Framleiða vörur í samkeppni við innflutninginn
„Við erum á lokametrunum og allt að verða tilbúið og ég á því ekki von á öðru en að framleiðsla hefjist innan nokkurra vikna,“ segir Geir Gunnar Geirsson, framkvæmdastjóri Stjörnugríss, og bætir við að vinnsla sé eðlilegt framhald af starfsemi fyrirtækisins.
„Vinnslan er staðsett á Kjalarnesi og tilkoma hennar gerir okkur kleift að framleiða fjölbreyttar svínakjötsafurðir, s.s. þurrpylsur, skinku og beikon í samræmi við kröfur neytenda. Þetta gerir okkur betur í stakk búna til að keppa við sívaxandi innflutning með því að vera nær neytendum með okkar vörur en við erum í dag.“
Talsverðar birgðir
„Innflutningur á svínakjöti er mikill og það hefur haft í för með sér heftan aðgang að markaði fyrir innlenda framleiðslu. Afleiðing þess er að innlendir framleiðendur hafa oft setið uppi með talsverðar birgðir á sama tíma og það er verið að flytja inn kjöt sem er unnið hér. Ástæðan fyrir þessu er væntanlega sú að innflytjendurnir eru að fá kjöt ódýrara erlendis frá af mismunandi gæðum og aldri þrátt fyrir að útsöluverðið sé svipað og á íslensku kjöti. Verðmunurinn er því ekki að skila sér til neytenda þrátt fyrir hávært tal ákveðinna hagsmunaaðila um að innflutningur á kjöti, hvaða nafni sem það nefnist, komi til með að lækka verð,“ segir Geir. Reynsla er komin á það hér og er það í takt við það sem hefur gerst í öðrum löndum.
Keppni í gæðum og verði
„Ég er sannfærður um að innlend framleiðsla skarar fram úr hvað gæði varðar sem og eigum við að geta haldið áfram að framleiða á hagkvæmu verði eins og við höfum reyndar gert í áraraðir. Neytendur eiga að geta treyst uppruna vörunnar og gæðum en einnig að lögð sé áhersla á sjálfbærni, dýravelferð og heilnæmi afurða.
Til að byrja með er vinnsla hugsuð fyrir afurðum frá Stjörnugrís og okkar innleggjendum,“ segir Geir Gunnar Geirsson, einn af eigendum Stjörnugríss.