Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Byggðasöguritarinn Hjalti Pálsson í vettvangsferð á Hagarétt í Hjaltadal.
Byggðasöguritarinn Hjalti Pálsson í vettvangsferð á Hagarétt í Hjaltadal.
Fréttir 19. janúar 2022

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Hjalti Pálsson frá Hofi, ritstjóri og aðalhöfundur Byggðasögu Skagafjarðar, skilaði af sér tíundu og síðustu bókinni í þessu viðamikla tíu binda verki á nýliðnu hausti. Hann sagði í samtali við Bændablaðið að verkefnið hafi tekið 26 ár í vinnslu frá því hann hóf þessa vegferð 1. október árið 1995.

Það hefur vakið athygli víða hversu mikil vinna og ítarleg gagna­söfnun er á bak við þessa ritun á Byggðasögu Skagafjarðar. Heildar­verkið telur orðið 4.620 blaðsíður með rúmlega 5.080 ljósmyndum og kortum. Víst er að mjög mörg byggðarlög og jafnvel heilu landshlutarnir komast ekki með tærnar þar sem Skagfirðingar eru nú með hælana í þessum efnum.

Að útgáfunni standa Sögufélag Skagfirðinga, Sveitarfélagið Skagafjörður, Akrahreppur, Bún­aðar­samband Skagafjarðar og Kaupfélag Skagfirðinga. Fjölmörg fyrirtæki hafa síðan styrkt útgáfuna í gegnum tíðina.

Byggðasöguritari á Dalsáreyrum haustið 1973. Jarðýtan er International TD 25. Í ýtuvinnu fyrir Búnaðarsambandið á Caterpillar D4 lærði hann að þekkja hverja einustu jörð í Skagafirði og fólkið mjög víða. Það reyndist góður grunnur fyrir ritun byggðasögunnar.

Tíu bindi á 26 árum

„Nú eru bindin orðin tíu og það var hvorki reiknað með að þetta verk tæki svona langan tíma, eða að það yrði að svo mörgum bindum þegar farið var af stað.“
Auk Hjalta sem aðalhöfundar eru skráðir meðhöfundar hans í tíunda bindinu Egill Bjarnason, Kári Gunnarsson og Kristján Eiríksson.

„Við höfum verið að jafnaði tveir menn á launum við þetta frá upphafi, ég og Egill Bjarnason frá 1995 til 2007, þó ekki hafi það verið alveg í fullu starfi til að byrja með, og síðan starfaði Kári Gunnarsson með mér frá 2007 til 2020. Svo hafa fleiri komið inn í verkefnið við ákveðna verkþætti. Því er óhætt að segja að það séu búin að fara um 50 starfsár í þetta verk í heildina,“ segir Hjalti.

Hjalti segist ekki hafa á takteinum hver endanlegur kostnaður er á verkinu en hann hlaupi líklega á hundruðum milljóna.
„Við héldum að þetta yrðu kannski sex til sjö bindi og að vinnan gæti tekið tíu til tólf ár. Svo gerist það að eftir að maður skrifaði fyrsta bindið sá maður ýmislegt sem hægt var að gera betur. Í upphafi bjó ég mér til grind til að byggja inn í efnislega sem ég hef síðan haldið mig við þótt verkið hafi þróast með tímanum. Bindin voru því vonandi alltaf að verða betri og ítarlegri sem kostaði auðvitað meiri tíma. Þá var bókin hönnuð og sett upp 1999, en menn gera þetta svolítið öðruvísi í dag. Við höfum samt haldið okkur við upphaflegt form og útlit.“

Þótt útgáfu bókanna tíu sé lokið þá er enn eftir lokahnykkurinn. Hann felst í því að ljúka við nafnaskrá Byggðasögunnar sem unnið hefur verið að síðan 2010. Ákveðið hefur verið að hún komi ekki út á prenti, heldur verði hún aðgengileg í stafrænu formi á heimasíðu Sögufélags Skagfirðinga. Er gert ráð fyrir að nafnaskráin verði aðgengileg síðar á árinu 2022.

Einstakar myndir úr Drangey sem birtar eru í tíundu og síðustu bókinni af Byggðasögu Skagafjarðar. Myndirnar voru teknar af Arthur Cook árið 1919. Myndin tekin af sjó af bátum og athafnasvæði „Fjörubúa¨ í Drangey.

