Böðvar í Ysta-Hvammi nýr í stjórn LS
Höfundur: Freyr Rögnvaldsson
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem haldinn var 3.-4. apríl síðastliðna var Böðvar Baldursson í Ysta-Hvammi í Aðaldal kjörinn nýr í stjórn samtakanna fyrir Norðausturhólf. Fimm manns sitja í stjórn samtakanna, formaður sem kosinn er beinni kosningu og fjórir stjórnarmenn. Þeir eru kosnir hver innan síns landshluta en landinu er skipt í fjögur hólf, Vesturhólf, Norðvesturhólf, Norðausturhólf og Suðurhólf. Ganga stjórnarmenn úr stjórn til skiptis en kjörtímabilið er tvö ár.
Helgi Haukur Hauksson, sem kosinn var í stjórn innan Norðausturhólfs á aðalfundi 2013, lét af störfum í stjórn snemma á þessu ári. Ólafur Þorsteinn Gunnarsson tók þá sæti hans og gegndi stjórnarstörfum fram að aðalfundi. Böðvar og Sigurður Þór Guðmundsson kepptu um stjórnarsætið í kosningu á fundinum og hafði Böðvar sigur eins og áður sagði.
Oddný Steina Valsdóttir var jafnframt endurkjörin í stjórn fyrir Suðurhólf, en enginn bauð sig fram gegn henni. Þegar þannig háttar til eru allir félagsmenn á viðkomandi svæði í kjöri. Hlaut Oddný Steina mjög afgerandi kosningu. Stjórn samtakanna skipa því, auk þeirra Oddnýjar Steinu og Böðvars, þau Þórarinn Ingi Pétursson á Grýtubakka formaður, Atli Már Traustasona á Syðri-Hofdölum og Þórhildur Þorsteinsdóttir á Brekku.
Ólafur Þorsteinn Gunnarsson á Giljum var endurkjörinn fyrsti varamaður í stjórn, Birgir Arason í Gullbrekku annar varamaður og Sigvaldi H. Ragnarsson á Hákonarstöðum var kjörinn þriðji varamaður.