Anton Kári sveitarstjóri er nýr formaður
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, er nýr formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS).
Samtökin eru landshlutasamtök fimmtán sveitarfélaga á Suðurlandi, frá Ölfusi í vestri til Hornafjarðar í austri. Meginstarfsemi þeirra felst í hagsmunagæslu fyrir íbúa og sveitarfélög á Suðurlandi.
Önnur hlutverk tengjast m.a. samningum og framlögum frá hinu opinbera. Á grundvelli slíkra samninga veitir SASS m.a. ráðgjöf, styrki og aðra þjónustu til handa atvinnu- og menningarlífi á Suðurlandi. Samtökin vinna einnig að ýmsum greiningar- og þróunarverkefnum til hagsbóta fyrir landshlutann á sviði byggðarþróunar og heldur utan um rekstur ákveðinna sérverkefna.
„Nýja embættið leggst gríðarlega vel í mig um leið og ég þakka kærlega fyrir það traust sem mér er sýnt með því að fá að sinna þessu verkefni. En auðvitað stendur maður ekki einn, því á bak við mig er einnig nýkjörin stjórn sem skipuð er einvala liði sveitarstjórnarfulltrúa á Suðurlandi,“ segir Anton Kári. Fyrir stjórn liggja nú fjölmörg verkefni. „Það sem mér finnst mest spennandi og áhugaverðast við embættið er að fá að leiða sunnlenskt samstarf á breiðum grundvelli. Það er mikilvægt að við Sunnlendingar stöndum saman vörð um okkar hagsmuni og sjáum til þess að landshlutinn haldi áfram að blómstra og tækifærin eru svo sannarlega hér.“