Margt þarf að falla saman til að svona verk verði að veruleika

Hjalti segir að ritun svona verks sé langt frá því að vera sjálfgefin og margt þurfi að falla saman svo af slíku geti orðið. Sem dæmi hafi hlutirnir allt eins getað farið á annan veg með hann sjálfan. Fyrir um 30 árum hafi hann fengið æxli við heilann. Sem betur fer reyndist það góðkynja, en ef það hefði ekki verið væri ólíklegt að hann hefði nokkurn tíma komið að þessu verki.

„Það var héraðsnefnd Skaga­fjarðar sem dreif þetta verkefni af stað árið 1995. Helstu hvatamenn að því voru bændurnir Jón Guðmundsson á Óslandi og Þorsteinn Ásgrímsson á Varmalandi. Þá var ég orðinn héraðsskjalavörður og þessir menn höfðu trú á því að ég gæti gert þetta. Þegar ég hóf þetta verk var ég jafnframt fyrstu árin samhliða að vinna sem forstöðumaður Safnahúss Skagfirðinga og Héraðsskjalasafnsins, en lét svo af því starfi árið 2000 og helgaði mig ritun þessarar sögu.
Auðvitað hefðu aðrir en ég getað gert þetta, en svona vinna er samt mjög sérhæfð.“

Vinna á jarðýtum skapaði dýrmætan þekkingargrunn
Byggðasaga Skagafjarðar.

Hjalti hefur þó ekki eingöngu verið í fræðagrúski á sínum starfsferli því hann vann í samtals fjórtán sumur á jarðýtum.
„Á mínum skólaárum vann ég fyrir mér í mörg á jarðýtu hjá Búnaðarsambandi Skagafjarðar í vinnu hjá bændum og síðan í vegavinnu. Það var Caterpillar D4 jarðýta sem ég var fyrst með hjá Búnaðarsambandinu, en síðan var ég með stærri vélar í vegagerð. En síðustu árin litla snyrtingavél sem ég átti sjálfur ásamt öðrum, Caterpillar D3 árgerð 1974, hina fyrstu á landinu þeirrar tegundar.

Þegar ég var hjá Búnaðar­sambandinu kom ég á mjög margar jarðir og kynntist þar fjölda fólks. Ég lærði þar að þekkja hverja einustu jörð í Skagafirði og fólkið mjög víða. Þetta var góður grunnur fyrir ritun byggðasögunnar.

Menn hafa svo verið að skensa mig með það að á ferli mínum á jarðýtunni í vinnu fyrir bændur hafi ég eyðilagt svo og svo mikið af fornminjum. Ég hef nú bara svarað mönnum þannig að ég hafi þar verið framsýnn, því þá væri minna sem ég þyrfti að snuðra eftir síðar,“ segir Hjalti og hlær.

Hafði engar sambærilegar fyrirmyndir

– Þú hefur þá fljótlega komist að raun um að það þyrfti að kafa ítarlegar í söguna en upphaflega var lagt upp með?
„Ég hafði svo sem enga fyrirmynd þegar ég var að móta þetta í upphafi, því það voru engin sambærileg verk til á Íslandi. Það voru helst Sveitir og jarðir í Múlaþingi sem komust næst því, en ég ákvað að hafa þetta mun ítarlegra. Ég hafði strax í huga að þetta yrði yfirlits- og uppflettirit um allar bújarðir í Skagafirði frá 1781 og ábúendur þeirra. Þær reyndust vera nálægt 676 talsins, auk þess meira en 400 fornbýli frá eldri tíð og um 90 húsmannsbýli og tómthús þar sem fólk hafðist við um lengri eða skemmri tíma.“

Upphafið miðað við 1781

– Hvenær er upphafstíminn á því sem þú ert að fjalla um í þessu verki?
„Þetta er byggt á gömlu jarða- og ábúendatali í Skagafjarðarsýslu sem var gefið út á árunum 1949-1958. Þar voru teknir allir ábúendur jarðanna frá 1781 til þess dags sem hvert hefti kom út. Þetta nýja verk byggir ofan á þær upplýsingar. Í þessu gamla voru afar litlar upplýsingar um jarðirnar sem fólkið bjó á. Sögufélag Skagfirðinga hefur á síðustu áratugum gefið úr 18 bækur af skagfirskum æviskrám ábúenda og fólks sem hélt heimili í Skagafirði á árunum 1850 til 1950. Ábúendatal Byggðasögunnar spannar hins vegar 240 ár, tímabilið frá 1781 til 2021. Segja má að Byggðasaga Skagafjarðar sé eins konar æviskrár bújarðanna.

