Alvöru vambir berast í tvær verslanir Kaupáss
Í síðasta Bændablaði var greint frá því að engar vambir fengjust lengur frá afurðastöðvum í sláturtíðinni. Nú hafa mál hins vegar þróast með þeim hætti að SAH á Blönduósi hefur tekið að sér að fullverka nokkurt magn vamba fyrir tvær verslanir Kaupáss – og komu þær í verslanir 15. október síðastliðinn.
Í blaðinu var sagt frá því að Sláturfélag Suðurlands (SS) hafi verið síðasta afurðastöðin til að bjóða viðskiptavinum sínum upp á alvöru vambir í sláturtíðinni, en hefði hætt því af hagkvæmnisástæðum fyrir þetta haust. Í umfjöllun blaðsins staðfesti Ólafur Júlíusson, innkaupastjóri fyrir verslanir Kaupáss, þann orðróm, að talsverð eftirspurn væri eftir alvöru vömbum.
Ólafur segir að hreyfing hafi komist á málið eftir ábendingu frá húsmóður á Selfossi, sem taldi að samstarf ætti að geta náðst á milli SAH og Kaupáss um að bjóða almenningi upp á þessa vöru. „Við settum okkur í kjölfarið í samband við Kjarnafæði á Blönduósi og afleiðing þessa samstarfs er að við getum í dag boðið upp á vambir á sláturmörkuðum okkar, annars vegar í Krónunni á Selfossi og hins vegar Nóatúni í Austurveri. Við settum auglýsingu í fjölmiðla um síðustu helgi þar sem við óskuðum eftir pöntunum og við fengum á mjög stuttum tíma um þúsund pantanir.“
Gunnar Tryggvi Halldórsson, framkvæmdastjóri hjá SAH á Blönduósi, segir að þeir hafi farið af stað með hálfhreinsaðar vambir eftir að Matvælastofnun gaf grænt ljós á þá vöru. „Í framhaldinu tókum við ákvörðun um að fullhreinsa einn dag og selja Kaupási í eina stóra pöntun. Þetta hefur svo hlaðið utan á sig og við erum að hreinsa í fleiri pantanir fyrir Kaupás.
Þegar þetta flæði er komið af stað getum við einnig boðið fullhreinsaðar vambir á heimamarkaði einhverja daga fram að mánaðarmótum.“