Fjárfestingamál risagróðurhússins við Grindavík eru ófrágengin
Í byrjun júlímánaðar síðastliðnum greindum við frá því hér í blaðinu að fyrirhuguðum framkvæmdum við risagróðurhús. Ætlunin var að reisa það í níu kílómetra fjarlægð frá Grindavík, en framkvæmdum hafði seinkað um sex mánuði frá upphaflegri áætlun. Enn liggja fjárfestingasamningar ekki fyrir, þótt stefnt hefði verið að ljúka þeim málum í júlí.
Kristján Eysteinsson, talsmaður fyrirtækisins EsBro á Íslandi, sem hyggur á þessa framkvæmd, sagði í viðtali við blaðið í sumar að fjárfestingasamningar myndu liggja fyrir í lok júlímánaðar – en þeir eru meðal annars forsenda þess að ríkið taki formlega afstöðu til umsóknar um mögulegar ívilnanir til handa fyrirtækinu.
Tíu þúsund tonn af vistvænum tómötum
Í viðtalinu í sumar kom fram að gert væri ráð fyrir um tíu þúsund tonna vistvænni tómataframleiðslu á ári. Ákveðnir skilmálar yrðu gerðir um að framleiðslan yrði ekki, undir nokkrum kringumstæðum, sett á innanlandsmarkað.
Kristján segir nú að fjárfestingamálin séu ófrágengin. Hann segist vænta þess að fá upplýsingar um framtíð verkefnisins á allra næstu dögum.