Almenningur telur að stjórnvöld ættu að setja skorður við jarðakaup erlendra aðila
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Nýverið gekk ríkið inn í kaup á jörðinni Hellisfirði á Austfjörðum með því að nýta sér forkaupsrétt sinn eftir að þýskur frumkvöðull hafði samið um kaup á jörðinni.
Fréttablaðið gerði könnun á dögunum á viðhorfi almennings til þess hvort stjórnvöld ættu að setja frekari skorður við jarðakaupum erlendra aðila á Íslandi. Niðurstöður könnunarinnar eru þær að mikill stuðningur er við því að stjórnvöld setji á slíkar hömlur og eru íbúar á landsbyggðinni líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins til að vera sammála um frekari skorður.
Síðasta sumar setti ríkisstjórnin á fót starfshóp til að fjalla um málefnið og komu niðurstöður úr þeirri vinnu fram síðastliðið vor sem mun skila sér í frumvarpi eða frumvörpum, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Bendir ráðherra á í samtali við Fréttablaðið að gera verði greinarmun á því um hvers konar kaup sé að ræða, þannig sé munur á hvort keyptar séu einstaka fasteignir, stórar landspildur, jarðir eða heilu dalirnir. Hann lýsir einnig yfir því hversu erfiðlega geti oft og tíðum verið að fá upplýsingar um eigendur jarða vegna eignarhaldsfélaga sem liggi að baki. Óttast ráðherrann ekki að frekari skorður við kaupum erlendra aðila á jörðum hérlendis brjóti gegn EES-samningnum.
Ríkisstjórn Íslands hefur boðað frumvarp sem tekur á viðskiptum með bújarðir. Nokkrir ráðherrar hafa lýst yfir vilja sínum til að takmarka jarðakaup erlendra aðila.
Fyrirhugað eldi og ræktun í ferskvatni
Ríkið hefur keypt jörðina Hellisfjörð á Austfjörðum en stærstur hluti jarðarinnar er óbyggður eyðifjörður sem ríkið vill vernda. Gerast kaupin í framhaldi af því að þýskur frumkvöðull hafði samið um kaup á jörðinni fyrir 40 milljónir en að tillögu umhverfisráðuneytisins nýtti ríkið sér forkaupsrétt og gekk inn í kaupsamninginn að jörðinni sem er um 1900 hektarar að stærð.
Samkvæmt Ríkisútvarpinu var í Hellisfirði norsk hvalveiðistöð í byrjun 20. aldar en nú er fjörðurinn í eyði og þar er aðeins sumarhús. Fjölskyldufyrirtæki Sigurjóns Sighvatssonar, kvikmyndaframleiðanda og athafnamanns, keypti jörðina árið 2000 en síðasta sumar var hún auglýst til sölu. Væntanlegur kaupandi var Þjóðverjinn Sven Jakobi, sem rekur stóra auglýsingaskjái á flugvöllum, stórmörkuðum og verslunarmiðstöðvum. Tilgangur hans var að stunda eldi og ræktun í ferskvatni og áform hans voru meðal annars að rækta upp veiði í Hellisfjarðará og jafnvel byggja höfn. Enginn vegur liggur í fjörðinn og þangað hefur ekki verið leitt rafmagn. Fjörðurinn er innan Gerpissvæðis sem er á náttúruminjaskrá og í náttúruverndaráætlun 2009–2013 var lagt til að svæðið yrði skilgreint sem friðland.
Takmörk á fjölda og stærð jarða
Guðrún Vaka Steingrímsdóttir, lögfræðingur Bændasamtakanna, vann nýlega samantekt fyrir stjórn Bændasamtakanna um skyldur sem lagðar eru á þá sem kaupa eða eiga landbúnaðarland í Danmörku og Noregi. Kannaði Guðrún Vaka hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að geta keypt landbúnaðarland fyrir kaup, búsetuskyldu og svo framvegis og hvaða skyldur fylgja því að eiga slíkt land.
Í Danmörku er eignarhald á fasteignum almennt takmarkað með lögum um eignarhald á fasteignum en þar er stuðst við skilyrði um búsetu. Upphaflega voru lögin sett til að sporna við aukinni ásókn útlendinga í fasteignir í Danmörku. Kveðið er á um þá meginreglu að til að eignast fasteign þar í landi þurfi einstaklingur að hafa þar fasta búsetu eða haft þar fasta búsetu í fimm ár. Aðrir þurfa að sækja um leyfi dómsmálaráðherra til að öðlast eignarréttindi yfir fasteign. Búsetuskilyrðin eiga jafnt við um alla sem vilja eignast fasteign í Danmörku, þ.á m. lögaðila. Að því leyti eru gerðar strangari kröfur en hér á landi.
