Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Mynd / Teikning/Hlynur Gauti
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og tækniframfarir, aukin krafa um sjálfbærni, og líffræðilegan fjölbreytileika, ásamt áherslum á fæðuöryggi, munu ef að líkum lætur vega æ þyngra þegar fram í sækir.

Talið er að landbúnaður taki í framtíðinni stakkaskiptum vegna tækniframfara, loftslagsbreytinga og fólksfjölgunar á heimsvísu. Ætla má að búskapur verði mjög tæknilegur, sjálfbær og fjölbreyttur.

Sjálfvirkni og róbótar muni gegna ört vaxandi og æ mikilvægara hlutverki í ýmsum þáttum búskapar, allt frá gróðursetningu og uppskeru til þess að fylgjast með viðgangi hvers kyns ræktunar. Hvort þetta muni leiða til aukinnar hagkvæmni og minni launakostnaðar verður að koma í ljós en það er ein forsendan þegar horft er til framtíðar.

Að tryggja sanngjörn laun og vinnuskilyrði fyrir bændur verður svo langt sem augað eygir í brennidepli í landbúnaði.

Ýmsar alþjóðlegar stofnanir hafa rýnt í framtíðarmöguleika landbúnaðarins og sjá má á þeim spám að landbúnaður á heimsvísu verður áfram og enn ákveðnar fasttengdur fæðuöryggismálum jarðarbúa en einnig umhverfisvernd og loftslagsþróun, sem aldrei fyrr. Þetta eru stofnanir eins og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Alþjóðaefnahagsráðið (World Economic Forum/WEF), Alþjóða- matvælastefnu-rannsókna-stofnunin (International Food Policy Research Institute/IFPRI) og Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC).

Landbúnaður framtíðarinnar mun einkennast af mikilli tæknivæðingu, sjálfbærni og fjölbreytileika. Framfarir í sjálfvirkni, gervigreind, nákvæmnislandbúnaði og erfðabreytingum skipta þar miklu. Mynd / IGN

Nákvæmnislandbúnaður grunnviðmið

Nákvæmnislandbúnaður, sem felur í sér að nota gögn og tækni til að taka upplýstari ákvarðanir, verður algengur og notaður sem grunnviðmið.

Slíkur landbúnaður, m.a. með GPS, skynjurum, drónum, róbótum, sýndarveruleika og gagnagreiningum, mun væntanlega gera bændum kleift að nýta auðlindir betur og auka framleiðni. Samþætting sjálfvirkni og gervigreindar mun að líkindum aukast verulega. Vélmenni, drónar og annar háþróaður tæknibúnaður verður æ meira notaður við t.d. sáningu og gróðursetningu, uppskeru, fóðrun og allt eftirlit og mælingar í rauntíma.

Gervigreind mun áætla hvernig hámarka má uppskeru, halda utan um gæðastjórnun á jarðvegi, spá fyrir um veðurfar og bæta auðlindastjórnun. Þetta er talið munu leiða til skilvirkari nýtingar auðlinda og minni umhverfisáhrifa.

Nákvæmnislandbúnaður með skynjurum, drónum og gagnagreiningum gerir bændum kleift að nýta auðlindir betur og auka framleiðni. Mynd / AT

Auðgandi landbúnaður lykillinn

Með vaxandi fjölda jarðarbúa og ríkari áherslu á sjálfbærni er líklegt að landbúnaður setji sjálfbærar aðferðir í auknum mæli í forgang. Þar kemur auðgandi (jarðvegsbætandi) landbúnaður (e. Regenerative Agriculture) sterkur inn en þess háttar landbúnaður miðar að því að endurheimta jarðvegsheilbrigði, vernda og auka líffræðilegan fjölbreytileika, vistkerfisheilbrigði og að auka kolefnisbindingu. Búist er við að þessi nálgun muni gegna mikilvægu hlutverki í landbúnaði með því að stuðla að aðferðum eins og lágmarks jarðvinnslu, þekjuuppskeru, skiptiræktun og landbúnaðarskógrækt (e. Agroforestry).

