Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Grasplantan þróaðist samhliða grasbítum. Þegar hún er bitin skríður hún ekki, en beinir vextinum til rótanna og í að þétta svörðinn. Mikið kolefni binst jarðvegi graslendis.
Grasplantan þróaðist samhliða grasbítum. Þegar hún er bitin skríður hún ekki, en beinir vextinum til rótanna og í að þétta svörðinn. Mikið kolefni binst jarðvegi graslendis.
Mynd / Áskell Þórisson
Fréttaskýring 16. júní 2023

Áhrif beitar: Hófleg beit getur styrkt graslendi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Anna Guðrún Þórhallsdóttir er prófessor við Háskólann á Hólum. Hún lærði úthagafræði, eða range science, í Utah Bandaríkjunum á níunda áratugnum og útskrifaðist með doktorspróf árið 1988.

Hún segir beitarfræðina vera sérstaka að því leyti að hún taki til plantnanna og beitardýranna. „Beit er flókið samspil þessara þátta. Ef einungis er horft á beitina út frá plöntunum, eða út frá skepnunum fæst ekki öll myndin.“

Hún segir að ekki séu til neinar rannsóknir framkvæmdar á Íslandi sem sýni með óyggjandi hætti að beitin sé orsök jarðvegsrofsins. Flestar heimildir um efnið séu afleiddar frá grein Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings í Skógræktarritinu 1961.

„Það eru hvergi neinar mælingar á beit í þessari grein. Þetta er ekki ritrýnd grein eða rannsókn.“

Í grein í Bændablaðinu í apríl 2021 skrifar Anna Guðrún:
„Við friðun gisnar svörðurinn og mosi, fléttur eða kjarrgróður koma inn. Þessar breytingar má greinilega sjá víða um land, bæði í gömlum túnum sem ekki eru lengur slegin og á svæðum sem hafa verið friðuð fyrir beit. Bæði mosi og fléttur eru mjög hægvaxta sem segir líka að framleiðslan, og þar með kolefnisupptakan, minnkar til muna. Þar sem hvorki mosi né fléttur hafa eiginlegar rætur þá veikist einnig svörðurinn sem verður viðkvæmari fyrir rofi af völdum vatns og vinda.“

Grasplöntur og grasbítar þróast samhliða

Anna Guðrún segir grasplöntur hafa þróast samhliða grasbítum. Þegar grasið er bitið hættir það við að mynda punt og fer vöxturinn frekar í ræturnar, fleiri sprota og í að þétta svörðinn. „Þetta er viðbragð náttúrunnar. Ef fólk heldur að beitin sé svona slæm – hjálpi mér hvað Guð hefur gert mikil mistök. Ef beitin er skemmdarvargur, þá eru öll beitardýr úti um allan heim alltaf að skemma.“
A

nna Guðrún segir að 60–80% grasplöntunnar sé neðanjarðar. Í áðurnefndri Bændablaðsgrein frá 2021 stendur: „Grasræturnar vaxa fram þar sem vatn og næringu er að finna á hverjum tíma, eru skammlífar og er því umsetning og velta rótarmassans mikil. Dauðar rætur verða eftir sem fæða fyrir niðurbrotsörverur og mynda jarðveginn. Ekki er óalgengt að rætur grasa nái niður á 1-2 m dýpi, jafnvel 3 m á þurrum stöðum á jörðinni [...]. Kolefni sem tekið er upp af plöntunni úr andrúmslofti getur verið komið niður á 2 m dýpi í jarðveginum eftir nokkra klukkutíma. Graslendisjarðvegur er því einstakur þar sem hann er mjög lítið lagskiptur og með hátt hlutfall kolefnis í öllu jarðvegssniðinu.“

Rannsókn á áhrifum friðunar

Anna Guðrún segir að friðuð beitarlönd bindi minna kolefni en þau sem ekki eru friðuð. Í þessu samhengi bendir hún á rannsókn sem er í gangi núna þar sem stendur til að skoða kolefnisupptöku lands á 40 mismunandi stöðum. Nú hafa verið framkvæmdar mælingar á helmingi reitanna. „Við erum að skoða svæði sem hafa verið friðuð í 20 til 70 ár ,svo erum við með samanburðarsvæði við hliðina á sem hafa verið beitt. Því lengri friðun, því minni kolefnisupptaka verður.“

