Einstakur árangur
Enginn Íslendingur lét lífið í sjóslysum á nýliðnu ári, þriðja árið í röð og sjötta árið á þessari öld. Árangurinn í slysavörnum á sjó í seinni tíð gengur kraftaverki næst í ljósi hinna miklu mannfórna sem voru fylgifiskur sjósóknar við Ísland lengst af.
Fiskveiðar við Ísland voru og eru oft og tíðum stundaðar við erfið veðurskilyrði og eru enn hættuleg atvinnugrein. Ekki þarf að fara lengra aftur en til ársins 1973 þegar 34 sjómenn drukknuðu á eina og sama árinu. Sem betur fer urðu gríðarleg umskipti í þessum efnum þegar nær dró síðustu aldamótum. Til marks um það má nefna að á árunum 1958-1967 fórust að jafnaði 25 manns á ári á sjó, en á jafnlöngu árabili 2008-2017 var að meðaltali eitt dauðsfall á ári af völdum slysa á sjó. Á árunum 2008, 2011, 2014, 2017, 2018 og 2019 lést enginn í sjóslysi við Ísland.
Fjöldi látinna i sjóslysum á fimm ára tímabilum. Graf / Samgöngustofa.
Hvað veldur?
Hverjar eru skýringar á þessum undraverða árangri? Í skýrslu Samgöngustofu um öryggisáætlun sjófarenda segir að helstu ástæður fyrir þessari fækkun slysa á sjó séu betri skip og eftirlit, áhrif fiskveiðistjórnunarkerfisins sem dregið hafi úr sjósókn í vondum veðrum, betri þjálfun sjómanna með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna, tilkoma vaktstöðvar siglinga, efling Landhelgisgæslunnar, tilkynningaskylda íslenskra skipa, árangur af öryggisáætlun sjófarenda og aukin öryggisvitund meðal sjómanna og útgerða.
Hvað fiskveiðistjórnunarkerfið varðar þá hefur það líka leitt til mikillar fækkunar fiskiskipa með kvóta. Sem dæmi um það má nefna að árið 2005 voru skip með veiðiheimildum 1.111 talsins en nú hálfum öðrum áratug síðar eru þau aðeins 466. Fækkunin var mest í smábátaflotanum, eða úr 848 bátum í 329 báta. Mesta fækkunin varð í kjölfar afnáms sóknardagakerfisins.
Hartnær 4.000 fórust á 20. öldinni
Steinar J. Lúðvíksson, ritstjóri og rithöfundur, er manna fróðastur um sjóslys við Ísland. Hann skráði fyrr á árum bókaflokkinn Þrautgóðir á raunastund, björgunar- og sjóslysasögu Íslands, alls 19 bindi sem tóku yfir tímabilið frá 1900 til 1974. Listinn yfir nöfn þeirra sem fórust á þessu tímabili geymir 3.572 nöfn, eða sem svarar 48 manns á hverju ári að meðaltali. Sex ár voru mannskæðust en þá fórust á annað hundrað manns árlega. Mestu mannfórnirnar urðu stríðsárið 1941 en þá lést 141 Íslendingur í sjóslysum sem mörg tengdust hernaðarátökum. Önnur mannskæð ár á öldinni voru 1906 þegar 131 fórst, árið 1912 er 107 létust, árið 1903 þegar 101 fórst og árin 1922 og 1925, en 98 fórust hvort árið.
Nýlega bætti Steinar við bókaflokkinn 20. bindinu sem fjallar um tímabilið 1975-2000 en þá létust 384 Íslendingar í sjóslysum eða sem svarar 15 á ári.
Banaslys á sjó 1966-2018. Á grafinu má greina nokkur stærri sjóslys en þeim hefur fækkað verulega með betri skipum, búnaði og öryggisfræðslu. Síðustu þrjú árin hefur enginn látið lífið á sjó. Graf / Samgöngustofa.
