Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Í júlí árið 2023 beindi Samkeppniseftirlitið fyrirspurn til KS vegna tilkynningar á heimasíðu félagsins og Sláturhúss KVH þar sem fram kom að kaupfélagið hygðist veita sauðfjárbændum fjárstuðning ef þeir myndu leggja lömb sín inn hjá félögunum, en með skilyrðum. Við vissar kringumstæður geta tryggðarbindandi kjör hindrað samkeppni og verið í andstöðu við samkeppnislög.
Í júlí árið 2023 beindi Samkeppniseftirlitið fyrirspurn til KS vegna tilkynningar á heimasíðu félagsins og Sláturhúss KVH þar sem fram kom að kaupfélagið hygðist veita sauðfjárbændum fjárstuðning ef þeir myndu leggja lömb sín inn hjá félögunum, en með skilyrðum. Við vissar kringumstæður geta tryggðarbindandi kjör hindrað samkeppni og verið í andstöðu við samkeppnislög.
Mynd / ghp
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða hefur ekki komið til skoðunar Samkeppniseftirlitsins. Fyrri athuganir eftirlitsins á framkvæmd samkeppnisreglna í landbúnaði gefa skýrt til kynna að bændur hafi og telji sig hafa mikla hagsmuni af því að viðsemjendur þeirra búi við samkeppnislegt aðhald. Stofnunin getur tekið mál til skoðunar berist þeim ábendingar eða kvartanir.

Páll Gunnar Pálsson.

Fyrirspurn var send Samkeppniseftirlitinu og varpað var fram spurningum um samkeppnisstöðu bænda á milli er kemur að vaxtalausum óverðtryggðum fyrirgreiðslum Kaupfélags Skagfirðinga til handa sínum félagsmönnum annars vegar og einnig er varðar stöðu bænda gagnvart lánardrottnum sínum.

Í svari frá Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra stofnunarinnar, kemur fram að Samkeppniseftirlitinu hafi ekki borist erindi eða ábendingar varðandi fyrirgreiðslur KS til bænda á starfssvæði félagsins og hefur því ekki tekið viðskipti með greiðslumark til skoðunar.

„Þannig hefur ekki verið tekið til skoðunar hvort þessi aðkoma KS að viðskiptunum geti farið gegn banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, þ.e. hvort KS, sjálfstætt eða með MS, sé markaðsráðandi í þessu tilliti og þá hvort lánasamningar eða kjör þeirra geti talist misnotkun á þeirri stöðu. Ekki hefur heldur komið til skoðunar hvort viðskiptin geti átt undir bann 10. gr. samkeppnislaga við samkeppnishamlandi ákvæðum í samningum afurðastöðva við bændur. Þyrfti Samkeppniseftirlitið að afla frekari gagna og upplýsinga til að taka afstöðu til þessa.“

Um áhrif slíkra fyrirgreiðslna á stöðu bænda gagnvart KS segir Páll Gunnar: „Þekkt er í samkeppnisrétti að samningar sem fela í sér einhvers konar sérkjör geta verið til þess fallnir að hindra samkeppni, þ.e. með því að binda viðskiptavini í viðskiptum við fyrirtækið sem veitir kjörin, annaðhvort á sama markaði eða tengdum mörkuðum.

Fyrir liggur að KS selur bændum ýmsa þjónustu og aðföng og mikilvægt að virk samkeppni ríki á viðkomandi mörkuðum, m.a. til þess að bændum bjóðist samkeppnishæf kjör og valkostum þeirra fækki ekki. Samningar sem fela í sér bindingu viðskiptavina geta undir vissum kringumstæðum falið í sér brot á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu eða farið gegn 10. gr. samkeppnislaga um bann við ólögmætu samráði. Ítök lánveitanda í rekstri fyrirtækis geta líka undir vissum kringumstæðum vakið spurningar um yfirráð yfir fyrirtækinu.“

Tryggðarbindandi kjör geta hindrað samkeppni

Þá segir Páll Gunnar að í júlí 2023 hafi Samkeppniseftirlitið beint fyrirspurn til KS vegna tilkynningar á heimasíðu félagsins og Sláturhúss KVH þar sem fram kom að kaupfélagið hygðist veita sauðfjárbændum fjárstuðning ef þeir myndu leggja lömb sín inn hjá félögunum þá um haustið og hefðu gert slíkt hið sama tvö undangengin haust.

