mjög mikið niður hvað við erum að gera og fylgj­umst vel með því þá tel ég að það þurfi heila mannsævi til að læra hvað virkar í alvöru. Maður þarf að minnsta kosti að hafa lifað mörg mismunandi sumur,“ segir Dagný og nefnir dæmi.
 
„Fyrripart sumars óx salatið illa hjá okkur og ég leitaði að ástæðu þess í aðferðum mínum og áburðargjöf og einhverju slíku. Svo hitti ég konu sem hafði svipaða sögu að segja af sér og öðrum í kringum sig. Þá er það bara þetta ár og árferði, hvað sem kann að útskýra það, salatið var bara lélegt.“ 
 
Uppskeran undirstaða fæðunnar
 
Það kennir ýmissa grasa á Skyggnissteini. Dagný og Sigurður rækta bæði kartöflur og rófur af ýmsum gerðum, kúrbít og kuldaþolna tómata, maís, baunir, aspas, vínber, kál í öllum stærðum og gerðum, innlend og erlend ber, ávaxtatré, kryddjurtir, tejurtir og svo mætti lengi telja. Enda segir Dagný þau rækta allt sem þeim dettur í hug. Á landinu er fjölbreytt flóra af villtum jurtum sem þau nýta einnig  mjög mikið. Umfang uppskerunnar er á þann veg að þau sækja lítið í grænmetisdeildir matvöruverslana.
 
 
„Það hefur verið stefnan að borða aðallega uppskeruna okkar. Að sjálfsögðu kaupum við stundum eitthvað grænmeti. En við lítum á það sem áskorun, til að mynda að finna grænmeti sem vex sem lengst fram á veturinn og þolir töluvert frost. Þar get ég nefnt pastínökkur og rósakál sem dæmi. Einnig erum við að reyna að finna út úr því hvernig við getum fengið grænmeti sem fyrst á vorin. Þannig höfum við leyft svartrótinni að vera eftir á haustin og þá koma blöð á vorin sem hægt er að nota ásamt piparrótarblöðum, sjálfsáðu klettasalati í gróðurhúsunum o.fl.“
 
Dagný segir mikla vinnu fylgja því að rækta garðinn og sér í lagi meðhöndla uppskeruna svo hún geymist. Auk þess að ganga frá ferska grænmetinu haganlega, þá þurrka þau hráefnið, frysta það, salta, súrsa, sulta og setja í olíur.
 
Auk þess halda Dagný og Sigurður fáeinar hænur sem sjá þeim fyrir eggjum til eigin nota. „Hænurnar lífga upp á tilveruna og hjálpa til með því að róta í haugum og beðum og leggja til áburð.“
 
Hraukbeðin hentugu
 
Ein af þeim aðferðum sem Dagný og Sigurður kynntust gegnum vistrækt var notkun hraukbeða (e. Hugelkultur). Hraukbeð eru upphækkuð beð sem búin eru til með því að grafa trjádrumb og greinar ofan í jörðina, hylja með moltu og jarðvegi og rækta svo á beðinu. 
 
Með tímanum brotnar trjádrumburinn niður og losar þá hita og æskileg næringarefni fyrir jurtir í beðinu. „Ég held að hraukbeð séu eitthvað sem Íslendingar ættu að nota mikið af því þau er ótrúlega hentug fyrir okkar aðstæður. Beðið býr til skjól, hita og áburð og er praktískt á margan hátt.“
 
Hraukbeð í blóma. Hraukbeð eru upphækkuð beð sem búin eru til með því að grafa trjádrumb og greinar ofan í jörðina, hylja með moltu og jarðvegi og rækta svo á beðinu. Með tímanum brotnar trjádrumburinn niður og losar þá hita og æskileg næringarefni fyrir jurtir í beðinu.
 
Lífræn umbreyting
 
Með reynslu síðustu ára hafa Dagný og Sigurður komist að því að möguleikar matvælaframleiðslu hér á landi eru gríðarmiklir. 
 