Verkið er byggt upp í stórum dráttum þannig að gefin er lýsing á hverri einstakri bújörð, hvar hver bær er í sveit settur, getið bygginga og birt tafla yfir fólk og áhöfn á tímabilinu 1703 til útgáfuárs hverrar bókar. Þá er yfirlit um eignarhald og talsverð söguleg umfjöllun eftir því sem efni og heimildir gefa tilefni til, allt frá því jörðin kemur fyrst við sögu. Lýst er öllum fornbýlum og seljum sem tengjast einstökum jörðum og gefið upp GPS-stöðuhnit þeirra. Samfellt ábúendatal fylgir hverri jörð frá 1781 til útgáfuárs hverrar bókar. Þá bæti ég inn í þetta alls konar sögum sem tengjast jörðunum, sem hafa skipt sköpum um vinsældir þessa verks. Það eru þjóðsögur, sögur um drauga og huldufólk, álagabletti, frásagnir af fólki og atburðum, vísur og allt mögulegt. Þannig eru innskotsgreinar um flestallar jarðir og stundum margar um sumar þeirra. Ég reyndi að finna álagabletti og staðsetti alla þá sem ég fann með GPS punkti. Fólk getur því gengið beint að þeim. Þá er rík áhersla lögð á myndefni og meginhluti þess prentaður í litum, litmynd af hverri jörð eins og hún lítur út um þessar mundir, myndir af núverandi ábúendum, auk nýrra mynda og gamalla er sýna atvinnuhætti, örnefni eða gamlar byggingar, svo sem gömlu bæina.“

Unnið við fornleifakönnun á Sandgili í Fögruhlíð í Austurdal.

Hefur leitt til óvæntra funda á fjölda fornra bústaða

– Er samt ekki margt sem hefur komið þér á óvart við þessa gagnaöflun?
„Jú, mikil ósköp. Maður hefur sannarlega vaxið af þekkingu um byggðasöguna í Skagafirði og má segja að vissu leyti orðinn sérfróður um gamla tímann. Það getur verið alveg aftur að því er jörðum er fyrst lýst í heimildum. Þá reyni ég að rekja eignarhald þeirra og í seinni hluta þessa verks er það miklu betur gert en var í fyrstu tveimur bókunum.

Það er líka margt sem komið hefur á óvart upp úr jörðinni í allri þessari vinnu. Ég var lengi í samstarfi við fornleifadeild Byggðasafns Skagfirðinga. Þar var Guðný Zoëga fornleifafræðingur sem starfaði mikið og vel með mér. Við skoðuðum á annað hundrað fornbýli, þ.e. býli sem voru í ábúð einhvern tíma fyrir 1780, eða eldri en býli sem fjallað er sérstaklega um í bókunum.

Víða var grafið og einnig farið með sýnatökubor í tóftir. Þannig fundum við t.d. fyrir tilviljun og þrákelkni kirkjugarð í Kolbeinsdal sem engar heimildir voru til um.
Það voru um tveir metrar niður á þennan kirkjugarð þar sem mannabein komu í ljós.

Bjarnastaðir voru stærsta jörðin í Kolbeinsdal og okkur fannst að þar hlyti að hafa verið kirkjugarður þó hans væri hvergi getið. Á kaþólskum tíma á fyrstu öldum kristni á Íslandi voru byggðar kirkjur svo víða. Þannig voru þær á annað hundrað í Skagafirði sem einhverjar heimildir eru til um. Við leituðum því að kirkjum og kirkjustöðum og ýmsum fornbýlum. Ég hef lagt mig sérstaklega fram um að finna fornbýli. Þau eru um 400 í Skagafirði sem hafa verið í ábúð á einhverju tímabili frá landnámsöld til 1780. Flest voru þau þekkt en sum fundust fyrir algjöra tilviljun í minni yfirferð, höfðu ekkert nafn og engar sagnir til um þá staði. Áreiðanlega eru enn tugir fornbæja sem ég hef ekki uppgötvað og enn liggja gleymdir og grafnir.

