Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Ferðaþjónusta þrífst best í öflugu samfélagi
Fréttir 3. apríl 2014

Ferðaþjónusta þrífst best í öflugu samfélagi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Landsýn, Vísindaþing land­búnaðarins, var haldið á Hvanneyri 7. mars síðastliðinn. Þar fluttu þær Ragnhildur Sigurðardóttir, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Arnheiður Hjörleifsdóttir, ferða­þjónustubóndi á Bjarteyjar­sandi á Hvalfjarðarströnd, erindi um landbúnaðartengda ferðaþjónustu.

Þær eru báðar umhverfisfræðingar og sauðfjárbændur og hafa starfað saman að nokkrum verkefnum á þessu sviði á undanförnum árum. Í erindinu fóru þær yfir stöðu landbúnaðartengdrar ferðaþjónustu á Íslandi í dag, tóku innlend og erlend dæmi og horfðu til framtíðar.

Ferðaþjónustan stendur frammi fyrir mörgum áskorunum

Þar kom fram að ferðaþjónusta á Íslandi er vaxandi atvinnugrein og mikilvæg með tilliti til gjaldeyris- og atvinnusköpunar. Spár gera ráð fyrir enn frekari fjölgun ferðamanna til landsins næstu ár og því að mörgu að hyggja varðandi uppbyggingu innviða og þjónustu í tengslum við þennan vöxt. Ferðaþjónustan er tiltölulega ung grein á Íslandi og í raun ekki svo ýkja langt síðan Íslendingar fóru sjálfir að ferðast að einhverju ráði – hvort heldur um eigið land eða um önnur lönd. Þessi unga atvinnugrein stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum og er nærtækast í því samhengi að vísa til mikillar umræðu um þolmörk svæða og gjaldtöku á ferðamannastöðum.

Ragnhildur hefur sjálf farið með hópa innlendra og erlendra gesta í sögufylgd um Snæfellsnes í mörg ár og hefur tekið þátt í mörgum verkefnum sem miða að því að efla svæðið. Þar má nefna vinnu að Svæðisgarði á Snæfellsnesi (svaedisgardur.is). Þar er um sóknaráætlun að ræða þar sem sveitarfélög, fulltrúar atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka leggjast á eitt við að efla lífsgæði og atvinnulíf. „Snæfellingar hafa um nokkurt skeið unnið að eflingu byggðar og sjálfbæru samfélagi. Heimamenn úr sveitunum á sunnanverðu Snæfellsnesi, frá Hítará að Hellnum, hittast til dæmis aðra hverja viku og vinna að verkefnum um sitt heimasvæði, safna upplýsingum og finna leiðir til að nýta þessa þekkingu til uppbyggingar og nýsköpunar í ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir Ragnhildur um þetta verkefni.

„Landbúnaðartengda ferða­þjónustu er hægt að skilgreina einfaldlega sem „ferðaþjónustu sem tengd er landbúnaði“,“ segir Ragnhildur þegar hún er beðin um að útskýra hugtakið. „Í flestum tilfellum er um að ræða reynslu eða upplifun af því að heimsækja bóndabæ eða annað landbúnaðartengd fyrirtæki þar sem tilgangurinn er fræðsla, skemmtun, afþreying eða einhvers konar þátttaka í því sem fram fer. Það er hægt að markaðssetja frið og ró þótt það hljómi eins og þversögn. Hægt er að bjóða upp á ferskan, árstíðabundinn mat og innsýn í líf sem annars væri mörgum algerlega ókunnugt.“

Samvinna í samkeppni

Í erindi þeirra stallsystra kom fram að ferðaþjónusta þrífist best í öflugu samfélagi með sterka innviði. Algengt sé að fólk fari út í ferðaþjónustu til að viðhalda ákveðnum lífsstíl, til að geta lifað af áhugamáli sínu eða til að skapa sér búsetugrundvöll á tilteknu svæði.

Ferðaþjónusta hefur skapað eftirsóknarverð störf víða um land og leitt til fjölbreyttari þjónustu sem landsmenn geta nýtt sér. En hvaða framtíðarsýn hefur Ragnhildur fyrir greinina – eru til að mynda einhver tækifæri fyrir nýja þjónustu? „Með aukinni samvinnu milli ferðaþjónustuaðila og annarra atvinnugreina kæmi meiri kraftur í vöruþróun. Eftirspurn eftir landbúnaðartengdri ferðaþjónustu er til staðar og ferðaskipuleggjendur eru í auknum mæli að nýta sér það sem er í boði og þróa nýjar vörur og þjónustu. Heimagisting, hestaleigur, húsdýragarðar, gönguferðir og margt fleira getur flokkast sem liður í landbúnaðartengdri ferðaþjónustu. Smalahundasýningar eru gott dæmi um spennandi nýsköpun og svo má nefna Green Care, sem er í mikilli sókn víða erlendis, en það er samstarf bænda við dvalarheimili eða sjúkrastofnanir.

Það liggja mörg tækifæri í því að tvinna betur saman landbúnað og ferðaþjónustu. Nokkur íslensk dæmi og mörg erlendis frá má finna um vel heppnuð verkefni og af þeim má læra. Það verður að byggja á sjálfbærum grunni og hugmyndafræði umhverfisvænnar ferðaþjónustu, leggja áherslu á dýravelferð, sjálfbærni, fræðslu, fagmennsku og samvinnu í samkeppni. Uppbygging í ferðaþjónustu þarf líka að nýtast íbúum. Við eigum að byggja á sérstöðu Íslands og hvers svæðis. Sem dæmi má nefna náttúruna, jafnrétti, menningu og sögu og síðast en ekki síst litríku búfjárkynin sem hafa verið hér allt frá landnámi.“

Rætt hefur verið um að búa til formlegan samstarfsvettvang um landbúnaðartengda ferðaþjónustu. Ég skora hér með á stjórn Ferða­þjónustu bænda, Beint frá býli og Opins landbúnaðar að búa til ákveðinn verkramma fyrir samstarf. Skólarnir eru í fræðsluhlutverki og mikilvægt að virkja bæði Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann á Hólum enn betur á þessu sviði.“ 

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...