Skv. Agroforestry Center (ICRAF), alþjóðlegri rannsóknarstofnun sem leggur áherslu á landbúnaðarskógrækt og sjálfbært landskipulag, má ætla að landbúnaðarskógrækt verði í auknum mæli notuð til jarðvegsbóta í framtíðinni, sérstaklega á svæðum þar sem hætta er á skógareyðingu eða niðurbroti. Er landbúnaðarskógrækt sögð stuðla að fæðu- og næringaröryggi á ýmsa vegu. Úr skógum kemur alls konar matur beint – ávextir, grænmeti, hnetur, fræ og sveppir, auk veiðibráðar og skordýra. Óbeint geta skógar stutt við fæðuframleiðslu sem uppspretta fóðurs fyrir búfénað, eldsneytis til eldunar matar og sem tekjulind sem nýtist meðal annars til matvælakaupa.

Viðhald fjölbreytileika

Svokölluð endurheimtarvistfræði mun að sögn alþjóðastofnana verða áberandi en hún miðar að endurheimt skaðaðra vistkerfa og að færa þau til náttúrulegs ástands.

Á næstu áratugum er líklegt að horft verði æ meira til þess að endurnýja upprunalegar (e. native) plöntutegundir, endurheimta votlendi og skóga og auðga rýrt landslag. Fjölbreytni ræktunarafbrigða sem ræktuð eru á býlum getur aukið viðnám gegn meindýrum, sjúkdómum og loftslagssveiflum.

Viðhald erfðafræðilegs fjölbreytileika er sem kunnugt er mikilvægt fyrir fæðuöryggi til lengri tíma litið. Verndun frævunarstofna eins og býflugna er nauðsynleg fyrir frævun ræktunar og til viðhalds líffræðilegs fjölbreytileika. Bændur munu leitast við að innleiða aðferðir sem styðja við frævunarbúsvæði á landi sínu.

Með aðferðum hringrásarhagkerfisins er talið að bændur finni í vaxandi mæli leiðir til að endurnýta landbúnaðarúrgang í verðmætar auðlindir eins og lífeldsneyti eða lífrænan áburð. Þessi nálgun getur stuðlað að nýtingu auðlinda og minnkun úrgangs.

Lífrænar ræktunaraðferðir gætu jafnframt orðið algengari eftir því sem fram vindur þar sem neytendur, í það minnsta einhver hluti þeirra, krefjist fæðu sem framleidd er án tilbúinna efna.

Sömuleiðis er talið að eftir því sem áhyggjur af umhverfisáhrifum dýraræktar aukast, gæti áhersla á plöntubundna valkosti í próteinframleiðslu orðið sterkari. Þetta gæti leitt til aukinnar ræktunar á t.d. sojabaunum og belgjurtum.

Áhyggjur af velferð dýra í búfjárrækt eiga mögulega eftir að valda breytingum á því hvernig dýr eru ræktuð og meðhöndluð á býlum. Tækni eins og nákvæmnisbúfjárrækt gæti bætt vellíðan dýra.

Búist er við að eftirspurn eftir öðrum próteingjöfum, svo sem kjöti sem ræktað er á rannsóknarstofu og fjölbreyttari jurtaafurðum, aukist. 

Þetta gæti sömuleiðis leitt til breytinga í hefðbundinni búfjárrækt og aukinnar áherslu á sjálfbærari og mannúðlegri aðferðir í henni þar sem pottur er brotinn í þeim efnum.

Erfðatækni og líftækni á fullri ferð

Neytendur eru að verða meðvitaðri um hvaðan fæða þeirra kemur og hvernig matur er framleiddur. Þessi þróun gæti ýtt undir aukið gagnsæi í landbúnaðargeiranum og leitt til aukinnar vottunar á sjálfbærum búskaparháttum.