Svo voru staðir þar sem mann grunaði að væru tóftir, en gat ekki staðfest það fyrr en ég fékk fornleifafræðinginn til að skoða málið með sýnabor. Þannig fundust mörg býli sem var hægt að staðfesta aldur á út frá öskulögum í jarðvegi, en misdjúpt var niður á þessar minjar, allt frá 20-30 sentímetrum og síðan dýpra. Í Austurdal og Vesturdal hefur t.d. verið ótrúlega mikil byggð. Ég taldi þar yfir 20 búsetustaði í hvorum dal fyrir sig. Við höfum öskulög frá 1104 og 1300 sem eru auðþekkjanleg svo hægt er að tímasetja þessa bústaði út frá því.

Heiti landnámsbæja í Fljótum rakin til Noregs

Í Fljótum fundum við landnámsbæ á Stóra-Grindli við Miklavatn sem líklega hefur verið upphaflegi bærinn Grindill, bær Nafar-Helga Nafars. Samkvæmt Landnámu voru þeir samskipa til landsins, hann og Þórður knappur, sem nam land innar í Fljótum, eða á Knappsstöðum
í Stíflu.

Svo er ég svolítið montinn yfir því að hafa grafið upp meira um þetta undarlega bæjarnafn Grindil sem menn hafa komið með alls konar tilgátur um. Í kjölfar vísbendinga sem ég fékk þá lá fyrir að Íslendingar sem fluttu til Ameríku nefndu bæi sína eftir bæjum sem þeir komu frá. Því þótti mér líklegt að landnámsmenn hefðu gert hið sama. Með því að nýta tæknina og Google komst ég að því að um miðjan Sognfjörð í Noregi við smábæinn Leikanger er bær sem heitir Grinde og á sem heitir Grindelv er fellur eftir dalnum Grindedal. Í Landnámu er sagt frá því að Þórður knappur hafi verið sonur Bjarnar á Haugi. Fáeina kílómetra frá Grinde er bærinn Haugur.

Það er því líklegt að Nafar-Helgi og Þórður knappur hafi þekkst sem nágrannar í Noregi og því farið saman á skipi til Íslands. Til að kóróna þetta, þá heitir næsti bær við Grindil í Fljótum, Hamar.

Næsti bær við Grinde í Sognsfirði heitir einmitt Hamre.

Við fundum líka landnámsbæ í landi Barðs við Flókadalsvatn í Fljótum. Við leiddum líkur að því að þarna hafi verið sérstakt landnám sem ekki er getið í Landnámabók.
Það var því margt forvitnilegt og skemmtilegt sem kom í ljós við ritun þessara bóka og fornleifafræðin breytti verkinu heilmikið og jók gildi þess,“
segir Hjalti.

Útgáfustjórn og höfundar Byggðasögu Skagafjarðar. Talið frá vinstri: Sigurlaug Ebba Kristjánsdóttir, fulltrúi Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Bjarni Maronsson, fulltrúi Kaupfélags Skagfirðinga og formaður útgáfustjórnar, Hjalti Pálsson ritstjóri, Kári Gunnarsson meðhöfundur og Gunnar Rögnvaldsson, fulltrúi Sögufélags Skagfirðinga.

Héraðsskjalasafnið á Sauðárkróki hefur reynst vel

– Þessi viðamikla samantekt hlýtur að vera þakkarverð í augum Skagfirðinga í ljósi þess hversu fljótt getur snjóað yfir heimildir og þær hreinlega glatast?
„Þetta er fyrst og fremst byggt á prentuðum og eða skjalfærðum heimildum sem ég fékk að miklu leyti á Héraðsskjalasafninu á Sauðárkróki. Þar var ég með starfsstöð og var þar sjálfur skjalavörður þegar þetta verk fór af stað. Þarna fékk ég því afskaplega góða fyrirgreiðslu og þar var myndasafnið ekki síst mikilvægt. Svo hef ég leitað heimilda víða, eins og í Þjóðskjalasafninu og Landsbókasafni. Maður er samt meðvitaður um að það er enn margt sem ekki náðist að fara í gegnum og vantar því inn í myndina. Þar ræður töluverðu sá tímarammi sem maður setti sér fyrirfram um útgáfu hverrar bókar. Maður er því aldrei búinn í gagnaöfluninni, en verður að sætta sig við að verða að hætta á ákveðnum tímapunkti. Þess vegna veit maður að það verða alltaf einhverjar skekkjur í verkinu sem maður reyndi þó að lágmarka eins og mögulegt var.“
Víða eru óskráðar sögur

