Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Engar reglur um birgðir dýralyfja
Fréttir 22. maí 2014

Engar reglur um birgðir dýralyfja

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson

Engar reglur gilda í landinu um birgðahald á dýralyfjum og ekki er til samræmt yfirlit yfir lyfjabirgðir. Undanfarið hefur verið skortur á selen stungulyfi í sauðfé og nautgripi en nú er þó búið að kippa því í liðinn. Þá hafa tvær tegundir algengra júgurbólgulyfja í kýr ekki fengist um allnokkra hríð og ekki er útlit fyrir að svo verði fyrr en í haust. 

Mímir Arnórsson, deildarstjóri upplýsingadeildar hjá Lyfjastofnun, segir að í lyfjalögum séu engin handföst ákvæði um birgðahald.
„Frá löggjafans hálfu eru engar reglur um birgðahald lyfja yfirleitt, hvort sem um er að ræða lyf fyrir dýr eða menn, aðrar en sú klásúla í lyfjalögum að lyfsalar skuli eiga hæfilegar birgðir lyfja, hvað svo sem það þýðir. Engar aðrar reglur gilda um birgðahald. Þegar fyrirtæki fær markaðsleyfi fyrir lyf ber það ákveðnar skyldur en þær eru ekki tilgreindar nánar en þetta. Varðandi lyf sem ekki hafa markaðsleyfi, og verulegur fjöldi dýralyfja hefur ekki slíkt leyfi, gilda ekki nokkrar reglur af þessu tagi.“

Engin samræmd yfirsýn

Lyfjastofnun hefur því ekki sérstaka yfirsýn yfir birgðastöðu lyfja í landinu. Inni á heimasíðu stofnunarinnar eru þó birtir listar yfir lyf á biðlista. Fyrirtækin sjálf birta þá lista en Mímir segir þeim það þó ekki skylt.
„Við fórum fram á þetta fyrir allnokkru og þau brugðust vel við og uppfæra listana reglulega. Það er því fyrir tilstilli Lyfjastofnunar að það er gert en að baki því er enginn lagagrunnur.“

Að sögn Mímis er sjaldnast um að ræða handvömm hjá inn­flytjendum lyfja þegar skortur verður. Ástæðurnar eru fremur þær að skortur verður hjá framleiðendum erlendis og stundum getur slíkur skortur verið á heimsvísu. Í nóvember 2012 var til að mynda greint frá því í Bændablaðinu að svampar sem notaðir væru til sam­stillingar gangmála í ám væru nálega ófáanlegir á landinu. Ástæða þess var að hráefni í svampana fengust ekki.

Vandræðaástand skapaðist í vor

Hákon Hansson dýralæknir á Breiðdalsvík telur að tímabundin vöntun á seleni muni ekki hafa áhrif á skepnur.„Ég er búinn að vera í þessu í 37 ár og veit því að ég þarf að panta lyf af þessu tagi tímalega. Reyndir dýralæknir gera það held ég almennt. Líklega hafa því flestir fengið lyf og þessi tímabundni skortur hefur ekki haft veruleg áhrif.“

Hákon segir að verra ástand hafi skapast í vor vegna þess að bóluefni við lambablóðsótt, vinstrabólgu í lömbum og legeitrun í ám hafi klárast og menn lent í miklum vandræðum út af því. „Menn fengu því sumir ekki bóluefni í seinni bólusetninguna.“

Fjarri því fyrsta skipti

Hákon segir að þetta sé fjarri því fyrsta skipti sem lyfjaskortur verði. „Það hefur reglulega gerst að tímabundinn skortur hafi orðið á ákveðnum lyfjum. Yfirleitt er þá um að kenna vandamálum erlendis. Til dæmis hafa tvær tegundir lyfja gegn júgurbólgu í kúm ekki fengist vegna þess að framleiðendur erlendis fá ekki hráefni sem notuð eru í lyfin. Þessi lyf hefur nú vantað í þrjá mánuði og ekki er fyrirséð hvenær þau koma, hugsanlega ekki fyrr en í haust. Það er vissulega hægt að nota önnur lyf en þar sem þessi lyf hafa gefist vel er vandræðaástand að staðan sé þessi. Það er afar bagalegt en ekkert hægt að gera við því.“

Að mati Hákonar hlýtur það að vera samvinnuverkefni bænda, dýralækna og lyfjainnflytjenda að nægar birgðir af lyfjum séu til í landinu. „Ef dýralæknar sýna forsjálni og vita nokkuð hvaða lyf þarf að nota reyna þeir auðvitað að tryggja að þau séu til. Ef dýralæknar eru í góðu sambandi við lyfjainnflytjendur er líklegt að þeir tryggi að nægar birgðir séu til. Bændur þurfa svo einnig að vera vakandi og hafa samband við sína dýralækna um lyf.“

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...