Hún segir mjög sterkt samband milli tíðra öskugosa og uppblásturs hérlendis. Samkvæmt henni glímum við ekki við mikið jarðvegsrof á láglendi, heldur sé uppblásturinn bundinn við hálendið. Í þessu samhengi bendir hún á að 75 prósent landsins sé yfir 200 metrum. „Ísland er háslétta.“ Anna Guðrún segir að uppblásturinn á hálendinu orsakist af lausu efni sem hefur komið frá gosstöðvunum. Hún nefnir sem dæmi gosið í Öskju 1875 sem veldur uppblæstri í Jökuldalnum. Skipulögð beit á svona landi, sem er það lítil þannig að hún viðhaldi grasinu og það dreifi úr sér, sé samkvæmt Önnu Guðrúnu miklu betri aðferð til stöðvunar uppblásturs, en að taka beit alveg af. Þá taki mosi yfir sem er viðkvæmari fyrir náttúruöflunum.

Hvenær er ofbeit?

Anna Guðrún segir mjög erfitt að gefa út skýrar línur á því hvenær land er ofbeitt og hvenær ekki. Mikilvægt er fyrir bændur að kanna ástand gróðurs á afréttum áður en fé er rekið í sumarhagana. „Það er ekki gott að byrja að beita úthaga mjög snemma því að gróðurinn þarf að ná sér á strik. Ég held að það sé frekar dýraverndunarmál en plöntuvandamál að setja ærnar upp á þessa afrétti sem eru með mjög lítið af gróðri. Við vorum án efa að beita landið of mikið þegar við fórum upp í hæstu hæðir með fjárbúskapinn á áttunda og níunda áratugnum.“

Þessi sömu ár voru jafnframt þau köldustu sem hafa verið í hundrað ár og var samspil þessara tveggja þátta stór orsakavaldur í hnignun lands fyrir aldamót. „Þetta er allt önnur veröld í dag. Við erum búin að fækka fénu svo mikið að nú erum við að lenda í vandræðum með vanbeit. Ég sé hvergi uppblástur núna og hef ekki séð hann í hátt í 20 ár. Þessi hugmynd að það taki landið hundruð ár að gróa, held ég að sé einhver mýta. Landið er miklu fljótara að jafna sig. Þú getur bara séð það í vegköntum alls staðar, landið er miklu duglegra en við héldum áður.“ 

Anna Guðrún segir að landnámið hafi haft í för með sér miklar gróðurfarsbreytingar, en það hafi ekki verið beitin sem olli þeim, heldur skógarhögg til eldiviðarframleiðslu.

Hæfileg beit í skóglendi

„Það er gott að vera með hæfilega beit inni í skógi. Í friðuðum birkiskógi, sem er mjög gott að hafa á ákveðnum svæðum, er dimmt undir og það eru fáar tegundir sem lifa. Ég held að það sé algjör misskilningur að það þurfi að friða þetta allt saman, af því þetta skemmir ekki, heldur eykur hæfileg beit tegundafjölbreytnina, landið verður opnara og það verður meiri birta.“Anna Guðrún segir nýjar rannsóknir benda til þess að skógrækt sé ekki eina aðferðin til að binda kolefni og að graslendi sé ekki síðra. „Ef þú lest síðustu skýrsluna frá IPCC [Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar], þá er loksins farið að koma inn á að það þurfi að huga að graslendinu.

Það er mikill munur á kolefni í jarðvegi í skóglendi og graslendi, því skógurinn setur meirihluta kolefnisins ofanjarðar, en grasið neðan jarðar. Ef við erum að tala um að koma kolefninu á einhvern stað sem er öruggur, þá er miklu betra að setja kolefnið niður í jarðveginn, af því það þarf ekki nema einn bruna í skóginum og þá er allt kolefnið farið.“

Seigt dogma

„Þessar hugmyndir um ofboðslega slæm áhrif beitar eru einhverjar 1950 hugmyndir. Það var verið að hætta að kenna þetta þegar ég var í Bandaríkjunum um 1980. Það er eins og við séum að kenna einhverja pápísku hérna. Þetta dogma er seigt. Þetta er söguskoðun sem ekki stenst þegar nánar er skoðað,“ segir Anna Guðrún Þórhallsdóttir.

Skylt efni: áhrif beitar

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...