– Hvað tekur nú við, hafa menn ekki verið að biðja þig að kíkja á fleiri verkefni af þessum toga?
„Ég er nú 74 ára gamall, en menn hafa svo sem verið að viðra við mig eitt og annað í spaugi. Til dæmis hvort ég ætlaði ekki bara að snúa mér að næstu sýslu. Ýmsir hafa líka gert góða hluti í þessa veru, eins og Þingeyingar, Eyfirðingar og margir fleiri, en þá hefur umfjöllun um hverja jörð ekki verið eins viðamikil og í Byggðasögu Skagafjarðar. Ég sagði strax í upphafi að ég hefði ekki áhuga á þannig verki. Ég vildi hafa þetta ítarlegra og fékk að hanna þetta sjálfur. Mér finnst ótrúlega mikið lán að menn hafi treyst mér til þess, því mér hefði ekki líkað að láta menn segja mér fyrir verkum hvernig þetta ætti að vera. Eftir að fyrsta bókin kom út þá var engan bilbug að finna á mönnum að halda þessu áfram,“ segir Hjalti Pálsson.

Sæmundur Jónsson rokka- og söðlasmiður að störfum á verkstæði sínu á Ólafsfirði.

Brauðstrit og barátta

– Kafli úr 10. bindi Byggðasögu Skagafjarðar

Sæmundur Jónsson bjó í Neðra-Haganesi í 15 ár, frá 1935-1950. Hann var stórfatlaður maður, afleiðingar þess að hann sem unglingur féll ofan af þilfari niður í lest á hákarlaskipinu Siglnesingi inni á Haganesvík og lenti á bakinu niðri í grjótbarlest skipsins. Hann mun hafa mjaðmargrindarbrotnað og þetta kostaði sjúkrahúsvist. Sæmundur leið eftir þetta miklar kvalir, fékk herðakistil og gekk krepptur æ síðan. Hann gat því lítt unnið erfiðisvinnu en sinnti fyrst og fremst smíðum, bæði á tré og járn. Guðmundur Sæmundsson segir frá:

„Túnið gaf um eitt og hálft kýrfóður en við vorum með tvær kýr yfirleitt en enga kind, nema rétt fyrst sem ég man eftir. Við höfðum tvo hesta líka. Við áttum hins vegar kindur á bæjum frammi í Flókadal, í Neskoti man ég var og á Sjöundastöðum, líka í Saurbæ hjá Jóni. Fyrir fóður þeirra greiddi pabbi með smíðavinnu, smíðaði skeifur og fleira. Túnið var allt kargaþýft. Pabbi gat slegið í þýfi, en ekki á sléttu, þoldi það ekki. Hann hafði alltaf slægjur í Dæli hjá Magnúsi og Lovísu. Hann fékk líka slægjur hjá Skarphéðni á Sjöundastöðum. Ég held hann hafi fengið Borgargerðistúnið. Ég man að við fórum þangað að sækja hey snjóavorið 1949. 14. maí fórum við með hest og sleða að sækja hey. Þá var orðið heylaust handa kúnum heima. Þá var umbrotafæri af snjó á túninu í Neðra-Haganesi, sé ég í dagbók frá þeim tíma.

