Breyting á jarðalögum þolir enga bið
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og ritari Framsóknarflokksins, segir að breyta þurfi jarðalögum svo hægt sé að setja ákveðnar reglur varðandi eignahald á jörðum og að ekki verði hægt að selja auðlindir úr landi. Þetta kemur fram í grein sem Jón Björn ritar og birt er á vef Framsóknarflokksins. Hann segir málið ekki þola neina bið.
Jón Björn segir að mikil umræða hafi skapast í kjölfar uppkaupa bresks auðmanns á jörðum í Vopnafirði og Norður-Þingeyjarsýslu, „þar sem búið er að kaupa upp allt að því heilu laxveiðiárnar og vatnasvæði þeirra.“ Eðlilega hafi fylgt mikil gagnrýni á lagasetningu og þann ramma sem skapaður hefur verið vegna jarðakaupa á Íslandi í kjölfar breytinga á jarðalögum sem gerð voru í upphafi þessarar aldar.
Tæknileg öngstræti stjórnsýslunnar
Landi fylga oft ríkuleg hlunnindi og auðlindir, vatns- og malarréttindi, veiðihlunnindi, dún- og eggjatekja ásamt reka. Ekki síst megi svo nefna auðlindir sem felast í góðu ræktar- og beitilandi, sem sé ómetanlegt fyrir framtíð búskapar á Íslandi og sé forsenda matvælaöryggis þjóðarinnar.
Jón Björn segir því nauðsynlegt að styrkja þær stoðir sem snúa að lagasetningu vegna bújarða, það geti ekki lengur beðið í tæknilegum öngstrætum stjórnsýslunnar eins og verið hafi síðustu ár. Jarðalögum þurfi að breyta og bendir hann á að frændþjóðir okkar hafi stigið slík skref, fordæmin séu því fyrir hendi og nú þurfi verkin að tala þegar Alþingi komi saman á ný á haustdögum.
Sveitarfélög missa útsvarstekjur
Bendir Jón Björn í grein sinni á að ekki sé heldur eðlilegt að búið sé að rýra byggðir víða um land með þeim hætti að sveitarfélög hafi misst stóran hluta útsvarsstekna sinna vegna þess að stór hluti jarðanna sé í eigu fólks sem býr í öðrum sveitarfélögum eða erlendis og borgi ekki skatta til viðkomandi sveitarfélags.
„Þá um leið er líka búið að kippa undan heilu samfélögunum grundvelli þess að byggð þar haldist áfram og samhjálparhugsjónin sem sveitir þurfa á að halda getur ekki þrifist vegna fámennis,“ segir hann og bætir við að ólíðandi sé að heilu sveitirnar á Íslandi séu með lögheimili í London.
Grein Jón Björns: „Með lögum skal land tryggja“.