„Í bréfinu sagði að eftirlitið teldi jákvætt að afurðastöðvar kepptu sín á milli með því að veita bændum sem besta þjónustu og verð. Hins vegar staldraði eftirlitið við þau skilyrði sem sett voru fyrir fjárhagsstuðningnum og vakti athygli á því að við vissar kringumstæður gætu tryggðarbindandi kjör af þessu tagi hindrað samkeppni í andstöðu við samkeppnislög. Leiðbeint var um að samningar af þessu tagi gætu þannig farið gegn banni við ólögmætu samráði eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Var því beint til félaganna að tryggja að fjárstuðningurinn hindraði ekki samkeppni í andstöðu við samkeppnislög. Í svari KS kom m.a. fram að orðalag tilkynningarinnar væri ekki í samræmi við framkvæmd og að hún hefði verið tekin af heimasíðu félaganna. Frekari fjárstuðningur myndi ekki fela í sér skilyrði um áframhaldandi viðskipti.“

Könnun sem endurspeglar viðhorf bænda

Samkeppniseftirlitið lét gera könnun meðal bænda í tengslum við rannsókn eftirlitsins á samruna Norðlenska, Kjarnafæðis og SAH- afurða árið 2021. Í könnuninni voru bændur spurðir um tengsl sín við afurðastöðvar og samningsstöðu gagnvart þeim. Þeir bændur sem kváðust vera aðilar eða hluthafar í afurðastöð voru jafnframt spurðir hvaða áhrif þeir teldu sig hafa á stefnu viðkomandi afurðastöðvar.

Niðurstaðan var sú að yfir 90% hrossa- og sauðfjárbænda og 75% nautgripabænda teldu samningsstöðu bænda almennt vera veika eða enga gagnvart afurðastöðvum. Bændur rekja veika samningsstöðu sína m.a. til takmarkaðra valmöguleika og þess að ekki sé hlustað á sjónarmið þeirra.

„Greiningin leiddi í ljós að algengustu skýringar bænda á veikri samningsstöðu má rekja til sterkrar stöðu afurðastöðva, en 60% svara féllu undir þann flokk,“ segir í skýrslunni Viðhorf bænda og neytenda til samkeppni á mörkuðum búvara.

Þá var tekið sérstaklega til skoðunar hversu mikil eða lítil áhrif þeir bændur sem eru hluthafar eða félagsmenn í kjötafurðastöðvum teldu sig hafa á stefnu viðkomandi afurðastöðvar.

Mikill meirihluti þeirra, eða 75%, töldu sig hafa lítil eða mjög lítil áhrif á stefnu þeirrar afurðastöðvar sem þeir voru félagar eða hluthafar í.

Bendir bændum á að senda ábendingar

Páll Gunnar vísar einnig til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2016 en þar komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að MS hefði brotið gegn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu sinni, með háttsemi sem skapaði fyrirtækinu og tengdum aðilum, þ.á m. KS, verulegt samkeppnisforskot gagnvart keppinautum.

„Leiddi háttsemin til þess að keppinautur samstæðunnar, Mjólka, hrökklaðist af markaði. Sýndu gögn málsins að Mjólka skapaði MS mikilvægt samkeppnislegt aðhald sem varð m.a. til þess að vöruþróun jókst og hrávöruverð til bænda hækkaði. Var ákvörðunin staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 26/2020.

Það er einnig rétt að nefna í þessu sambandi að Samkeppniseftirlitið hefur í fyrri úrlausnum fjallað um tengsl MS og KS. Í fyrrgreindri ákvörðun nr. 19/2016 er varpað ljósi á náin tengsl félaganna og byggt á því að um einn og sama aðilann væri að ræða í viðskiptalegu tilliti. Í málinu var m.a. fjallað um samning milli félaganna um verkaskiptingu og viðskiptakjör.“

Páll Gunnar bendir á að bændum og öðrum hagsmunaaðilum standi til boða að senda eftirlitinu ábendingar og kvartanir um framangreint, telji þeir ástæðu til þess. Mun eftirlitið þá taka til skoðunar hvort forsendur séu til frekari athugana.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...