Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
ESB semur nýja reglugerð án samráðs við lífrænu hreyfinguna
Fréttir 8. maí 2014

ESB semur nýja reglugerð án samráðs við lífrænu hreyfinguna

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson

Dagana 28. og 29. apríl sl. var fundað í Brussel um drög að nýjum reglum um lífrænan landbúnað sem Evrópusambandið samdi og lagði fram í byrjun mánaðarins án samráðs við IFOAM, hin alþjóðlegu samtök lífrænna landbúnaðarhreyfinga. Fyrra daginn fundaði Evrópu-sambandshópar lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM EU Group) um ýmis málefni með áherslu á nýju ESB drögin en þann síðari sat hópurinn 180 manna ráðstefnu þar sem m.a. voru embættismenn úr lífrænu deildinni hjá ESB (Organic Farming Unit).

Fjölþætt starfsemi ESB – hópsins

Evrópusambandshópurinn hefur skrifstofu í Brussel í Belgíu og hefur hún starfað í áratug. Höfuðstöðvar IFOAM samtakanna eru aftur á móti í Bonn í Þýskalandi. Öll ESB - aðildarlöndin eru í Evrópusambandshópnum en auk þeirra eiga Ísland og Noregur fulla aðild vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Öllum er þeim sameiginlegt að reglur vottunaraðila eru innan ramma löggjafar ESB og eru þær nýjustu frá 2007 og 2008. Það er því mikill kostur að skrifstofan skuli vera í nálægð höfuðstöðva ESB og deild þess sem fer með málefni lífræns landbúnaðar.

Ný reglugerðardrög gagnrýnd

Síðan um áramót hafa verið að „leka út“ kaflar úr  þeim  reglugerðardrögum sem ESB hefur látið semja án samráðs við IFOAM hreyfinguna. Fram til þessa hefur hreyfingin verið leiðandi í þróun slíkra reglna og hafa þar með þróað grunnreglur (Basic Standards) fyrir lífrænan landbúnað um 40 ára skeið.
Stjórn ESB - hóps IFOAM, undir forystu Christopher Stopes  formanns frá Bretlandi og Marco Schlueter framkvæmdastjóra skrifstofunnar í Brussel, hefur nú þegar sent frá sér fréttatilkynningar þar sem bent er á ýmsa alvarlega ágalla hinnar nýju reglugerðar.
Furða vekur að hún skuli vera samin án samráðs við þann hóp fólks sem hefur starfað innan lífrænu hreyfingarinnar um áratuga skeið og þekkir best umgjörð og innihald regluverksins. Sem fulltrúi Íslands í þessu ágæta samstarfi síðan 2003 reyndi ég að kynna mér nánar bakgrunninn með því að ræða við einstaka fulltrúa í hópnum. Þá kom í ljós að slík vinnubrögð eru því miður orðin algeng hjá ESB. Embættismenn eru látnir semja texta, jafnvel án samráðs við þá sem sérfróðastir eru um málaflokkinn. Nýja reglugerðin ber vissulega marki um slík vinnubrögð og veldur því miklum vonbrigðum. Sá lögfræðingur sem mest hefur fjallað um lífrænu löggjöfina um áratuga skeið, Hanspeter Schmidt frá Freiburg í Þýskalandi, telur nýju drögin meingölluð og leggur til að þeim verði hafnað.

