Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 10. febrúar 2017
Áhrifin geta orðið umtalsverð af breytingum á tollaumhverfinu
Höfundur: smh
Fljótlega eftir að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum var ljóst að stefnt yrði að breytingum í úthlutun á tollkvótum búvara á nýju ári. Það kom fram í stjórnarsáttmála að endurskoða þyrfti ráðstöfun innflutningskvóta og var síðan ítrekað af Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Dýrir tollkvótar geta leitt til hærra matvöruverðs
Breytingarnar á úthlutunum hafa ekki verið útfærðar en Benedikt sagði á Alþingi, við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra, að dýrir tollkvótar mættu ekki verða til þess að hækka matvöruverð til neytenda óeðlilega mikið. Eins og fyrirkomulagið hefur verið fram að þessu hefur verið boðið í þessa kvóta, ef eftirspurn er umfram framboð. Sá sem býður hæst hverju sinni fær kvótann, en sé engin umfram eftirspurn er ekkert greitt fyrir hann. Aðrar mögulegar leiðir gætu til dæmis falist í úthlutun með hlutkesti eða að þeir fái úthlutun sem fyrstir sækja um.
Tilgangur boðaðra breytinga er því að koma í veg fyrir að verð á þessum búvörunum til neytenda hækki of mikið.
Líklegt er að áhrifin verði enn meiri í kjölfar gildistöku tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins (ESB), sem var undirritaður síðastliðið haust um gagnkvæma niðurfellingu á tollum. Ísland hefur þegar fullgilt samninginn en ESB hefur ekki lokið því sín megin.
Tekur líklega gildi seint á árinu
Sigurður Eyþórsson.
Endurskoðuð tollalög tóku gildi um síðustu áramót og þar með er innflutningur hingað til lands orðinn að mestu tollfrjáls, nema á tilteknum landbúnaðarvörum. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, segir að eftir standi einkum tollar á þeim landbúnaðarvörum sem einnig eru framleiddar hér á landi. „Nánar tiltekið megum við leggja tolla á rúman þriðjung (37,4 prósent) þeirra tollnúmera sem ná yfir landbúnaðarvörur í tollskrá. Eins og fyrir liggur hafa flestar landbúnaðarvörur verið fluttar inn hér án tolla lengi; svo sem allar kornvörur, allir ávextir og mest af grænmeti – sem sumt ber þó tolla þegar íslensk framleiðsla er í boði. Athugið að hérna er ég að tala um almenna tolla.
Innflutningur frá einstökum svæðum eins og ESB er rýmri. Sambandið telur sjálft að með gildistöku nýs tollasamnings þá verði hægt að flytja 90 prósent þeirra landbúnaðarvara sem framleiddar eru innan ESB, tollfrjálst til Íslands.
Tollasamningurinn milli Íslands og Evrópusambandsins var fullgiltur af Íslandi síðastliðið haust en ekki ESB. Dagsetning gildistöku hans liggur ekki fyrir. Samningurinn þarf að fara fyrir Evrópuþingið og við vitum ekki hvenær afgreiðslu þess lýkur. Nú stendur yfir umfjöllun í þingnefnd. Að fengnu samþykki þingsins þá er endanleg staðfesting í höndum ráðherraráðsins. Eftir að báðir aðilar hafa lokið öllum formsatriðum og skipst á bréfum þess efnis þá er gildistakan sjálf 6 mánuðum síðar.
Fram að gildistöku getur hvorugur nýtt sér samninginn hvorki til að flytja vörur inn eða út. Samningur sem gerður var samhliða um gagnkvæma viðurkenningu afurðaheita hangir saman við tollasamninginn þannig að hann tekur gildi samhliða. Miðað við að málið er ekki komið lengra en raun ber vitni finnst mér ekki líklegt að samningurinn taki gildi fyrr en undir lok þessa árs,“ segir Sigurður.
Þrengir að svína- og kjúklingabændum
Í samningunum við ESB felst að tollar verða felldir niður á yfir 340 tollskrárnúmerum gagnkvæmt milli samningsaðila, auk þess sem lækkun verður á yfir tuttugu öðrum.
Ekki báru allar vörur á þessum númerum tolla á Íslandi og því er um að ræða raunverulega niðurfellingu tolla á yfir 100 tollskrárnúmerum sem áður báru tolla.
