Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Sams konar hús og fyrirhugað er að reisa á Reykjanesi Áætluð ársframleiðsla af tómötum er tíu þúsund tonn.
Sams konar hús og fyrirhugað er að reisa á Reykjanesi Áætluð ársframleiðsla af tómötum er tíu þúsund tonn.
Fréttaskýring 9. júlí 2014

Er risagróðurhús raunhæft?

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í Fréttablaðinu 6. júní er fjallað um verkefni sem lýtur að því að reist verði risagróðurhús, í níu kílómetra fjarlægð frá Grindavík, sem ætlað er að framleiða tómata til útflutnings. Þar kom fram að fyrirliggjandi væri fjárfestingarsamningur milli íslenskra stjórnvalda og hollenska fyrirtækisins EsBro, sem stendur að verkefninu, um ívilnanir. Hann yrði hins vegar ekki undirritaður fyrr en verkefnið hefði verið fjármagnað. Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda (SG), veltir upp nokkrum atriðum varðandi þetta verkefni á vef SG sama dag. Þar efast hann um að verkefnið verði að veruleika og spyr einnig hvort það sé yfirhöfuð æskilegt sé farið sé út í slíkar framkvæmdir á Íslandi. Hann veltir því upp hvað yrði um núverandi starfsemi ylræktenda á landinu ef af þessu verkefni yrði og framleiðslan seld innanlands.

Óraunhæft verkefni?

Í viðtali við Bændablaðið segir Bjarni að það sé hans mat, miðað við kynninguna á verkefninu, að það sé óraunhæft. „Ég lagði fram rökstudda gagnrýni á forsendur sem gefnar voru og snerta fjármögnun og benti á að kostnaðarauki sem af hlytist yrði um einn milljarður króna. Það hlýtur að hafa sett verulegt strik í þá útreikninga. Upphafleg fjárfestingaráætlun gerði ráð fyrir fimm til sex milljarða króna fjárfestingu, svo þarna munar um. Sama gagnrýni hefur síðan áhrif á rekstur og reiknaði ég það út að árlegur viðbótarkostnaður yrði um 150 milljónir króna.
Eina gagnrýnin sem ég setti á markaðshlutann var sú að í upphafi var talað um lífræna ræktun og samkvæmt þeim gögnum sem lögð voru fram stenst ekki að um lífræna ræktun geti verið að ræða samkvæmt skilgreiningum vottunaraðila.“

Áhyggjur af innlendum markaði

„Áhyggjur garðyrkjubænda snúa hins vegar fyrst og fremst að þeirri hættu að framleiðslu slíks gróðurhúss verði skyndilega að hluta skellt inn á markað hér á landi. Ef slíkt gerist mun það hafa alvarleg áhrif á rekstur ylræktenda og íbúðarbyggð til dæmis í uppsveitum Suðurlands þar sem framleiðslan er mest.“

Aðilum í garðyrkju yrði mismunað

„Mig langar líka að benda á að garðyrkjubændur hafa í langan, langan tíma reynt að fá stjórnvöld hverju sinni til þess að sjá ljósið í málefnum garðyrkjunnar. Við höfum reitt fram hverja útreikningana á fætur öðrum og sýnt fram á að rafmagnskostnaður sem garðyrkjan greiðir er of hár. Við höfum einnig hafið vinnu að því að fá að dreifa rafmagninu með hagkvæmari hætti á svæði ræktenda á Flúðum, Reykholti og Laugarási í uppsveitunum og sýnt fram á það með óhrekjanlegum hætti að við getum gert það hagkvæmara en RARIK býður upp á í dag.
Ég spyr bara hvers vegna stjórnvöld geta ekki klárað þetta mál með okkur með því að efna þau loforð sem höfð eru uppi. Af hverju er hægt að gera ívilnunarsamning við einn garðyrkjuaðila en hunsa aðra garðyrkjubændur?“ segir Bjarni Jónsson.

Skilningur á afstöðu garðyrkjubænda

Kristján Eysteinsson, talsmaður EsBro á Íslandi, segir að stefnt sé að því að endanlegir fjárfestingarsamningar liggi fyrir í lok júlímánaðar. „Verkefnið er um sex mánuðum á eftir áætlun. Í ferlinu gerðist það að fyrirtæki sem hafði ætlað að sjá um sölu- og dreifingarhlið framleiðslunnar gekk úr skaftinu og það tafði framgang verkefnisins. Nú er búið að gera samningsdrög við nýja aðila.“

Hann vill ekki tjá sig um gagnrýni Bjarna á fjárfestingaráætlunina, enda séu forsendur þar gefnar sem ekki séu réttar. „Ég skil hins vegar alveg afstöðu garðyrkjubænda varðandi ívilnunarsamninginn, sem liggur fyrir í drögum, og geri mér grein fyrir að þeir hafa áhyggjur af því að þeim verði mismunað í raforkukostnaði. Staðreyndin er hins vegar sú að um hefðbundinn ívilnunarsamning yrði að ræða, þar sem farið er eftir þeim reglum sem þeim er boðið sem vilja fjárfesta hér á landi. Ég get auðvitað ekki upplýst um raforkuverðið en ég get þó sagt að það verður ekki á neinum spottprís. Ívilnunin yrði til að byrja með fyrst og fremst skattaleg – til fyrstu tveggja áranna,“ segir Kristján.