Framfarir í líftækni gætu opnað á einstaklingsmiðaða næringu, sérsniðna að þörfum hvers og eins. Þetta gæti í framtíðinni haft áhrif á ræktunartegundir og aðferðir sem notaðar eru til matvælaframleiðslu.

Vísindamenn munu vinna hörðum höndum að því að þróa ræktun nytjajurta með auknu næringarefnainnihaldi sem þola erfið veðurskilyrði, svo sem þurrka, flóð og hitabylgjur, og hafa seiglu gegn meindýrum. Þessi þolna ræktun gæti skipt sköpum til að tryggja fæðuöryggi í breyttu loftslagi, t.d. á illa förnum eða rýrum ræktunarsvæðum.

Þá má ætla að líftækni, svo sem erfðatækni, verði beitt enn frekar í þróun aðferða í ræktun nytjaplantna til að efla þol fyrir loftslagsbreytingum, meindýrum og sjúkdómum. Þá er erfða- og sameindafræðileg þekking notuð til að framkalla breytingar á erfðamengi lífvera og eða stjórnferlum þeirra.

Ekki eru allir jafnhrifnir af slíku og telja slíkt genafikt geta leitt til óheilbrigðis og tegundarýrðar. Hafa skapast um þetta hatrammar deilur á síðari árum. Erfðabreytingar á plöntum og dýrum munu þó líklega verða útbreiddar í framtíðinni og leiða til ræktunar sem er ónæmari fyrir meindýrum, sjúkdómum og loftslagsbreytingum auk annarra ófyrirsjáanlegra áhrifa.

Tilbúin líffræði, sem felur í sér hönnun og smíði nýrra líffræðilegra kerfa, er jafnvel sögð munu leiða til nýrra stofna uppskeru og búfjár.

Loftslagsbreytingar stórfelld áskorun

Loftslagsbreytingar eiga eftir að skapa stórfelldar áskoranir fyrir landbúnað í framtíðinni. Víða gætu bændur þurft að laga sig að breyttu veðurmynstri, öfgakenndum veðuratburðum og breyttri hegðun meindýra. Þróun þurrkaþolinnar ræktunar, vatnsnýtnari áveitukerfa og loftslagssnjallra landbúnaðarhátta verður nauðsynleg til að tryggja fæðuöryggi í breyttu loftslagi.

Skilvirk vatnsstjórnunartækni, eins og dreypiáveita og vatnsendurvinnslukerfi, verður nauðsynleg til að vernda vatnsauðlindir og draga úr áhrifum vatnsskorts á landbúnað. Þar sem takmarkað ræktanlegt land er tiltækt getur lóðrétt ræktun, þar sem notuð er vatns- eða loft- ræktun, orðið algengari.

Þessar aðferðir fela í sér að rækta uppskeru í lóðrétt stöfluðum lögum, sem gerir ráð fyrir meiri uppskeru í smærri rýmum árið um kring í stýrðu umhverfi. Því er spáð að vegna mannfjöldaaukningar muni fólk í auknum mæli sækja í borgir í framtíðinni.

Borgarlandbúnaður verði því sífellt mikilvægari fyrir matvæla- framleiðslu. Þakgarðar, lóðréttur búskapur, vatnsræktun og samfélagsgarðar eru dæmi um ræktun í þéttbýli.

Alþjóðlegt fæðuöryggi

Að tryggja alþjóðlegt fæðuöryggi verður áfram keppikefli. Þar sem spáð er að íbúar heimsins nái næstum 10 milljörðum árið 2050 verður aukinn þrýstingur á landbúnaðargeirann að framleiða meiri mat á sjálfbæran hátt. Nýjungar í búskaparháttum munu skipta sköpum til að mæta þessari vaxandi eftirspurn. Stefna og reglugerðir stjórnvalda munu augsýnilega gegna mikilvægu hlutverki við að móta framtíð landbúnaðar.

Líklegt er að stjórnvöld hvetji í ríkara mæli sjálfbæra búskaparhætti með styrkjum, reglugerðum og rannsóknarfjármögnun. Þar má meðal margs annars nefna hvata til sjálfbærrar landnýtingar, verndaráætlanir, kolefnisverðlagningu og landskipulagsáætlanir.