Mannskaðar fyrr á öldum
Það sem hér fer á eftir um sjóslys við Ísland er byggt á upplýsingum sem fram komu í erindi sem Steinar flutti í Sjóminjasafninu. Hann sagði að frásagnir fyrri tíma af sjósókn væru fáar og stuttorðar, en þó kæmi fram að á öllum tímum hefðu ótrúlega margir beðið lægri hlut í baráttunni við Ægi konung. Fórnin hefði ekki eingöngu verið þeirra sem drukknuðu heldur hefði afleiðingin oft orðið sú að heilu byggðarlögin hefðu nánast lagst í rúst, fjölskyldur splundrast og fjöldi fólks, aðallega konur og börn, lent á vonarvöl.
Sagan er vörðuð skelfilegum slysadögum. Á góuþræl árið 1573 reru 19 bátar frá Hálsahöfn í Suðursveit, á skall hið versta veður, aðeins einn bátur náði landi en 18 fórust með á sjötta tug manna. Hinn 1. maí 1615 munu 13 róðrarskip frá ýmsum stöðum við Breiðafjörð hafa farist og með þeim 80-90 menn.
Mannskaðaveturinn 1685 fórust 136 menn í miklu stórviðri sem gekk yfir landið sunnan- og vestanvert á góuþræl. Af þeim fórust 50 með bátum frá Vestmannaeyjum og um 70 af bátum sem gerðir voru út frá Stafnesi á Reykjanesi, flestir við landtöku. Heimildir greina frá því að 42 sjómenn hafi þá verið lagðir í eina gröf í Útskálakirkjugarði. Talið er að þennan vetur hafi 191 íslenskur sjómaður farist.
160 fórust á einni vertíð
Og áfram er hægt að halda. Hinn 8. mars árið 1700 hélt mikill fjöldi báta til veiða í góðu veðri en þegar þeir voru að búast til heimferðar skall á ofsaveður og glórulaus stórhríð. Þar fórust m.a. 12 skip frá Seltjarnarnesi með samtals 43 mönnum. Alls var talið að þennan eina dag hefðu 136 menn farist en á vetrarvertíðinni allri þetta ár fórust 33 skip og með þeim um 160 menn. Um 1700 voru íbúar landsins um 51 þúsund. Steinar bendir á að ef tala þeirra sem fórust sé heimfærð til íbúafjölda myndi hún svara til þess að 1.000 manns færust nú á tímum á einum og sama vetrinum!
Mannfórnir útlendinga
Fjöldi útlendinga stundaði veiðar við Ísland öldum saman og þurftu þeir iðulega að færa miklar fórnir. Sem dæmi má nefna að árið 1419 er talið að í það minnsta 25 ensk skip hafi farist við Suðurland á einum degi, 13. apríl, og enginn hafi bjargast af áhöfnum þeirra. Venjulega voru 14-18 menn á slíkum skipum og má því ætla að í þessu mikla skírdagsveðri, sem sagt er að hafi ekki staðið nema í um fjóra klukkustundir, hafi hartnær 400 manns farist.
Mannskæðasta sjóslys við Ísland varð þegar stórskipið Het Wapen van Amsterdam, oft nefnt gullskipið, strandaði við Skeiðarársand árið 1667 en þá fórust hið minnsta 150 manns, margir þeirra af vosbúð þegar þeir króknuðu á sandinum.
Horfðu á þá farast
Á hverju einasta ári urðu mannskæð sjóslys. Lengst af sóttu Íslendingar sjóinn á árabátum en þegar þilskipin komu til sögunnar og skútuöldin svokallaða hélt innreið sína á 19. öld mætti ætla að draga myndi úr hinum tíðu og hræðilegu sjóslysum. Sú varð þó ekki raunin. Þilskipin sóttu á mið lengra frá landi og úthaldið stóð lengur. Mannfórnirnar héldu áfram. Hinn 7. apríl árið 1906 fórust til dæmis þrjú þilskip með allri áhöfn, samtals 68 mönnum. Af þeim fórust 20 bókstaflega fyrir augum Reykvíkinga er Ingvar strandaði við Viðey. Menn gátu klifrað upp í reiðann og sást greinilega frá landi er þeir misstu tök sín einn af öðrum og hurfu í brimlöðrið. Og ekkert var hægt að gera til hjálpar.