Lög eiga að tryggja fjölbreytt og eðlileg landbúnaðarafnot
Þá eru sérstakar takmarkanir á eignarhaldi á fasteignum í landbúnaðarnotum en þeim eru settar í dönsku búnaðarlögunum (d. landbrugsloven) þar sem stuðst er við annars konar búsetuskilyrði. Lögin hafa það að markmiði að tryggja eðlileg og fjölbreytt landbúnaðarnot að teknu tilliti til landbúnaðarframleiðslu, náttúru, umhverfis og menningar, að tryggja sjálfbæra þróun landbúnaðarins og stuðla að samkeppnishæfni hans, búsetu og þróun í dreifbýli. Gerð er krafa um fasta búsetu á fasteigninni í 10 ár, en einnig má uppfylla þá skyldu með því að byggja fasteignina ábúanda. Búseta skal hefjast innan sex mánaða eftir kaup og þá skal að meginreglu vera þar tilhlýðilegt íbúðarhúsnæði.
Tilgreind landbúnaðarnot eru áskilin þannig að óheimilt er að taka hluta fasteignar til annars konar nota nema samkvæmt heimild í lögum. Það eru því talsvert strangari kröfur til eignarréttar yfir fasteignum í landbúnaðarnotum en fasteignum almennt.
Í jarðalögum í Noregi er leitast við að tryggja að landgæðin geti nýst á sem gagnlegastan hátt fyrir samfélagið. Mynd / Ruralis.no
Landbúnaðarmenntun áskilin
Ef dönsk jörð er stærri en 30 ha skal kaupandi hafa lokið landbúnaðarmenntun og hefja sjálfur búrekstur þar. Takmörk eru við fjölda jarða og stærð og legu lands sem mest má vera á einni hendi.
Samkvæmt norskri löggjöf þarf að jafnaði leyfi hins opinbera til hvers kyns eignar- og afnotaréttinda yfir fasteignum. Í sérleyfislögum er að finna almennar reglur um eignarhald á fasteignum. Markmið laganna er einkum að stjórna eignarhaldi í því skyni að stuðla að vernd fasteigna í landbúnaðarnotum, svo og þeim eignar- og afnotarétti sem á hverjum tíma þykir henta samfélaginu best. Meginreglan er sú að ekki er unnt að öðlast eignarréttindi yfir fasteignum nema með leyfi viðkomandi sveitarfélags. Lögmæltar undantekningar er þó að finna frá leyfisskyldunni. Þá gera lögin kröfu um búsetuskilyrði vegna jarða yfir tilgreindri stærð, t.d. 3,5 ha lands eða 50 ha skóglendis eða stærra, það er að fasteignareigandi skuli flytjast þangað innan eins árs og hafi þar fasta búsetu í a.m.k. fimm ár.
Er kaupandinn hæfur?
Norsku lögin tilgreina einnig hlutlæg atriði sem litið skal til við mat á hvort veita skuli leyfi yfir landi sem nýtt er til landbúnaðar, þ.e. hvort markmið kaupandans fari saman með búsetu á svæðinu, hvort kaupin muni stuðla að hagkvæmum rekstri, hvort kaupandinn sé talinn hæfur til að yrkja landið og hvernig kaupin horfi við meðferð og nýtingu auðlinda, landsháttum og menningu á svæðinu. Því til viðbótar er heimilt að líta til verðstýringar við matið þegar um ræðir landsvæði yfir áðurnefndum stærðarmörkum. Loks heimila lögin að leyfisveiting sé skilyrt eftir aðstæðum í einstökum tilvikum, þá í því skyni að ná markmiðum laganna. Við þetta má bæta að ESA hefur fallist á lögmæti búsetuskilyrða áðurgreindra laga og hafnað því að þau séu í andstöðu við EES-samninginn.
Norsku lögin strangari en þau íslensku
Í jarðalögum í Noregi er leitast við að tryggja að landgæðin geti nýst á sem gagnlegastan hátt fyrir samfélagið og þá sem hafa atvinnu sína af landbúnaði. Varðveita skuli búsetulandslag og búrekstraraðstöðu á jörðum og að þær verði ekki rýrðar þannig að torveldi byggingu þeirra.
Ákvæði um hömlur við nýtingu og skiptingu landbúnaðarlands eiga að meginstefnu ekki við um land skipulagt til annarra nota en landbúnaðar samkvæmt skipulagsáætlun. Landbúnaðarsvæði (þ.e. ræktað land og beitiland í „innmörk“) skal nýtt til búrekstrar samkvæmt lögunum. Verulegt brot gegn búrekstrarskyldu getur varðað við stjórnsýsluviðurlög, það er skyldu til að leigja það til allt að 10 ára eða grípa til annarra ráðstafana, planta í það skógi o.s.frv.
Markmiðið að standa vörð um matvælaframleiðslu
Í Noregi er óheimilt að nýta ræktað land í tilgangi sem ekki tekur mið af jarðræktarframleiðslu eða þannig að það henti ekki til slíkrar framleiðslu í framtíðinni. Markmiðið er að standa vörð um möguleika til framleiðslu matvæla. Þegar litið er til möguleika á breyttri landnotkun eru norsku lögin mun strangari en þau íslensku og torvelt er að leysa land úr landbúnaðarnotum.