Að hvetja til umhverfisvænni vinnubragða getur skipt sköpum í að tryggja langtímahagkvæmni landbúnaðar.

Framfarir í landbúnaðartækni og starfsháttum munu skv. spám verða lykillinn að því að mæta vaxandi eftirspurn eftir matvælum en lágmarka umhverfisáhrif. Alþjóðleg samvinna og miðlun gagna meðal bænda, vísindamanna og stefnumótenda á eftir að verða æ mikilvægari til að takast á við alþjóðlegar áskoranir eins og fæðuöryggi, loftslagsbreytingar og auðlindaskort. Alþjóðlegt samstarf og fjárfestingar í rannsóknum og þróun landbúnaðar verða nauðsynlegar til að takast á við matvælaskort og dreifingaráskoranir.

Viðleitni til að draga úr matarsóun um alla aðfangakeðjuna verður sífellt mikilvægari. Tæknilausnir sem stuðla að betri geymslu, flutningi og dreifingu matvæla munu minnka sóun.

Sérhæfðari menntun og aukið samstarf

Eftir því sem búskapur verður tæknivæddari skapast meiri þörf fyrir sérhæfða menntun og þjálfun til að tryggja að bændur hafi nauðsynlega kunnáttu til að laga sig að þessum breytingum. Menntun þeirra mun því eflast og verða enn sérhæfðari.

Netvettvangur til að deila þekkingu og bestu starfsvenjum meðal bænda um allan heim mun halda áfram að vaxa að mikilvægi. Samstarfsnet auðvelda nýsköpun og gagnast við að takast á við þær sameiginlegu áskoranir sem bændur standa frammi fyrir.

Samfélagsleg viðhorf til landbúnaðar gætu þróast með tímanum, með aukinni viðurkenningu á því hlutverki bænda að útvega nauðsynlegar vörur, á sama tíma og bændur gæta náttúruauðlinda á ábyrgan hátt. Að styrkja tengsl milli neytenda í þéttbýli og dreif- býlisframleiðenda með frumkvæði eins og landbúnaðarferðamennsku eða sölu beint til neytenda gæti rennt frekari stoðum undir gagnkvæman skilning og stuðning við staðbundinn landbúnað.

Allir á sama báti

Hér er auðvitað mörgum þáttum sleppt vegna takmarkaðs pláss en þó tæpt á ýmsum lykilþáttum í framtíðarmyndinni. Þótt horft sé til jarðar allrar er ekki ástæða til að ætla að íslenskur landbúnaður fari varhluta af þeim breytingum og áskorunum sem eru í farvatninu.

Samandregið mætti álykta sem svo að landbúnaður framtíðarinnar muni einkennast af mikilli tæknivæðingu, sjálfbærni og fjölbreytileika.

Framfarir í sjálfvirkni, gervigreind, nákvæmnislandbúnaði og erfðabreytingum munu gegna mikilvægu hlutverki í að móta framtíð matvælaframleiðslu, um leið og tekist er á við alþjóðlegar áskoranir eins og loftslagsbreytingar og auðlindaskort. Mikilvægi landbúnaðarins hefur alltaf verið afar mikið og á enn eftir að aukast þegar fram líða stundir. Bóndi er bústólpi, bú er landstólpi.

Nauðsynlegt að undirbúa jarðveginn

Helgi Eyleifur Þorvaldsson

Helgi Eyleifur Þorvaldsson aðjunkt starfar á sviði Ræktunar og fæðu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ). Hann er með mastersgráðu í viðskiptastjórnun með áherslu á frumkvöðlafræði og nýsköpun og kennir fög skyld þeim fræðum og fóðurfræði við stofnunina.