„Við erum alltaf að sjá fleiri og fleiri fréttir af því við hvaða aðstæður matvæli eru framleidd. Við vitum ekki hvað fólkið sem ræktaði þetta hefur þurft að þola, við vitum ekki hvaða efni eru notuð. Svo getum við ekki treyst á alla þessa flutninga til landsins að eilífu. Mér finnst allt í lagi að kaupa framandi krydd og spennandi matvæli til að krydda lífið. Það er varla hægt að tala um fæðuöryggi ef framleiðslan byggir mest á innflutningi. Við ættum því að reyna að uppfylla grundvallarþarfir okkar sjálf.“
 
Inn í skógarlundi er veglegur kartöflu- og rófugarður.
 
Hún segir einnig uppgang í lífrænni ræktun um allan heim enga tilviljun. Eftirspurn eftir lífrænum vörum hefur aukist svo um munar og í því liggi miklir möguleikar á Íslandi. Þá sé lífræn ræktun ekki síður spurning um náttúruvernd og heilsuvernd.
 
„Það er mikilvægt að styrkja bændur í að umbreyta búum sínum í lífræn býli. Því það er mikið átak og getur tekið langan tíma, sérstaklega ef þeir eru með heybúskap. Það er um að gera að nýta þá styrki sem í boði eru, í því felast tækifæri,“ segir Dagný. Í búvörusamningi frá 2016 er gert ráð fyrir 35 milljónum á ári í aðlögunarstyrki til þeirra sem hafa byrjað lífræna aðlögun í landbúnaði undir eftirliti vottunarstofunnar Túns, en framleiðendur geta sótt um slíkan styrk í gegnum Matvælastofnun.
 
Ræktun er vinna
 
Dagný og Sigurður hyggja  ekki á umfangsmikla matvælaframleiðslu, en hafa í litlum mæli verið að taka á móti fólki á Skyggnissteini þar sem þau kynna starfsemi sína og matbúa síðan handa gestum úr afurðunum.
 
Jurtasveipur sóttur í aðferðafræði vistræktar. Steinarnir þjóna sem hitagjafar og kryddjurtum er raðað eftir vatns- og birtuþörf. 
 
Dagný segir þó að afurðasala í litlum mæli gæti hentað þeim miðað við þær aðstæður sem staðurinn býður núna upp á, og bendir á reglugerð nr. 580/2012 um framleiðslu á matvælum undir smáræðismörkum, sem gefur frumframleiðendum afurða í litlu magni færi á að selja vöru til neytenda undir ákveðnum kringumstæðum. 
 
„Ef fólk ætlar að fara þessa leið sem við fórum, það er að gera margt og pínulítið af hverju, þá verður það að átta sig á því að maður býr ekki til mikla peninga úr því og því fylgir mikil vinna. Mér finnst gott að rifja upp það sem Hildur Hákonardóttir sagði í bókinni Ætigarðurinn. Þar stendur að maður eigi ekki að láta sér detta það í hug að hægt sé að rækta ofan í heila fjölskyldu og um leið vera útivinnandi í fullu starfi.“
 
Hún segir því að best sé að sníða ræktun sína eftir aðstæðum. „Ef þú ert útivinnandi með lítinn garð þá er t.d. mjög sniðugt að rækta salat og kryddjurtir.“ 
 
Opnir framtíðarmöguleikar
 
Eftir að hafa búið bæði í sveit og borg í 4 ár hafa Dagný og Sigurður nú sest alfarið að á Skyggnissteini.
 
Þar ætla þau að halda áfram að rækta garðinn og vinna úr þeim efniviði og tækifærum sem þeim bjóðast í náttúrunni og nálægð við víðernin á hálendinu.
 
„Ég hef enga þörf á að skilgreina okkur. Mér finnst gaman að vasast í öllu mögulegu. Hluti af því er að rækta. Í því felst sköpun og það er gefandi.“
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...