Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fiskur sem fáir hafa smakkað
Fréttaskýring 5. desember 2018

Fiskur sem fáir hafa smakkað

Höfundur: Guðjón Einarsson

Stærstur hluti Íslendinga hefur aldrei lagt sér grálúðu til munns. Samt er hún mikilvægur nytjafiskur sem færir þjóðarbúinu drjúgar tekjur, nánar tiltekið hátt í 10 milljarða króna árlega síðustu árin. Reyndar er grálúðan einn verðmætasti nytjafiskurinn á Íslandsmiðum miðað við afurðaverð reiknað út frá hverju kílói hráefnis upp úr sjó.

Hvítlúðu, sem við í daglegu tali köllum yfirleitt bara lúðu, þekkja allir enda vinsæll matfiskur svo langt sem elstu  menn muna. Framboð á hvítlúðu hefur þó minnkað í seinni tíð eftir að lagt var bann við beinni sókn í hana. Frænka hvítlúðunnar, grálúðan, er hins vegar minna þekkt meðal almennings enda yfirleitt ekki í boði þar sem neyslufiskur er til sölu. Það er hreinlega ekki hefð fyrir neyslu grálúðu hérlendis.

 

Veiðisagan ekki löng

Reyndar eiga veiðar á grálúðu við Ísland sér ekki langa sögu. Þær hófust ekki fyrr en á sjöunda áratug 20. aldarinnar og voru nær eingöngu stundaðar af útlendingum, mest Austur-Þjóðverjum og Rússum. Afli þeirra náði hámarki árið 1967 þegar hann nam um 30 þúsund tonnum. Hann minnkaði síðan jafnt og þétt niður í 10 þúsund tonn árið 1972.

Það var ekki fyrr en árið 1969 sem Íslendingar fóru að eltast við grálúðu að gagni og voru veiðar þeirra takmarkaðar allt til ársins 1977 þegar þær komust í 10 þúsund tonn. Afli okkar náði svo hámarki árið 1989 þegar hann komst í tæp 60 þúsund tonn en eftir það dró jafnt og þétt úr honum. Síðustu árin hefur afli íslenskra skipa verið 12–13 þúsund tonn.

Sameiginlegur stofn þriggja þjóða

Grálúðan finnst á norðlægum slóðum allt í kringum hnöttinn. Hana er að finna í Barentshafi, við Ísland, við Austur- og Vestur-Grænland og í Kyrrahafi (á ensku gengur grálúðan undir nafninu Greenland halibut eða Grænlandslúða). Stofninn sem við Íslendingar veiðum úr heldur sig á svæðinu A-Grænland-Ísland-Færeyjar og er því sameiginlegur stofn þriggja þjóða. Meðan ósamið var um veiðar úr stofninum var veitt langt umfram ráðgjöf fiskifræðinga því allir vildu veiðireynslu sína sem mesta þegar kæmi að samningum. Árið 2014 tókst samkomulag milli Íslands og Grænlands sem gerir ráð fyrir að í hlut Íslands komi 56,4% af ráðlögðum heildarafla. Það hefur samsvarað 13.500 tonnum síðustu tvö árin.

Góð mið á Hampiðjutorginu

Grálúðan er botnfiskur sem fundist hefur á 200–2.000 metra dýpi, sjaldan þó grynnra en á 400 metrum. Merkingar sýna að grálúða flækist frá Íslandi til Barentshafs, Færeyja og Hjaltlands og frá Grænlandi til Íslands. Við Ísland hefur grálúða fundist allt í kringum landið en hún er þó sjaldséð undan Suðurlandi. Mest er um hana í köldum djúpsjó, einkum undan Vesturlandi, en einnig úti af Norður- og Austurlandi.

