Búnaðargjald verði aflagt
Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp á haustþingi þar sem gerðar verða breytingar á innheimtu búnaðargjalds. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í upphafi fundar búnaðarþings í morgun.
Búnaðargjald er lagt á alla þá sem stunda virðisaukaskattskylda búvöruframleiðslu. Gjaldstofn þess er veltutengdur, 1,2 prósent af veltu bús og fer fram með álagningu opinbera gjalda.. Gjaldið rennur svo til Bændasamtaka Íslands, til búnaðarsambanda, búgreinafélaga og Bjargráðasjóðs.
Frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að lög um iðnaðarmálagjald stæðust ekki ákvæði mannréttinsáttmála Evrópu hefur lögbundin innheimta félagsgjalda til hagsmunasamtaka af hálfu ríkisins smátt og smátt verið felld niður. Á síðasta ári var felld niður sambærileg aðkoma ríkisins, innheimta á félagsgjöldum, til Landssambands smábáteigenda. Það er því einungis búnaðargjaldið sem enn er innheimt með þessum hætti. „Þetta verðum við því miður, fyrir marga ykkar sem telja að það sé ekki gott, að ganga alla leið með. Það verður að finna annað fyrirkomulag. Ríkið getur ekki séð um innheimtu félagsgjalda fyrir neina atvinnugrein í landinu. Það er bannað. Því er ljóst að eitthvað slíkt frumvarp kemur fram í haust“, sagði ráðherra í ræðu sinni.
Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að drægi að því að búnaðargjald yrði fellt niður. Unnin hefur verið margþætt vinna af hálfu Bændasamtakanna vegna þess. Sú breyting sem gerð var fyrir rúmu ári, að færa ráðgjafarþjónustu frá Bændasamtökunum og búnaðarsamböndum í sér félag, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins var hluti af þeirri vinnu. Sömu sögu má segja um þá enduskoðun sem unnið er að á félagskerfi bænda. Fyrir búnaðarþingi nú liggja tillögur um róttækar breytingar á því kerfi sem miða að því að einfalda það og draga úr kostnaði. Ljóst er að ef frumvarp um afnám búnaðargjalds verður að veruleika í haust ríður mikið á að bændur hafi náð sátt um þær breytingar. Búast má við miklum umræðum um málið á þinginu.