Engar orsakir að finna úr blóðsýnarannsóknum
Höfundur: smh
Fátt hefur verið að frétta af rannsókn Landssamtaka sauðfjárbænda og Matvælastofnunar á ástæðum óvenjumikils ærdauða sem varð vart í vetur og vor sem leið.
Niðurstöður áfangaskýrslu Matvælastofnunar sem var birt 9. júlí síðastliðinn, í kjölfar spurningakönnunar sem bændur svöruðu veflægt, gáfu ekki neinar vísbendingar um eina orsök fyrir vandamálinu. Fyrstu niðurstöður úr rannsókn á blóðsýnum, sem safnað var í sumar, gefa heldur ekki tilefni til að ætla að um einn orsakavald eða sjúkdóm sé að ræða.
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að niðurstöður úr blóðrannsóknunum hafi borist skömmu fyrir síðustu mánaðamót og fljótt á litið sé engar sjáanlegar orsakir fyrir ærdauðanum þar að finna. „Það á hins vegar eftir að leggjast betur yfir þetta þannig að við báðum dýralækna á Keldum um að fara yfir niðurstöðurnar með okkur. Vegna sumarfría er þeirri vinnu ekki lokið og ekki hægt að gera ráð fyrir endanlegum niðurstöðum fyrr en undir lok mánaðarins í fyrsta lagi. Eins og fram kemur í áfangaskýrslunni mun vinnan við að leita orsaka halda áfram í haust, en eins og staðan er núna er ekkert sem bendir til þess að um eina orsök sé að ræða. Orsakirnar geta verið margvíslegar og samspil ýmissa þátta, en fjöldinn er óeðlilegur,“ segir Sigurborg.