Það var einhver tregða á því hjá pabba að ég fengi að fara í skóla. Ég hafði lært eitthvað heima og tekið próf með hörmulegum árangri. Þeir höfðu komið til pabba, séra Guðmundur á Barði og skólastjórinn í Sólgörðum í þeim tilgangi að fá mig í skólann, en það gekk ekki. Hann sagðist ekki mega missa mig, bauð þeim ekki inn en sótti stílabókina mína til að sýna þeim að ég kynni að skrifa en það var lakara með reikninginn. Ég stóð úti meðan þessi rannsókn fór fram og ég man að Guðmundur rétti mér stílabókina og sagði ,,Æ, jæ, jæ, jæja.“ Það þurfti að stíga smiðjuna og svo var vatnsburðurinn úr brunninum. Ég varð að reyna að hjálpa mömmu við vatnið. Það var oft tveggja tíma vinna að koma vatninu heim á hverjum degi yfir veturinn í kýrnar og fyrir heimilið. Pabbi bjó til lítinn sleða sem ég hafði kvartil á og fyllti af vatni. Svo varð ég oft að sækja mömmu að hjálpa til að draga sleðann. Ég orkaði þá ekki að draga hann einn. Svo kemur Páll Sigurðsson frá Ólafsfirði, kennari og skólastjóri, í Sólgarða og kona hans Vilborg Sigurðardóttir sem var mikil vinkona mömmu frá Ólafsfirði. Þá gekk mamma í það að ég færi í skólann fyrst að Vilborg væri þar. Ég var því bara einn vetur í skólanum á Sólgörðum áður en ég færi í Ólafsfjörð. Þar var bæði eldri deild og yngri deild og ég varð að vera í þeim báðum því mig vantaði undirstöðu í reikningi.

Þegar fór að líða að vori segir pabbi við mig, að ef ég verði í meðalröð eða þar fyrir ofan skuli hann gefa mér bók sem ég var búinn að skoða mikið suður í kaupfélagi. Það var Sjómannasaga eftir Vilhjálm Þ. Gíslason og kostaði 125 krónur. Ég var 3. eða 4. ofan frá um vorið og fékk 8.60 í einkunn. Dóttir Sveins í Brautarholti fékk hins vegar bara 8.17 og það var einhver metnaður milli þeirra pabba, því Sveinn hafði sagt eitthvað niðrandi í minn garð. Ég vissi þetta ekki fyrr en á eftir. Pabbi sagði svona við mig. Veistu hvað hún fékk hún Lóa í Sveinshúsum? Ég sagði honum það og þá sá ég að hýrnaði yfir þeim gamla og þá dró hann upp bókina og rétti mér hana.“

(Guðmundur Sæmundsson. Viðtal.)

Flugvél af gerðinni Nortrop, eins og þær sem voru með skotæfingar úti fyrir Haganesvík vorið 1942.

Skotæfingar í Haganesvík – innskotsgrein úr Byggðasögu Skagafjarðar

Skotæfingar í Haganesvík. „Skyndilega og óvænt birtust þrjár Nortrop-flugvélar yfir Haga­nesvík einn vetrardag nálægt sumarmálum 1942. Líklega hafa þær tilheyrt norsku flugsveitinni á Akureyri og verið að æfingum eða þá í kafbátaleit. Þær hnituðu marga hringi yfir Haganesvíkinni, renndu sér síðan í lágflugi norður yfir Haganesborgina og skotdrunur kváðu við.

Við pabbi vorum að koma frá því að vitja um rauðmaganet úti á Víkinni og áttum nokkra metra ófarna að lendingunni þegar þessi ólæti byrjuðu. Mér er það í barnsminni hve hræddur ég varð við þennan vágest, sem ég taldi vera Þjóðverja, og lagðist ég marflatur niður í litla árabátinn. Pabbi reyndi að hughreysta mig og taldi þetta vera Bandamenn, en ég svaraði aftur á móti að þeir myndu skjóta niður bæinn okkar í Neðra-Haganesi. Einhvern veginn tókst pabba að koma mér skælandi heim. Yfir okkur þrumuðu flugvélarnar látlaust hver á fætur annarri og útundan mér sá ég þær liggja á hliðinni þegar þær sveigðu yfir litla kauptúnið í Haganesvík til nýrrar atlögu norður yfir sjóinn en fjöllin bergmáluðu skotdrunurnar aftur og aftur. Loksins, jafnskyndilega og þetta hafði byrjað, voru flugvélarnar horfnar á braut og allt orðið kyrrt og hljótt eins og venjulega.

Ýmsum getum var að því leitt að þarna hefði þýskur kafbátur verið á ferðinni en aldrei fengum við neina vitneskju um það. Það sem studdi þá grunsemd okkar var að skip sem ég hafði séð á siglingu norðarlega á Haganesvík fáum dögum áður hvarf gjörsamlega á meðan ég hljóp inn í bæinn okkar eftir kíki til þess að skoða það nánar.“ (Guðmundur Sæmundsson. Hand­rit í einkaeign.)

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...