Helgi segist telja íslenskan landbúnað á svipuðum stað í þróun og er í Evrópu. Þar séu vissulega miklu stærri bú þótt þau séu á öllum stærðarskala. „Við fylgjum upp að einhverju marki evrópsku landbúnaðarstefnunni sem er umdeild: mörgum þykir hún beinlínis fornaldarleg á meðan aðrir fagna henni,“ segir hann. Hann tekur sem dæmi erfðabreyttar plöntur (GMO) en skoðanir á því séu skiptar. Sú staða að vera mjög háður innflutningi á próteingjöfum geti verið varhugaverð og þjóðaröryggismál fyrir álfuna í heild. Mikið þurfi t.d. að flytja inn af sojamjöli til að anna eftirspurn.

Spurningin verði alltaf hvernig tryggja eigi fæðuöryggi. „Satt best að segja held ég að við horfumst ekki í augu við raunveruleikann þegar kemur að þessum málum. Við erum á móti breytingum á t.d. plöntum en erum samt svo háð innflutningi á slíkum próteingjöfum,“ bætir hann við. Helgi segir mjög áhugavert að fylgjast með þróun stofnfrumukjöts og er sannfærður um að það muni ryðja sér til rúms á komandi árum. „Ég held að við ættum bara að fagna því. Ég get, fyrir mitt leyti, ekki séð að það ógni hefðbundnum dýraafurðum á neinn hátt og býst við að þörf verði á hvort tveggja,“ segir hann. Við þetta má svo bæta að unnið er að þróun skordýrapróteins og m.a. verið að skoða hvernig nýta má það í t.d. brauð o.fl. til að hækka próteininnihald.

Byggja þarf upp jarðrækt

„Tækifærin í landbúnaði á Íslandi eru óþrjótandi,“ segir Helgi. „Ég komst að því þegar ég vann að kornskýrslunni Bleikir akrar með félögum mínum að það jarðnæði sem við búum yfir, þessi frjósama jörð, mætti nýta mikið betur. Við höfum sterkan fókus á hinar hefðbundnu landbúnaðargreinar en það vantar hvata til að fýsilegt sé fyrir fólk að fara í meiri jarðrækt; í korni, grænmeti, rótarávöxtum o.s.frv. Kerfið okkar er ekki byggt í kringum það og er ástæða þess að jarðræktin byggist ekki betur upp en raun ber vitni.“ Umræðan hnígi jafnan í átt til þess að ef byggja eigi upp jarðrækt verði að klípa af hinum greinunum en þar sé ekki af neinu að klípa.
„Við höfum verið í fasa niður á við í stuðningi og hin síðari ár verið í n.k. plástrakerfum, sem mætti kalla sprettviðgerðir. Við ættum þess í stað að vera að horfa fram í tímann. Ekkert lát virðist ætla að verða á mannfjöldaaukningu, þótt spár bendi til að toppnum verði náð í um 11 milljörðum jarðarbúa, og okkur er ekki að takast að minnka matarsóun svo neinu nemur, vegna þess að hugarfarsbreytingin sem það kallar á nær ekki í gegn. Við þurfum því að auka framleiðni og hér eru ótrúlega spennandi tækifæri ef gerð yrði umgjörð í kringum það. Farsælla væri ef stjórnvöld myndu horfa 50 ár fram í tímann en ekki eitt kjörtímabil. Jarðrækt getur orðið hörkubúgrein þegar fram í sækir og hver veit nema verði af henni útflutningstekjur einhvern tímann.“ Því beri þó að fagna að stjórnvöld séu að stíga rétt skref, t.d. með því að fjármagna kornrækt sérstaklega.

Nákvæmnisbúskapur kemur sterkur inn

Helgi er hrifinn af nákvæmnisbúskap og segir frábæra þróun vera að eiga sér stað í þeim efnum. „GPS, drónar, vefmyndavélar, örmerki, sjálfkeyrandi dráttarvélar og -vélar í öllu, róbótar sem tína upp illgresi, taka myndir af plöntunum og sverðinum og gefa upplýsingar um hvað vantar: allt er þetta mjög til bóta og fer miklu betur með land og næringarefni, og sóun því minni en ella. Þetta er afar spennandi og skemmtilegt en skuggahliðin kannski sú að þessu fylgir félagsleg áskorun. Hver bóndi og vinnandi maður kemst yfir miklu meira og það hefur valdið fólksfækkun í landbúnaði,“ segir hann.

