Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Samtök fyrirtækja í landbúnaði voru stofnuð í mars og þar innanborðs eru allar stærstu kjötafurðastöðvar landsins.
Samtök fyrirtækja í landbúnaði voru stofnuð í mars og þar innanborðs eru allar stærstu kjötafurðastöðvar landsins.
Mynd / Bbl
Fréttaskýring 9. desember 2022

Fagna frumvarpi um heimild kjötafurðastöðva til samvinnu

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) undirbúa nú að stilla upp sinni starfsemi fyrir næstu vikur og mánuði – og manna samtökin í samræmi við hana. Verkefnin munu felast í því að laga umgjörðina utan um landbúnaðinn og úrvinnslu landbúnaðarafurða á Íslandi, til dæmis í tollamálum og varðandi mögulega samvinnu kjötafurðastöðva til hagræðingar í greininni.

„Matvælaráðherra setti nýlega inn á Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum varðandi aukna tímabundna heimild til handa aðilum í slátrun og vinnslu kjötafurða til að stofna með sér samstarf. Við fögnum þessu frumkvæði ráðherra og þeim skilningi sem hún sýnir greininni en slík breyting færir okkur nær því sem þekkist í Noregi og innan Evrópusambandsins (ESB),“ segir Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga og stjórnarformaður SAFL.

Góður grunnur að heimild til hagræðingar

„Frumvarpsdrögin eru í umsagnarferli og vonandi verða þau samþykkt á Alþingi á vorþingi. Fyrr er ekki hægt að ræða neina möguleika á hagræðingu í rekstri afurðastöðva í kjötiðnaði.

Við fyrstu sýn virðast frumvarps­ drögin geta orðið góður grunnur að heimild til hagræðingar í rekstri afurðastöðva í kjötiðnaði. SAFL vinnur nú að því að skila umsögn um frumvarpsdrögin.“

Einbeitum okkur að eigin starfsemi

SAFL voru stofnuð í marsmánuði með 20 fyrirtæki innanborðs, en formleg starfsemi hófst í júní. Sigurjón segir að lítið sé að frétta af mögulegri aðild að Samtökum atvinnulífsins (SA). „Samtalið heldur áfram á næstu vikum og jafnvel mánuðum, ekki síst vegna þess að kjarasamningsviðræður taka mikinn tíma stjórnenda SA um þessar mundir.

Aðild okkar samtaka að SA er ekki lykilatriði og þar sem ljóst er að það muni ekki skýrast á næstunni erum við bara að undirbúa að stilla starfsemi okkar upp á næsta ári og manna samtökin í samræmi við það skipulag.“

Landbúnaðurinn er grunnatvinnuvegur

Að sögn Sigurjóns hafa SA ekki verið móttækileg fyrir breytingum á sinni formgerð.

„SA hafa frá stofnun samtakanna ekki verið tilbúin til að breyta og aðlaga sína uppstillingu til að halda atvinnulífinu í einum samtökum og mörg félög hafa staðið utan samtaka.

Þessi stefna mun á endanum bara enda á einn veg að mínu mati. Skilningur er hins vegar að aukast á því að landbúnaðurinn er einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar og þarf rödd sem slíkur.

Nauðsynlegt er að rétta þann halla sem orðið hefur á umgjörð landbúnaðarins í samanburði við okkar nágrannaríki á síðustu tveimur áratugum – slíkt gerist ekki með aðild að SA í gegnum önnur aðildarfélög SA. Hagsmunir hinna ýmsu atvinnugreina eru oft mjög ólíkir og erfitt að samræma. Í Danmörku eru til dæmis engin virk regnhlífarsamtök atvinnulífsins, heldur stendur iðnaðurinn sér og það sama á við um landbúnaðinn og sjávarútveginn, verslunina og orkumálin – og það er umhugsunarefni fyrir okkur.“

Samvinna með Bændasamtökum Íslands

Sigurjón segir að ekki hafi komið til tals að SAFL verði einhvers konar aukaaðili að Bændasamtökum Íslands, en yfirstandandi séu viðræður við þau um hvernig samstarf þeirra í hagsmunagæslu fyrir landbúnaðinn geti verið sem mest og best. „Mikilvægt er að þessir aðilar vinni þétt saman þegar kemur að samtali við stjórnvöld um umgjörð landbúnaðar og úrvinnslu landbúnaðarafurða á Íslandi.“

Sigurjón nefnir tollamálin sem mikilvægt sameiginlegt hagsmunamál sem brýn þörf sé á að taka til endurskoðunar við stjórnvöld. „Í þeim málum og tollaeftirliti með innflutningi landbúnaðarvara er ljóst að um miklar brotalamir hefur verið að ræða lengi. Það sýna best fréttir sem birst hafa í fjölmiðlum undanfarin misseri um að skatturinn hafi endurákvarðað tolla svo nemi hundruðum milljóna króna á erlendar landbúnaðarvörur. Fjárhæðir í þeim málum benda til þess að verulegur innflutningur hafi átt sér stað á vitlausum tollskrárnúmerum.

Á þetta var bent af hagsmunaaðilum í landbúnaði og hefur sú vinna skilað miklum ávinningi fyrir bændur.“

Líklega eina Evrópuríkið án verðjöfnunargjalda

„Það er líka staðreynd að við erum líklega eina Evrópuríkið sem leggur ekki verðjöfnunargjöld á unnar landbúnaðarafurðir sem innfluttar eru sem hluti af öðrum matvælum, til dæmis ostur eða skinka á innfluttum frosnum pitsum, smjör í súkkulaði og svo framvegis.

Það er líka skoðun mín að við gerð tollasamninga á undanförnum áratugum erum við að hleypa hlutfallslega meira af landbúnaðarvörum inn til Íslands heldur en viðsemjendur okkar hleypa inn á sín markaðssvæði. Menn verða að meta þetta heildstætt. Það er vont ef íslensk stjórnvöld semja um tollalækkanir við önnur ríki, til dæmis ESB, en leggja ekki á verðjöfnunargjöld líkt og viðsemjandinn,“ segir Sigurjón.

Taka verður á tollaframkvæmd

Hann segist í raun ekki hafa neina skoðun á því hvort að tollar eða verðjöfnunargjöld séu af hinu góða eða vonda.

„Ég hins vegar veit að hjá öllum þeim vestrænu þjóðum sem við viljum bera okkur saman við – og vera í samstarfi við – er mun fastar tekið á eftirliti með innflutningi og tollframkvæmd landbúnaðarvara. Markmiðið er mjög skýrt – að tryggja innlenda framleiðslu landbúnaðarvara. Hér nægir að vísa til inngangskafla í reglugerðum ESB um verðjöfnunargjöld og afstöðu til dæmis Noregs og Sviss hjá EFTAsamtökunum um álagningu verðjöfnunargjalda. Við getum ekki spilað eftir öðrum reglum í þessum málum ef við viljum gæta þjóðarhagsmuna.

Mér sýnist einnig í ljósi þess sem verið hefur að gerast í heiminum á undanförnum árum og misserum að ríki heimsins herði enn meira utanumhald sitt um innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi sinnar þjóðar. Það sama á við um Ísland sem betur fer. Þörf er á hugarfarsbreytingu embættismanna og líklega aukinn starfskraft við tollaframkvæmd og tollaeftirlit, það hafa dæmin sýnt.“

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...