Ástand sjávar vaktað
Bjarni Sæmundsson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, lauk nýverið tveggja vikna rannsóknaleiðangri kringum landið. Leiðangurinn er hluti af vöktunarverkefninu Ástand sjávar.
Í leiðangrinum var mældur hiti og selta á föstum sniðum út frá landinu, en auk þess voru tekin sýni á völdum stöðvum til greiningar á næringarefnum, súrefni og koldíoxíði. Ekki tókst að mæla á öllum stöðvum vegna veðurs, sem var óvenju leiðinlegt þetta árið.
Þá var einnig sinnt nokkrum smærri verkefnum, meðal annars var lagt straummælabaujum í Patreksfirði og í Reyðarfirði og ásamt fleiri athugunum, sem er hluti af gagnaöflun vegna sjókvíaeldis. Slíkar athuganir voru einnig gerðar í Eyjafirði.
Safnað var sýnum fyrir Geislavarnir ríkisins vegna vöktunar á magni geislavirkra efna í sjó. Þá voru sett út hlustunardufl fyrir Háskóla Íslands, til að fylgjast með hvalaferðum djúpt út af Austurlandi og rekdufl, sem mæla umhverfisþætti og voru þau sett í sjóinn á fjórum stöðvum umhverfis landið fyrir erlenda samstarfsaðila.
Greiningu gagna úr leiðangrinum er ekki lokið, en niðurstöðurnar munu birtast á „Vefur um sjórannsóknir“, á heimasíðu stofnunarinnar og í skýrslu, „Ástand sjávar“, sem gefin er út reglulega.