Auka þarf ásetning nautgripa
Auka þarf ásetning nautgripa verulega til að mæta aukinni eftirspurn eftir nautakjöti með innlendri framleiðslu.
Nautakjötsmarkaður á Íslandi hefur vaxið um 5–6% á ári að undanförnu og vísbendingar eru um áframhaldandi uppsveiflu. Það sem af er ári hefur vöxturinn talist rúmlega 4% ef innflutningur er leiðréttur fyrir beini, skv. mælaborði landbúnaðarins og innflutningstölum Hagstofu Íslands. Þegar rýnt er betur í hlutföllin milli innlendrar framleiðslu og innflutnings sést að innlend sala hefur dregist saman um tæp 9,5% á meðan innflutningur nautakjöts hefur aukist um rúmlega 60% á fyrstu fimm mánuðum ársins borið saman við fyrstu fimm mánuði ársins 2022. Samkvæmt sláturtölum er meðalaldur UN gripa sem skilað er til slátrunar að lækka, meðalþunginn einnig, en flokkun gripanna að batna. Endurspeglar það áhrif hins nýja Angus erfðaefnis sem hefur verið innleitt í innlenda ræktun undanfarin ár, að sögn Höskuldar Sæmundssonar sérfræðings hjá Bændasamtökum Íslands. „Ef hins vegar ásetningstölur sem gefnar eru út mánaðarlega af RML eru skoðaðar sést að frá ársbyrjun 2022 til maí 2023 hefur verið stöðug fækkun nauta undir 12 mánaða á fæti. Segja má lauslega að fækkunin frá miðbiki 2021 til maí 2023 sé um 1.000 gripir. Til að setja þetta í samhengi má segja að miðað við 250,4 kg. meðalfallþunga UN gripa árið 2022 að þetta þýði vöntun á um 250 tonnum af innlendu kjöti á næstu 12-24 mánuðum. Til að setja þetta í annað samhengi jafngildir þetta samanlagðri framleiðslu 55,6 meðalframleiðslubýla UN nautakjöts árið 2022.“
Þannig sé ljóst að framboð innlendra nautgripa sé að minnka á meðan heildarmarkaður nautakjöts er í stöðugum vexti. „Ef ásetningstölur eru vísbending um framtíðina má gera ráð fyrir því að skorturinn á innlendu kjöti muni einungis aukast og líklega mun þeim skorti verða mætt með auknum innflutningi.“
Eftir upptöku EUROP kerfisins fyrir um fimm árum, fór í hönd hrina verðlækkana og versnaði markaðsstaða innlends nautakjöts verulega. „Náði það líklega hámarki í ársbyrjun 2021 þegar SS tilkynnti um lækkanir á innleggsverði til að hvetja til minni ásetnings vegna birgðasöfnunar. Þrátt fyrir að fljótt hefði verið fallið frá þeim áformum þá létu afurðarverðshækkanir á sér standa, Covid-faraldurinn hélt áfram að geisa og gríðarlegar hækkanir á áburðarverði settu strik í reikning nautgripabænda, eins og afkomuskýrsla RML fyrir árið 2021 sýndi glögglega. Má leiða líkur að því að minnkandi ásetning megi rekja að einhverju leyti til þessara þátta,“ segir Höskuldur.
Samkvæmt skýrslunni voru bændur að borga að meðaltali 412 kr. með hverju kg framleidds nautakjöts árið 2021. „Ef einungis er horft til UN gripa árið 2021, sem skýrslan fjallar um, má því áætla að bændur hafi greitt að meðaltali tæplega 105 þús. krónur með hverjum grip sem kom til slátrunar það ár, eða tæplega hálfan milljarð þegar heildar kg. fjöldi UN gripa er reiknaður.“ Slíku tapi eigi bændur erfitt að mæta til lengri tíma.
Töluverðar verðhækkanir hafa hins vegar átt sér stað frá ársbyrjun 2022 sem hefur væntanlega skilað bændum bættari afkomu en Höskuldur segir slæmt að ásetningur skuli dragast jafn mikið saman á sama tíma og raun ber vitni. „Frá ársbyrjun 2022 til maí 2023 hefur VATN vísitalan hækkað töluvert umfram vísitölu neysluverðs. Þetta er jákvæð þróun en á þó enn töluvert í land með að bæta upp lækkanir áranna 2018–2021. Þannig að þrátt fyrir batnandi afkomu er samt bil verðlækkana sem ekki hefur verið brúað. Augljóst er að gæði íslenskrar framleiðslu eru að aukast enda Angus þekkt fyrir kjötgæði. Vandinn virðist vera sá að eftirspurnin er það mikil eftir innlendum gripum að sláturhúsin ganga á eftir bændum að koma með gripi til slátrunar. Menn freistast því til að láta gripina fyrr og léttari, einkum þar sem flokkunin er þrátt fyrir allt góð. Það þýðir í reynd færri kíló af innlendu nautakjöti sem er mikið áhyggjuefni gangvart hlutdeild innlendrar framleiðslu.“