Bæta tækjakostinn fyrir stækkandi kúabú
Eyvindur Ágústsson og Aðalbjörg Rúna Ásgeirsdóttir, bændur á Stóru-Mörk undir norðanverðum Eyjafjöllum, voru mætt ásamt börnum sínum hjá Kraftvélum. Þar voru þau að taka við glænýrri og öflugri Case IH dráttarvél sem heitir Puma CVX.
Vélin er keypt fyrir Merkurbúið sf., en auk þeirra Eyvindar og Aðalbjargar eru Ragna Aðalbjörnsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson meðeigendur í fyrirtækinu.
„Þetta er öflugt tæki, enda þarf maður að draga á þessu allar heyvinnsluvélar og annan búnað,“ segir Eyvindur. „Það er líka mikil yfirferð því við erum með um 170 hektara land. Við erum með um 100 mjólkurkýr og nærri 180 kindur. Síðan erum við að fara á fullt við að stækka fjósið og bætum við um 40 básum.“
Vélin sem um ræðir er Case IH Puma CVX og er 188/218 hestafla með aflauka. „Úr þessari framleiðslulínu eru fáanlegar vélar í 7 stærðum frá 170 til 260 hestafla og eru þær allar með stiglausri skiptingu. Verðið er frá 12.790.000 krónum án virðisaukaskatts.
Eigin þyngd vélarinnar er 8,5 tonn og olíutankurinn tekur 395 lítra. Þá eru dekkin engin smásmíði því framdekkið er 600/65R28 og að aftan eru dekkin af stærðinni 710/70R38.
Vel búin og öflug vél
Annar helsti búnaður sem er í vélinni er CVX stiglaus þriggja þrepa skipting, með ökuhraða frá 0,01 til 43 km/klst. Þá er vendigír með Park Lock-bremsu og hitari fyrir skiptingu og mótor. Vökva- og loftbremsuventlar eru í vélinni ásamt mótorbremsu.
Alúttak er mjög fjölþætt, en að aftan er 540/540E/1000/1000E og 1.000 snúninga aflúttak að framan.
Í vélinni er fjaðrandi framhásing og framlyftibúnaður með lyftigetu 3,785 kg., en vökvadæla vélarinnar afkastar 150 lítrum á mínútu. Festingar er fyrir stjórnbúnað tengitækja (rúlluvél o.þ.h.). Þrítengibeisli er með opnum örmum og 110 mm tjökkum með lyftigetu upp á 8,7 tonn. Stjórnbúnaður fyrir lyftu, aflúttak og 1 vökvasneið úti á afturbrettum báðum megin og vökvaútskotinn dráttarkrókur.
Þægindin eru eins og best verður á kosið með fjaðrandi ökumannshúsi, loftpúðasæti með hita og útvarp með USB og Bluetooth. Stillanlegur armpúði með stjórnbúnaði er einnig í vélinni. Hliðarspeglar eru rafstýrðir og með hita. Þá er í vélinni loftkæling með ATC (automatic temeratur control). Stór snertiskjár er þar einnig þar sem upplýsingar eru um gang vélarinnar og tengitækja, t.d. rúlluvéla, sem eru með ISO BUS-tengingar. Að sjálfsögðu er svo öryggisbelti fyrir bæði ökumann og farþega.
Nátengt Fiat-samsteypunni
Case IH varð til sem nýtt nafn í landbúnaðartækjabransanum þegar Tenneco keypti landbúnaðarhluta International Harvester (IH) sem einkum hafði verið þekkt nafn hér á landi fyrir jarðýtur sínar. Tenneco sameinaði IH við fyrirtæki sitt J.I. Case, oftast einfaldlega kallað Case, en hét áður J.I. Case Threshing Machine Company. Það var upphaflega stofnað af Jerome I Case árið 1842. Í dag er Case IH hluti af New Holland AG og er í eigu CNH Global sem er í fjárhagslegri eigu Fiat-samsteypunnar á Ítalíu. Flest öll dráttarvélafyrirtæki heimsins í dag eru reyndar í eigu Ítala.