Evrópusambandið fellir niður tolla á 8.800 tonnum af íslenskum búvörum. Á móti fellir Ísland niður toll á 3.812 tonnum. Tollfrjáls kvóti af svínakjöti inn á Íslandsmarkað er nú 200 tonn, en verður 700 tonn eftir breytingarnar. Kvóti fyrir alifuglakjöt var einnig 200 tonn en verður 856. Þá er verulega bætt í kvóta fyrir nautakjöt, sem fer úr 100 tonnum í 696 tonn.
Líklegt er að einhverjir íslenskir svína- og kjúklingabændur muni fara illa út úr þessum tollabreytingunum. Það sem snýr að þeim kemur til framkvæmda á fyrstu tveimur árum samningsins.
Samkeppnisumhverfi þessara bænda mun harðna og samhliða þurfa takast þeir á við breytingar á húsakosti sínum til að mæta hertum aðbúnaðarkröfum.
Mun reyna á þolrif íslenskra svínabænda
Björgvin Jón Bjarnason, formaður svínabænda.
Björgvin Jón Bjarnason, formaður svínabænda, segir stöðuna sem blasir við svínabændum frekar óvenjulega. „Við sjáum í fyrsta sinn í innflutningstölum fyrir nóvember 2016 að innflutt magn af svínakjöti er um 85 prósent af innlendri framleiðslu mánaðarins, sé miðað við dýr á fæti. Nokkra mánuði á undan hafði innflutningur numið um 40-50 prósent af innlendri framleiðslu. Þessar tölur boða nýjan veruleika fyrir okkar stétt,“ segir Björgvin. Hann telur að óvissa sé með afleiðingarnar á greinina af hinum nýja tollasamningi. „Það er ekki gott að segja til um áhrifin á markaðinn. Það sem er erfiðast fyrir markaðinn er að ekki er hægt að sjá fyrir um framboðið. Ein af meginforsendum svínaræktar er að losna við gripi til slátrunar á réttum tíma. Miklar sveiflur í innflutningi geta valdið jafnt skorti og offramboði á ákveðnum vöruliðum. Hvorugur kosturinn er góður fyrir markaðinn, til lengri tíma litið. Svín eru haldin á nálægt 20 búum á landinu. Gangi forsendur sérfræðiskýrslna eftir, sem voru unnar fyrir okkur vegna kostnaðar við aðbúnaðarreglugerð sem og áhrif tollasamnings, mun reyna mjög á þolrif íslenskra svínabænda á næstu misserum. Lækkun tekna og hækkun útgjalda er að jafnaði ekki skynsamlegur kokkteill, en upp á þetta er boðið í þessu samspili tollasamninga og fjárfestinga við að uppfylla aðbúnaðarreglugerð. Í flestum nágrannalöndum okkar eru þessar fjárfestingar styrktar býsna myndarlega, enda er þetta átak í dýravelferð skilgreint sem samfélagsverkefni en ekki einkamál hvers bónda. Þessi skilningur hefur því miður ekki verið ríkjandi hér á landi.
Þá er einnig fremur grátbroslegt að horfa upp á að engin tilraun virðist vera gerð í að afla upplýsinga um hvort þær afurðir sem fluttar eru inn séu af dýrum sem hafa hlotið svipaða meðferð og áskilin er hérlendis. Það er reyndar ljóst í veigamiklum atriðum, að svo er ekki.
Langkostnaðarsömustu breytingar sem þarf að gera á íslenskum svínabúum snúa að gyltuhaldi. Samkvæmt aðbúnaðarreglugerð þarf annaðhvort að breikka bása verulega eða að halda gyltur í lausagöngu. Þessi breyting kallar á heilmiklar framkvæmdir og fjárfestingar í innréttingum, breytingar á fóðurkerfum og fleira. Seinna mun einnig þurfa að skipta út öllum gotbásum svínabúanna. Breytingar vegna eldisgrísa eru flestar einfaldari.
Aukin rýmisþörf á hverja gyltu mun draga úr innlendri framleiðslu svínakjöts, nema að menn fjárfesti í nýjum gyltubúum.“
Ósanngjörn samkeppni
Ingimundur Bergmann, formaður kjúklingabænda.
