Fimm umsóknir bárust í aðlögunarstyrki að lífrænum búskap
Fimm umsóknir um styrk til aðlögunar að lífrænum búskap bárust Búnaðarstofu Matvælastofnunar, en umsóknarfresturinn rann út um miðjan maí.
Að sögn Jóns Baldurs Lorange, framkvæmdastjóra Búnaðarstofu Matvælastofnunar er unnið að yfirferð umsókna og mun endanleg niðurstaða um afgreiðslu aðlögunarstuðningsins liggja fyrir í september næstkomandi.
Markmið aðlögunarstyrkjanna er að aðstoða framleiðendur við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í vottaðri lífrænni búvöruframleiðslu og auka framboð lífrænna vara á markaði. Gert er ráð fyrir að hægt sé að styrkja hvern umsækjenda að hámarki um helming af áætluðum kostnaði við aðlögunina. Þó getur stuðningur aldrei numið meira en 20 prósent af þeirri heildarupphæð sem er til ráðstöfunar samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
Afgangi síðasta árs ráðstafað í gegnum VOR
Á síðasta ári með nýjum búvörusamningum var bætt verulega við fjármagni til aðlögunar að lífrænum búskap og voru þá 35 milljónir króna til ráðstöfunar – sem var um tíföldun á fyrri stuðningi. Aðeins ein gild umsókn barst þá og gengu því rúmlega 31 milljónir af á síðasta ári. Jón Baldur segir að framkvæmdanefnd búvörusamninga hafi tekið ákvörðun um að ráðstafað þeim afgangi í samræmi við samning sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerðí við VOR, sem er félagsskapur bænda í lífrænum búskap, og því séu þeir fjármunir ekki lengur á borði Matvælastofnunar.