Hann segir að áhyggjur Bjarna af innanlandsmarkaði séu enn fremur óþarfar. „Þarna verður eingöngu um tómataframleiðslu að ræða. Í forsendum þessa verkefnis er gert ráð fyrir að hver einast tómatur fari úr landi, á erlendan markað. Um það eru ákveðnir skilmálar og yfirlýsingar í samningagerðum. Ef af einhverjum ástæðum ekki tekst að selja framleiðsluna á erlendum mörkuðum, þá verður það skaði framleiðandans.“

Vistvænt í stað lífrænnar ræktunar

Að sögn Kristján verða húsin framleidd í Hollandi í einingum. Framleiðandinn hefur gert samskonar hús áður sem hafa verið reist hér og hvar um alla Evrópu. Um tvö glerhús er að ræða sem hvort um sig nær yfir sjö og hálfan hektara, með tengibyggingu á milli fyrir pökkun, afgreiðslu og þjónustu. Gert er ráð fyrir um tíu þúsund tonna framleiðslu á ári, en fallið hefur verið frá hugmyndinni um lífræna ræktun eins og fyrst var lagt upp með. Kristján segir hins vegar að lögð verði áhersla á vistvæna ræktun – eins og tíðkist víðast hvar í ylrækt á Íslandi.

Einhverjir kunna að hafa áhyggjur af ljósmengun frá svo stórum gróðurhúsum. Kristján segir hins vegar að starfsemin verði undanþegin umhverfismati. „Það er meðal annars vegna þess að gerðar eru ráðstafanir til að koma í veg fyrir hana. Það er gert með því að byrgja hana inni með sérstökum tjöldum sem verða sett í þak og hliðar. Þetta er tölvustýrður búnaður eftir ljósmagni úti. Þar sem þetta er fyrst og fremst hugsað sem vetrarframleiðsla hérna – til að mæta eftirspurn eftir góðri vöru á þeim tíma í Evrópu – verður ljósið nánast alfarið byrgt inni hér yfir kaldasta og dimmasta tímann. Þá er tilgangurinn tvíþættur; að koma í veg fyrir varmatap og koma í veg fyrir ljósmengun.“

Kristján bætir því við að lokum að framleiðslan sjálf, eða ræktunin, verði leigð út. Um breskt fyrirtæki sé þar um að ræða, en það hefur reynslu af svipuðu fyrirkomulagi annars staðar. EsBro mun hins vegar sjá um reksturinn á gróðurhúsunum og allt sem viðkemur þeim. 

Skyldur lagðar á sveitarfélög

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, segir skyldur lagðar á sveitarfélög í ívilnunarsamningum. „Í lögum um ívilnanir eru skyldur lagðar á sveitarfélög um afslætti af fasteignasköttum ef ráðherra gerir ívilnunarsamning. Sveitarfélög gera það ekki beint, heldur í gegnum atvinnuvegaráðuneytið,“ segir Róbert.
 
Hann segir að á meðan ívilninunar­samningur liggi ekki fyrir sé erfitt að áætla fasteignagjaldatekjur. Eins sé erfitt að áætla hve margir starfsmenn muni eiga lögheimili í Grindavík og þar með greiða útsvar. 
Reykjanesið sé eitt atvinnusvæði og ljóst að fólk allsstaðar að af svæðinu muni sækja atvinnu í gróðurhúsið í Mölvík.
 
Í staðfestu aðal- og deiliskipulag fyrir Grindavík er gert ráð fyrir gróðurhúsi í Mölvík, í um níu km fjarlægð frá Grindavíkurbæ. 
 
Fjárfestingarsamningur liggur ekki fyrir
 
Að sögn Þórðar Reynissonar, lög­fræðings í atvinnu- og ný­sköpunar­ráðuneytinu og formanns ívilnunar­nefndar, liggur ekki fyrir fjár­festingarsamningur milli íslenskra stjórnvalda og hollenska fyrirtækisins EsBro, eins og fullyrt var í frétt Fréttablaðsins hinn 6. júní síðastliðinn. 
 
„Þegar umsókn um ívilnun berst ráðuneytinu er hún send til sérstakrar nefndar sem hefur það verkefni að meta hverja umsókn sérstaklega, þar með talið að meta efnahagsleg og samfélagsleg áhrif viðkomandi fjárfestingarverkefnis. Umsóknir innihalda vanalega viðkvæmar viðskiptaupplýsingar og því veitir ráðuneytið ekki eða takmarkaðar upplýsingar um einstaka verkefni,“ segir Þórður. 
 

3 myndir:

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...