Vaxandi eftirspurn

Á fundi okkar fyrri daginn fékkst ágætt yfirlit og um suma ágallana var rætt ítarlega í hópnum sem taldi um 40 manns. Niðurstaðan var sú að drögum að nýrri reglugerð ESB um lífræna landbúnaðarframleiðslu skuli hafna en jafnframt verði lagðar fram margvíslegar ábendingar og tillögur um úrbætur á gildandi reglugerðum í þeim tilgangi að efla lífræna framleiðslu. Á því er reyndar mikil þörf því að fram kom í umræðum um stöðuna í hinum ýmsu löndum, þar með á Íslandi, að eftirspurn neytenda eftir slíkum vörum fer vaxandi en því miður hefur framleiðsluaukning verið of lítil á seinni árum. Þannig svarar framleiðsla ekki eftirspurn í Evrópu og var það samdóma álit að hin nýja reglugerð ESB, ef staðfest yrði, myndi leiða til fækkunar bænda í lífrænum búskap og samdráttar í framleiðslu. Slíkt væri fráleitt og óviðunandi, bæði vegna markaðarins og þeirra kosta sem lífrænn búskapur hefur upp á að bjóða, m.a. vegna umhverfisverndar, byggðaþróunar og sjálfbærrar þróunar almennt. Voru þar m.a. tilgreindar aðgerðir til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og notkun olíu við framleiðslu tilbúins áburðar og eiturefna (varnarefna).

Blikur á lofti þrátt fyrir vaxandi markað

Á ráðstefnunni seinni daginn voru flutt mörg upplýsandi erindi sem fylgt var eftir með prýðilegum umræðum þar sem mikil og málefnaleg gagnrýni kom fram á nýju reglugerðardrögin frá ESB. Fjölda spurninga var beint til embættismanna ESB frá fulltrúum bænda, dreifingaraðila, vottunarstofa o.fl. í lífræna geiranum. Svörunum var misjafnlega vel tekið en þau skýrðu þó býsna vel meginmarkmið ESB við samningu nýrrar reglugerðar og þau vinnubrögð sem viðhöfð voru.
Augljóslega er markvisst verið að sniðganga sjónarmið lífræna hreyfingarinnar, einkum bændanna innan hennar. Svikamál sem komið hafa upp á seinni árum, m.a. á Ítalíu og í Þýskalandi, hafa greinilega haft mikil áhrif á embættismenn ESB sem telja sig vera að gæta hagsmuna neytenda. Lítið bendir þó til þess að nýja reglugerðin geri það því að gert er ráð fyrir að í stað árlegra eftirlitsheimsókna frá vottunarstofu komi aðeins eftirlit byggt á áhættugreiningu og heimsóknum öðru hvoru. Raunar bendir sívaxandi eftirspurn neytenda ekki til þess að þeir vantreysti lífrænt vottuðum vörum því að á undanförnum áratug hefur sala þeirra í Evrópusambandslöndunum fjórfaldast. Aftur á móti er það alvarlegt mál að stærð lífræns ræktunar- og beitalands hefur aðeins tvöfaldast á þessu tímabili þannig að innflutningur lífrænna afurða eykst stöðugt.

Minni sveigjanleiki torveldar aðlögun

Talsmenn lífrænna bænda héldu því fram með sannfærandi hætti að ef einhverjir nytu góðs af nýju reglugerðinni væru það stórbændur og fyrirtæki og mikil hætta væri á því að lífræn framleiðsla myndi minnka.
Dæmi var tekið frá Ungverjalandi þar sem  skoðanakönnun snemma í apríl, skömmu eftir að nýju reglugerðardrögin voru birt opinberlega, leiddi í ljós að  40% lífrænna bænda þar myndu fara aftur í hefðbundinn búskap eða hætta alveg. Sem sagt, veruleg hætta á samdrætti í framleiðslu. Þá var talið að vegna þeirrar óvissu sem skapast hefur, og samdrætti ESB í framlögum til landbúnaðar, mætti gera ráð fyrir að nýju reglurnar fæli bændur frá aðlögun að lífrænum búskaparháttum. Hvað Ísland varðar eru þetta slæm tíðindi því að verið er að herða á allri samræmingu og draga úr svæðabreytileika innan ESB í anda Lissabon-samningsins. Þar með þyngist róðurinn við öflun nokkurra undanþága sem ég og fleiri hafa verið að vinna að í þágu aðlögunar að lífrænum landbúnaði hér á landi, á annan áratug.

Ólafur R. Dýrmundsson Ph.D.
er ráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap og hefur verið fulltrúi lífrænu hreyfingarinnar á Íslandi í Evrópusambandshópi  IFOAM í 11 ár. (ord@bondi.is, s. 563 0300 og 563 0317).

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...