Fólk hefur spreytt sig á nákvæmnisbúskap hérlendis og má ætla að þar sé Björgvin Harðarson í Laxárdal í hópi þeirra sem fremstir eru í flokki og haldi að mörgu leyti í við nýjustu þróun í umheiminum. „Hann er útpældur, setur sig inn í öll smáatriði og hvaða tímapunktur henti best til hvaða aðgerða í sinni jarðrækt. Hann er því að fá mjög góða uppskeru alla jafna og einn af þeim bændum sem hafa sýnt okkur að kornrækt er vel gerleg ef menn bara stunda hana eins og aðrar búgreinar,“ segir Helgi.

Kúabændur séu margir hverjir á mjög flottum stað með sín fjós og alveg á pari við það sem sé nýjast í þróun. „Ný fjós í dag eru almennt mjög vel tækjum búin og ég sé ekki að það sé neitt frábrugðið því sem er að gerast erlendis. Sauðfjárbændur eru líka að gera góða hluti með t.d. örmerkjum og sjálfvirkum færslum í gagnagrunna.

Að mínu mati erum við helst eftirbátar þegar kemur að jarðvegstækni; jarðvinnslutækni, t.d. hvað varðar dróna og sjálfkeyrandi vélar. Þessi tækni er þó ekki komin neitt gríðarlega langt víða erlendis. Jóhannes Sveinbjörnsson hjá Landbúnaðarháskólanum mun taka þátt í evrópskri rannsókn á þessum efnum, þar sem könnuð verður ný tækni til stýringar á beit jórturdýra á úthaga, svo sem GPS-staðsetningarbúnaður og allt því tengt, þar á meðal sýndarveruleikagirðingar, notkun rafrænna merkja í skýrsluhaldi, skráningu, meðhöndlun búfjár (flokkunar hlið/gangar/ ragbúnaður), notkun dróna o.s.frv.“

Menntun bænda þarf að breytast

Spyrja má hvernig menntun bænda skuli háttað þegar starfsumhverfi þeirra verður æ tæknivæddara. Helgi, sem er deildarstjóri búfræðibrautar við LbhÍ, segir þetta umhugsunarefni. Brátt renni sá tími upp að endurskoða þurfi í heild þá menntun sem bændum er boðið upp á. Menntunin í dag sé alhliða og þannig mjög fjölbreytt en m.a. tækniumhverfið kalli mögulega á sértækari menntun.

„Ég reikna með að það verði mun algengara eftir svo sem tuttugu ár, sem við sjáum víða í nágrannalöndum okkar, þar sem sá sem ætlar að verða kúabóndi er eingöngu kúabóndi og er t.d. ekki að heyja. Það er bara fullt starf að reka 200–300 kúa bú og verktakar annast heyskapinn fyrir viðkomandi. Og þá er spurning um menntun verktakanna og þekkingu þeirra á tækniþróuninni. Og þannig koll af kolli,“ segir Helgi. Vissulega séu þó líka miklir kostir við að bændur hafi alhliða þekkingu á sem flestum hliðum landbúnaðar.

Hver á að draga vagninn?

Spurt er hvað gerast þurfi til að íslenskir bændur innleiði bestu hugsanlegu landbúnaðarhætti og þróun í sinn búskap.

„Að hluta til held ég að stjórnvöld þurfi að stíga inn og marka skýrari stefnu,“ svarar Helgi og heldur áfram: „Núverandi landbúnaðarstefna fer ekki mikið á dýptina í hverjum kafla, þótt ég fagni því að loks sé til landbúnaðarstefna á Íslandi. Að sama skapi má segja að LbhÍ þurfi að reyna að leiða þetta með kennslu. Stofnunin hefur allt frá hruni glímt við fjársvelti og niðurskurð, með tilheyrandi erfiðleikum og fáliðun í starfsmannahaldi, en hefur á síðustu árum rétt aðeins úr kútnum. Því hefur svigrúm til þróunarvinnu verið takmarkað.