Mestur afli fæst djúpt vestur af Látrabjargi á svokölluðu Hampiðjutorgi en sú nafngift á rætur að rekja til mikils veiðarfæratjóns togara á upphafsárum veiða á þessu svæði. Hampiðjan sem veiðarfæraframleiðandi „naut góðs“ af þessu skarki og þaðan er nafngiftin komin. Að öðru leyti fæst grálúðuaflinn einkum í landgrunnskantinum norður af Vestfjörðum í svokölluðum Norðurkanti og í kantinum norðaustan- og austanlands allt suður á sunnanverðan Færeyjahrygg.
Það sem sagt hefur verið hér að framan er að mestu byggt á bókinni Sjávarnytjar við Ísland eftir Karl

Gunnarsson, Gunnar Jónsson og Ólaf Karvel Pálsson fiskifræðinga og sömuleiðis á grein um grálúðuna eftir Viðar Helgason fiskifræðing sem birtist í tímaritinu Sjávarfréttum (3. tbl. 1990).

Nær allur aflinn fæst í troll og net

Botnvarpan er algengasta veiðarfærið á grálúðuveiðum og í hana veiddust 59% heildaraflans á  síðasta fiskveiðiári. Grálúðuveiðar í sérstök grálúðunet hafa verið að aukast á liðnum árum og veiddust 38% aflans með þeim hætti. Samanlagt komu því 97% aflans í  þessi tvö veiðarfæri en afgangurinn kom sem meðafli á línu og í rækjuvörpu.

Örfá skip veiða mest af aflanum

Grálúðuveiðar hafa þá sérstöðu að örfá skip veiða bróðurpartinn af heildaraflanum. Þar er togarinn Guðmundur í Nesi RE í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur (áður Brims) í sérflokki en hann hefur verið gerður út á grálúðu árið um kring og veiddi 3.295 tonn af grálúðu á síðasta fiskveiðiári (miðað við slægðan fisk). Það var 24% af heildaraflanum sem nam 13.589 tonnum. Annað skip sömu útgerðar, Brimnes RE, veiddi 1.919 tonn af grálúðu á fiskveiðiárinu. Þessi tvö skip veiddu því rúmlega 38% af heildinni.

Grálúðuafli í net nam 5.620 tonnum á síðasta fiskveiðiári og veiddu þrjú skip 80% aflans. Þau voru Kristrún RE (1.944 tonn), Anna EA (1.402 tonn) oig Þórsnes SH (1.142 tonn).

Verðmætur fiskur

Eins og fram kom í upphafi er grálúðan einn verðmætasti nytjafiskurinn á Íslandsmiðum miðað við afurðaverð reiknað á hvert hráefniskíló upp úr sjó. Á árunum 2015 og 2016 var útflutningsverðið 790–870 krónur reiknað á þennan hátt en til samanburðar má nefna að samsvarandi verð á þorski var þá 380–410 krónur. 

Árið 2016 nam útflutningur á grálúðu um 12.000 tonnum,  þar af fóru 88% til Asíulanda, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Víetnam var efst á blaði með um 3.100 tonn, en á eftir komu Japan með 2.700 tonn, Kína með 2.500 tonn, Hong Kong með 1.180 tonn og Taívan með 920 tonn.

Grálúðan af Íslandsmiðum er að langmestu leyti heilfryst um borð í frystiskipum á sjó. Þar er hún hausskorin og sporðskorin og eru hausarnir og sporðarnir líka frystir og seldir fyrir hátt verð. Hluti grálúðuaflans er unninn í frystihúsum í landi eða sendur ísaður utan í gámum. 

Feitur fiskur

Grálúðan er mjög feitur fiskur en  þannig fiskmeti fellur Asíubúum vel í geð. Íslendingar virðast hafa annan smekk og kannski af þeim sökum hefur þessi fisktegund ekki náð inn á matborð landsmanna þrátt fyrir aukna fjölbreytni í framboði á neyslufiski. Eða hreinlega að engum hafi dottið í hug að kynna þennan valkost fyrir neytendum.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...