Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar og er stjórn deildarinnar óbreytt.
Axel Sæland er áfram formaður og meðstjórnendur þau Jón Helgi Helgason, Halla Sif Svansdóttir, Óli Björn Finnsson og Eygló Björk Ólafsdóttir. Varamenn í stjórn eru Birkir Ármannsson og Guðni Þór Guðjónsson.
Axel Sæland segir ýmislegt brenna á garðyrkjubændum. Endurskoðun búvörusamninganna hafi verið gífurleg vonbrigði og efndir háleitra markmiða stjórnvalda um að styðja garðyrkjuna séu engar. „Með ráðuneytisstjórahópnum var komið með enn einn plásturinn á landbúnaðinn meðan garðyrkjan er virkilega að reyna að horfa til framtíðar.“ Vonandi verði nýjar áherslur í búvörusamningum 2027 og skýrari sýn á hvernig fólk vilji fara inn í framtíðina.
Hann segir að endurskoða verði tollaumhverfið í heild sinni. „Þegar verðin erlendis eru þannig að fyrirtæki á Íslandi, eins og í blómunum t.d., nenna ekki einu sinni að sækja um tollkvótana sem eru í boði heldur flytja bara inn á fullum tollum af því að það er einfaldara, þá er bersýnilega eitthvað að.“
Skýrsla Ríkisendurskoðunar; Tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða, stjórnsýsluúttekt, 2022, brýni tollyfirvöld til að fara eftir settum reglum. „Við viljum sjá íslensk stjórnvöld bregðast við og taka til í þessu og þetta á við um miklu fleira en garðyrkjuna. Landbúnaðurinn í heild sinni er undir. Maður bindur auðvitað vonir við að íslenska ríkið sjái hag sinn í að verja þá matvælaframleiðslu sem er hér á landi.“ Axel segir garðyrkjubændur samhenta. „Við erum mjög græn grein umhverfislega, tikkum í öll box í hollum neysluvenjum og fáum þar af leiðandi meira pláss í umræðunni og svo eru bara að verða til risafyrirtæki í garðyrkju á Íslandi.“
Fjórar ályktanir voru samþykktar á fundinum. Sú fyrsta lýtur að húsakosti fyrir garðyrkjunám. Segir þar að „Húsnæðismál garðyrkjubrautar FSU eru í lamasessi, ljóst er að mikið átak verði að eiga sér stað á Reykjum ef skólinn á að þrífast þar. Deild garðyrkjunnar skorar á stjórnvöld að koma húsnæðismálum í lag með því að sinna því viðhaldi sem þarf og byggja þær nýbyggingar sem lofað er.“ Þá var ályktað um búvöru- samninga en deildin lýsir vonbrigðum með endurskoðunina. Stjórnvöld séu að svíkja loforð í stjórnarsáttmála um að bæta auknu fjármagni inn í útirækt og tryggja ylrækt 95% niðurgreiðslu á dreifingarkostnaði raforku. „Ekkert bendir til að stjórnvöld ætli sér að standa við gefin loforð nú þegar endurskoðun er lokið.“ Í kjölfar töluverðra umræðna um mögulega nýja og illviðráðanlega myglustofna í innfluttu útsæði var eftirfarandi ályktað: „Kartöflumygla ógnar ræktun kartaflna á Íslandi. Ísland er í kjörstöðu til að vera myglufrítt svæði vegna fjarlægðar sinnar frá öðrum ríkjum. Til að svo verði verður að finna leiðir til að fullnægja markaði með íslensku útsæði. Deild garðyrkjunnar ályktar svo að með því að koma á fót metnaðarfullri vefjaræktun og efla stofnútsæðisbændur þá sé því ekkert til fyrirstöðu að hætta innflutningi á stofnútsæði kartaflna. Mikilvægt sé því að BÍ í samstarfi við RML og Matís leiti allra leiða til að finna framtíðarlausnir og fjármagn til að svo verði.“
Þá voru Bændasamtökin brýnd í tillögum til að taka tollaumhverfi garðyrkjunnar fastari tökum og leita leiða með stjórnvöldum til að leysa þau mál.
Saga garðyrkjunnar frá 1980
Á fundinum kynnti Ívar Ragnarsson, ráðgjafi hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), skýrslu sína og Helga Jóhannessonar ráðunautar: Rekstrargreining garðyrkju á Íslandi 2019–2022. Rósa Jónsdóttir, fagstjóri hjá Matís, kynnti verkefni um verðmætaaukningu hliðarafurða frá garðyrkju og Helgi fjallaði um stofnræktun á kartöflum.
Fram kom að nú stendur yfir undirbúningur að ritun sögu garðyrkju á Íslandi frá árinu 1980 til dagsins í dag. Pálmi Jónasson sagnfræðingur vinnur að undirbúningnum á næstunni.