Ingimundur Bergmann, formaður kjúklingabænda, segir að hans félagsmenn hafi mótmælt samningnum frá því hann var fyrst kynntur til sögunnar haustið 2015. „Samkeppni af þessu tagi er að okkar mati ósanngjörn vegna þess að kröfur sem gerðar eru til framleiðenda á Íslandi annars vegar og í ESB-löndum hins vegar eru ólíkar. Líka þarf að hafa í huga að stuðningur við framleiðsluna er ólíkur milli landa, til dæmis var farin sú leið í Evrópusambandslöndunum við innleiðingu nýrra velferðarreglugerða að bændum var veittur stuðningur af hálfu ríkisvaldsins til að þeir gætu uppfyllt hin nýju skilyrði,“ segir Ingimundur.
Velferðarreglugerðin góður vegvísir
Ingimundur tekur fram að velferðarreglugerðin íslenska, sem gefin var út í ársbyrjun 2015, sé að flestu leyti góður vegvísir til framtíðar um framleiðsluhætti og fleira að mati íslenskra kjúklingabænda, en tollasamningurinn við Evrópusambandið sé annað mál.
Með reglugerðinni sé framleiðslugeta íslenskra kjúklingabúa þó skert og við því þurfi að bregðast með ýmsum kostnaðarsömum aðgerðum. „Við þurfum að ráðast í endurbætur á húsnæði og byggingu nýrra húsa til að mæta framleiðsluskerðingunni sem af reglugerðinni hlýst. Enginn aðlögunartími var gefinn til þeirra hluta.
Kostnaðarsamastar eru nýbyggingarnar, en einnig getur þurft að ráðast í lagfæringar og breytingar á eldri húsum sem vissulega kosta sitt meðal annars vegna framleiðslustöðvunar á framkvæmdatíma auk annars kostnaðar.
Á sama tíma og greinin þarf að takast á við breytingarnar í aðbúnaðarreglugerð var gerður nýr tollasamningur við ESB sem felur í sér aukinn innflutning á alifuglakjöti og svínakjöti auk ýmissa annarra landbúnaðarafurða. Það er ekki séð til þess samhliða, að þær vörur sem til stendur að fluttar verði inn til Íslands séu framleiddar við sambærilegan skilyrði og krafist er hérlendis. Hvorki hvað varðar hreinleika né aðbúnað. Þessu höfum við kjúklingabændur mótmælt frá byrjun og kannski er það að bera árangur, því nú er farið að glitta í reglugerð sem tekur á þeim málum, það er á þann veg að hægt verður að krefjast þess að upplýst verði hvaðan varan sem verið er að flytja inn til Íslands sé raunverulega komin, en ekki bara frá hvaða landi hún kom til Íslands,“ segir Ingimundur.
Verðfall á kjöttegund getur skert möguleika annarrar
Áhrif þessa innflutnings á íslenskan kjötmarkað gætu orðið skaðleg. Innflutningur til landsins á afgangsframleiðslu annarra landa, hefur augljóslega þær afleiðingar að skerða möguleika íslenskra bænda. Líta verður á kjötmarkaðinn sem eina heild og verðfall á einni kjöttegund getur skert markaðsmöguleika annarra kjöttegunda. Því er það, að það sem hugsanlega var gert til að liðka til fyrir markaði fyrir lambakjöt (til ESB-landa), getur haft þau áhrif að verðfall verði á innlendum kjötmarkaði vegna innflutnings til landsins á erlendu afgangskjöti af öðrum tegundum – sem vegna tollasamningsins er alifugla, svína og nautakjöt aðallega. Engin greining var unnin af hálfu íslenskra stjórnvalda á afleiðingum tollasamningsins á íslenskan landbúnað.
Samkvæmt minni félagaskrá eru kjúklingabændur í Félagi kjúklingabænda rúmlega 20. Þá eru ótaldir kjúklingabændur sem tengjast ,,Matfugli ehf.“, þannig að talan gæti verið upp undir 30. Hvort allir eða hversu margir munu þola þessar breytingar, sem af velferðarreglugerðinni og tollasamningnum hljótast, get ég ekki sagt um.
Kjúklingabændur vonast eftir góðu samstarfi við nýja ríkisstjórn og vona að hún verði farsæl í störfum sínum,“ segir Ingimundur.