Engar áreiðanlegar tölur fyrirliggjandi um fjölda refa á landinu í dag
Í síðasta Bændablaði var greint frá því að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi sent frá sér fréttatilkynningu þann 22. október sl. um að íslenski refastofninn sé á niðurleið og að fækkun í stofnunum hafi byrjað 2009. Var það þvert á upplýsingar Esterar Rutar Unnsteinsdóttur, spendýravistfræðings hjá stofnuninni, frá því í maí.
Þá sagði hún að refnum færi fjölgandi vegna vetrarveiða þar sem útburður veiðimanna væri að halda lífi í refnum.
Vegna þessara þversagna sendi Bændablaðið Ester og Náttúrufræðistofnun fyrirspurn í nokkrum liðum þann 30. október. Svar barst eftir hádegi þann 5. nóvember þegar síðasta Bændablað var farið í prentun.
Utanumhald um fjölda veiddra dýra á hendi Umhverfisstofnunar
Bændablaðið óskaði eftir upplýsingum um skil á skýrslum frá 2007 og fjölda veiddra dýra. Náttúrufræðistofnun svaraði því til að stofnunin sæi ekki um þennan þátt refaveiða og hann væri alfarið á hendi Umhverfisstofnunar.
Óskað var eftir upplýsingum um fjölda refa eftir landsfjórðungum frá 2007. Svar Náttúrufræðistofnunar við þessari spurningu hljóðaði svo: „Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir núna. Heildarmat á stofnstærð refsins er fyrir landið í heild og unnið er með tölur úr öllum landshlutum.“
Vísað í tölur um fjölda refa á Hornströndum frá árinu 2000
Bændablaðið óskaði eftir upplýsingum um talningu á ref á Hornströndum á undanförnum árum og svarið var eftirfarandi: „Skýrsla um ábúðaþéttleika refa á Hornströndum er í vinnslu og verður skilað til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins fyrir árslok og verður skýrslan þá birt opinberlega um leið.“
Um tölur um fjölda refa er að öðru leyti vísað í grein sem birtist í Náttúrufræðingnum þann 1. september árið 2000.
Greinin sem vísað er í er nokkuð ítarleg og er eftir Pál heitinn Hersteinsson, Þorvald Þ. Björnsson, Ester Rut Unnsteinsdóttur, Önnu Heiðu Ólafsdóttur, Hólmfríði Sigþórsdóttur og Þorleif Eiríksson. Þar er lýst fjölda og dreifingu grenja á Hornströndum sumarið 1999 í 580 ferkílómetra friðlandi. Niðurstaðan er að 43 til 48 greni hafi þá verið í ábúð. Fjöldi grendýra og yrðlinga var í ágústlok það ár talinn vera 258 til 288, en fjöldi gelddýra á svæðinu sé óþekktur. Í lokaorðum greinarinnar segir svo að þekkt séu 172 greni á Hornströndum. Farið hafi verið í 170 þeirra á árinu 1999 […] „... reyndust 39 greni vera í ábúð, en áætlaður heildarfjöldi í ábúð er meiri, eða 43–48.“
Engin sérstök talning á mófugli á Hornströndum
Vegna upplýsinga frá ferðamönnum og veiðimönnum um að refurinn hreinsi upp heilu svæðin af mófugli, var óskað eftir upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun um talningu á mófugli á Hornströndum á undanförnum árum, til samanburðar við fjölda refa. Svarið var eftirfarandi: „Mófuglar hafa ekki verið taldir sérstaklega á Hornströndum undanfarin ár. Undanfarin tvö ár hefur hins vegar verið farið í umfangsmiklar mófuglatalningar á landsvísu, hluti af stærra verkefni, Natura Ísland, og er verið að vinna úr þeim talningum núna. Rétt er að benda á að þó refur nýti sér mófugla og aðra fugla sem fæðu, þ.e. fuglar eru hluti af vistfræði refsins, þá eru mófuglar (stofnstærðir) eða aðrar fuglategundir ekki notaðar beint við stofnstærðarmat fyrir ref. Fuglar geta hins vegar vissulega verið hluti af skýringu á afkomumöguleikum refs og öfugt. Sjá einnig: Bliki 20 – febrúar 2000, Hólmfríður Sigþórsdóttir, Ester Rut Unnsteinsdóttir og Páll Hersteinsson − Fuglalíf í Hlöðuvík á Hornströndum sumarið 1998 [23-32].“
Engar upplýsingar til um hvort refurinn færir bú sitt í ætisleit
Bændablaðið spurði um hvort Náttúrufræðistofnun hefði tölfræðilegar upplýsingar um í hversu miklum mæli refurinn færir búsvæði sitt í ætisleit? Þetta er mikilvæg spurning í ljósi ágreinings veiðimanna og vísindamanna um hvort refurinn flytti sig eftir ætinu, en það telja margir veiðimenn vera augljóst. Svarið var eftirfarandi: „Þessar upplýsingar eru ekki til. Þetta er hins vegar atriði sem mjög vert er að skoða þ.e. í fyrsta lagi hver eru kjörlendi refs, hvaða svæði voru aðal búsvæði refsins þegar stofninn var sem minnstur (voru það bestu svæðin eða svæði sem hann er hrakinn á, minni ásókn), þegar ref fjölgar hvaða breytingar eiga sér stað á þeim búsvæðum sem hann er aðallega á, eða batna aðstæður á öðrum svæðum sem gerir honum kleift að dreifa sér? Þarna eru margar ósvaraðar spurningar sem beint og óbeint hafa vafalaust áhrif á stofnstærðina, en ekki beint á sjálft stofnstærðarmatið.“
