Fjarskiptamálin á dagskrá
Í tillögum vegna fjárlaga fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir um 300 milljóna króna tímabundnu framlagi til fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun.
Í áætluninni munu koma fram töluleg markmið næstu ára um ljósleiðaravæðingu og uppbyggingu annarra fjarskipta á komandi árum. Gert er ráð fyrir að áætlunin verði lögð fyrir Alþingi á næstu mánuðum. Þarna er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir íbúa í hinum dreifðu byggðum og hefur þetta m.a. verið baráttumál búnaðarþings og Bændasamtaka Íslands um árabil.
Í drögum er m.a. gert ráð fyrir vinnu við skipulagningu, áætlunargerð og kortlagningu stjórnvalda með innviðagagnagrunni sem talið er að kosti um 40 milljónir króna á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir verkefnum við að tengja ótengda staði og/eða hringtengingar landsvæða og miðað við að um 200 milljónir króna verði varið til þeirra.
Að auki er stefnt að öðrum verkefnum í framhaldinu, svo sem hringtengingu landsvæða með meira en 5.000 íbúa og eflingu stofnnets og uppbyggingu ljósleiðaranets þar sem m.a. er horft til eflingar brothættra byggða.