Eitt af því sem nærtækt gæti verið að gera er að auglýsa launaðar masters- og doktorsgráður í því sem við teljum að þurfi, svo sem í nákvæmnisbúskap í jarðrækt, til að búa til sérfræðingana sem síðan geta dregið vagninn áfram,“ segir hann jafnframt. Helgi telur að stjórnvöld, LbhÍ og Bændasamtök Íslands þurfi að vera leiðandi aðilar í þróun landbúnaðarins. „Við þurfum að spyrja að því hvar við ætlum að vera eftir 20 ár, 50 ár og 100 ár. Hvað sé að gerast í þróuninni og hvað sé líklegt til að komast í gegnum alla nýsköpunarfasa og verða raunverulega á markaði, bæði í tækniþróun og t.d. stofnfrumuframleiðslu. Hvernig við ætlum að bregðast við þessu, hver séu tækifærin, styrkir, áskoranir og ógnir og hvernig við undirbúum best jarðveginn fyrir það sem koma skal.“

Bændur munu í vaxandi mæli þurfa að tileinka sér hátækniþekkingu. Mynd / CGTN

Greina þurfi og bæta búskaparhætti

Sigurpáll Ingibergsson hjá sjálfbærnihugveitunni Hellnaskeri og gæðastjóri Vínbúðarinnar, hefur velt íslenskum landbúnaði fyrir sér og horfir til framtíðar. Hann telur nokkuð skorta á uppbyggilega gagnrýni á búskaparhætti á Íslandi.

Hefðbundinn landbúnaður hafi fylgt þjóðinni frá landnámi og eigi djúpar rætur og hefðir. Umræðan endi því oft án nægilega góðrar niðurstöðu. „Landbúnaðurerstórtloftslagsmálognýlegavoru búvörusamningar endurnýjaðir án mikilla breytinga,“ segir Sigurpáll. Erlendis sé mikil þróun í búskaparháttum og mikið af nýjum ræktunaraðferðum.

„Samtal um landbúnaðarmál á að byggja á trausti, virðingu fyrir þekkingu og reynslu bænda, og opnum huga fyrir nýjum lausnum og hugmyndum,“ segir hann. Hugsa þurfi búskaparmálin upp á nýtt.Slíktgætistuðlaðaðbetrisýnámöguleikaá endurbótumognýjungumílandbúnaðisemgeti aukið sjálfbærni og hagkvæmni.

Hvað umhverfisáhrif varðar segir Sigurpáll að í ljósi loftslagsbreytinga sé mikilvægt að skoða hvernig hægt er að draga úr umhverfisáhrifum landbúnaðar, til dæmis með því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, bindingu og landnotkun. Þá þurfi að huga að því hvernig bæta megi lífsskilyrði búfjár og tryggja að dýrin njóti góðrar meðferðar.

Einnig þurfi að stuðla að fæðuöryggi. „Greina þarf og bæta búskaparhætti. Spyrja ætti hvort hægt sé að auka framleiðslugetu og stuðla að auknu fæðuöryggi á Íslandi, sérstaklega í ljósi breytilegra veðurfarsaðstæðna og óstöðugleika í heiminum.“ Hann hvetur jafnframt til rannsókna og þróunar í landbúnaðartækni og aðferðum sem eru betur aðlagaðar að íslenskum aðstæðum.

Horfa þurfi út fyrir landsteina
Sigurpáll Ingibergsson

Hvað varðar íslenska búskaparhætti segist Sigurpáll fyrst og fremst vilja sjá meiri sjálfbærni og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni. „Það eru margar nýjar ræktunaraðferðir erlendis og flestar nær óþekktar hér á landi.