Unnið að grein um áhrif refs á afkomu rjúpna og gæsa
Sjötta spurning Bændablaðsins var hvort Náttúrufræðistofnun hafi rannsakað hvort sveiflukennd afföll í rjúpnastofninum megi hugsanlega að hluta rekja til refsins og afkomumöguleika hans í mismunandi árferði? Svarið var eftirfarandi: „Verið er að vinna að vísindagrein um sveiflur í refastofninum sl. 50 ár m.a. með tilliti til stofnbreytinga hjá fuglum m.a. rjúpna og gæsa.“
Lýst fjölgun í stofninum í maí en fækkun í október
Sjöundu og síðustu spurningu Bændablaðsins var beint að misræmi í orðum Esterar Rutar Unnsteinsdóttur um fjölgun og fækkun í refastofninum. Í Fréttablaðinu í maí var frétt um veiði undir fyrirsögninni „Aukin veiði fjölgar ref“ og rætt við Ester Rut Unnsteinsdóttur, spendýravistfræðing hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar hélt hún fram þeirri þversögn að auknar veiðar á ref hafi leitt til þess að refnum fjölgaði ört. Útskýrði hún það þannig að aukin áhersla hafi verið á vetrarveiði, sem fer þannig fram að egnt er fyrir refina með því að bera út æti og þeir skotnir þegar þeir koma nærri. Ester segir margt benda til þess að alltof mikið æti sé sett út og þar sem það sé ekki vaktað öllum stundum verði það til þess að refir sem ella hefðu soltið í hel yfir veturinn nái að komast í fæði og lifa af. Hún lagði til að haldið verði utan um hversu mikið æti sé lagt út. Það gæti jafnvel verið ódýrari aðgerð til að fækka dýrunum að hætta að leggja út æti fyrir refi yfir veturinn.“
Í tilkynningu Náttúrufræðistofnunar 22. október sem undirrituð er af Ester Rut Unnsteinsdóttur segir m.a.: „Refum er farið að fækka hér á landi eftir samfelldan vöxt um áratugaskeið. Samkvæmt nýjasta mati voru um þriðjungi færri dýr í stofninum en þegar hann var síðast metinn árið 2010. Fækkunin tekur jafnt til þeirra svæða þar sem refurinn er veiddur og til friðlanda eins og á Hornströndum en þar varð hrun í stofninum árið 2014. Ástæður þessara stofnbreytinga eru óþekktar en tengjast líklega veðurfari, fæðuskilyrðum, heilbrigði dýranna og jafnvel aðbornum mengunarefnum. Veiðimenn eru lykilaðilar í vöktun og rannsóknum á refastofninum en þeir senda hræ af felldum dýrum til krufninga og aldursgreiningar.“
Vegna þessa misræmis á milli tilkynningarinnar og fyrri umfjöllunar í vor var Ester spurð: „Í maí á þessu ári lýstir þú í fjölmiðlum fjölgun refs og að hugsanleg ástæða fyrir fjölguninni væri aukin vetrarveiði þar sem æti væri lagt út fyrir ref. Hvað hefur breyst sem skýrir það að refnum fari nú fækkandi?“
Svar: „Því hefur verið haldið fram sem tilgátu að ein af hugsanlegum ástæðum fyrir aukningu í refastofninum frá 1997–2007 hafi verið aukin vetrarveiði þar sem æti hefur verið lagt út í meira mæli en áður. Tilgátan var rökstudd með ýmsum atriðum sem þá komu fram en þetta hefur ekki verið rannsakað eða staðfest. Hér er eingöngu um eina hugsanlega skýringu að ræða en allar líkur eru til þess að um fleiri samverkandi þætti sé að ræða. Ástæðan fyrir fækkun frá 2008–2010 er ekki þekkt. Rétt er að benda á að nú eins og áður er notað sama reiknilíkan fyrir stofnmatið og gert hefur verið allt frá árinu 1979.“
„Rannsóknirnar eru alfarið byggðar á góðu samstarfi við veiðimenn“
Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands segir m.a. um vöktun íslenska refastofnsins: „Mat á íslenska refastofninum hefur staðið yfir frá árinu 1979 og er unnið í samvinnu Náttúrufræðistofnunar, Melrakkasetursins, Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða. Veiðikortasjóður hefur m.a. fjármagnað verkefnið.
Rannsóknirnar eru alfarið byggðar á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land. Eru veiðimenn hvattir til að senda stofnuninni hræ af felldum dýrum til krufninga. Mikilvægt er að fá gott þversnið af stofninum og því er óskað eftir að fá send hræ af öllum svæðum og árstímum til krufninga.“
Engin umbun fyrir að koma hræjum til skila
Þá er greint frá mikilvægi varðandi meðferð hræja og skilum þeirra til Náttúrufræðistofnunar, enda augljósir hagsmunir í húfi fyrir rannsóknir á refastofninum. Í niðurlagi þess texta er hins vegar klausa sem varla er þó hægt að túlka sem hvatningu til veiðimanna um að hræjum sé skilað, en þar segir:
„Skyttur fá enga umbun fyrir að bera hræ til byggða, fylla út eyðublaðið og senda hræin, aðra en þá að fá upplýsingar um helstu niðurstöður krufninga og aldursgreininga á þeim dýrum sem þeir senda.
Hræin skal senda merkt sem frystivöru, með innihaldslýsingu, á kostnað verkefnisins, ásamt nafni og símanúmeri sendanda og viðtakanda.“