Fjósið á Stóru Mörk III stækkað
„Framkvæmdirnar ganga ágætlega og ég á von á að nýbyggingin, sem er 200 fermetrar, verði reist í næstu viku,“ segir Eyvindur Ágústsson, bóndi á Stóru Mörk III undir Eyjafjöllum, sem rekur kúabú ásamt eiginkonu sinni og tengdafjölskyldu.
„Viðbótin felst aðallega í að setja upp nýja bása en við erum þegar með tvo mjaltaróbóta og góða fóðrunaraðstöðu.“
Eins og er erum við með 100 kýr en þær verða milli 120 og 130 eftir að framkvæmdunum lýkur. Nýju básarnir eru 40 og stærri en almennt gerist í íslenskum fjósum til þess að gripirnir hafi meira pláss.“
Eyvindur segir að þrátt fyrir að básarnir séu rýmri en reglur gera ráð fyrir eigi hann ekki von á að það verði farið að flytja inn stærra kúakyn til landsins á næstu árum. „Persónulega hefði ég ekkert á móti því en er ekki bjartsýnn á að það gerist á næstu árum.“