Þrjú hugtök setja sterkan svip á alþjóðlegar landbúnaðarumræður um þessar mundir. Það er auðgandi landbúnaður (e. regenerative agriculture), kolefnisbúskapur (e. carbon farming) og nákvæmnisbúskapur (e. precision farming). Ekki er vitað hvort þetta á allt við hér á landi en það eru spennandi tækifæri fram undan. Þó skortir frumkvæði og stuðning stjórnvalda við að ryðja brautina og opna tækifæri fyrir nýsköpun.“ Hann bendir á að ef vel takist til í slíkri vegferð þurfi minna af aðföngum, t.d. áburði og olíu.

Endurheimt votlendis segir Sigurpáll nauðsynlega fyrir eflingu á líffræðilegum fjölbreytileika og græða þurfi tapað land. Efla verði stuðning við lífrænan landbúnað. „Vaxandi eftirspurn er eftir lífrænum afurðum meðal íslenskra neytenda. Lífrænn landbúnaður leggur áherslu á umhverfisvænar aðferðir sem eru í samræmi við sjálfbærni og velferð dýra. Markmið í Evrópu fyrir 2030 er að 25% af ræktarlandi sé lífrænt. Danir eru með 30% en Ísland setur stefnuna á 10%.

Það er ekki nógu metnaðarfullt markmið og miðað við stöðuna hér á landi í dag er ég ekki viss um að það takist,“ segir hann jafnframt.

Hann vill sjá að við kynslóðaskipti í landbúnaði taki kolefnisbændur við keflinu. „Þeir framleiði sjálfbærar vörur og bindi kolefni í jörð, verði kolefnisjákvæðir og hafi tekjur af því að selja vottaðar kolefniseiningar. Einnig geta ferðamenn komið í heimsókn, hlaðið rafbíla og keypt heilnæmar og vottaðar vörur,“ bætir hann við.

Stjórnvöld fari ekki að eigin stefnu

„Í matvælastefnu til 2030 segir m.a.: „Opinber stuðningur við landbúnað þarf að styðja markmið um sjálfbæra framleiðslu.“ Ég er ekki viss um að með endurnýjun búvörusamnings sé þessikrafauppfyllt.Ísamningnumerviðmiðið mjólkurlítrar eða fallþungi dilka,“ segir Sigurpáll og bendir á dæmi um kolefnisspor hefðbundins búskapar og annarra matvæla:

„Samkvæmt útreikningum Environice er losun 28,6 kg CO2/kg fyrir sauðfé og svipað fyrir nautgripi. Ólafur Arnalds telur að kolefnissporið sé rúmlega 200 kg CO2/kg fyrir sauðfé þegar landeyðing er reiknuð með,“ segir hann og heldur áfram: „Þorskur sem veiddur er af togara losar um 5 kg CO2/kg og ef hann er veiddur á línu þá er kolefnissporið 1,6 kg. Kjúklingur og svínakjöt eru um 5 kg CO2/kg. Það þarf að hafa þessar losunartölur í huga þegar stefna um matvælaöryggi er mótuð fyrir Ísland.

Ein áhrifarík leið til að minnka losun frá nautgriparækt er að rannsaka fóður. Ég hef séð að ef þörungar eru nýttir þá minnki losun töluvert. Þarna er tækifæri fyrir nýsköpun; rækta þara og minnka kolefnisspor nautgripa.

Síðan segir í matvælastefnunni: „Draga þarf úr kolefnislosun og auka bindingu kolefnis í landbúnaði með landgræðslu og skógrækt og endurheimt votlendis. Auka þarf rannsóknir á kolefnisbindingu lífræns og hefðbundins landbúnaðar.Komaþarfívegfyrirkolefnislosun með því að græða upp land sem er í slæmu ástandi og stöðva jarðvegsrof.“

Allt framangreint smellpassar við matvælastefnu Íslands til 2030 en stjórnvöld og kerfið eru ekki að fara eftir stefnunni,“ segir Sigurpáll að endingu.

Skylt efni: nákvæmisbúskapur

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...