Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Bandarísk rannsókn sýnir að ef nautgripir eru meðhöndlaðir með ákveðnum hætti í öllu ræktunarferlinu geta grasfóðraðir nautgripir verið það sem kallað er kolefnisneikvæðir (carbon-negative) til styttri tíma.
Bandarísk rannsókn sýnir að ef nautgripir eru meðhöndlaðir með ákveðnum hætti í öllu ræktunarferlinu geta grasfóðraðir nautgripir verið það sem kallað er kolefnisneikvæðir (carbon-negative) til styttri tíma.
Mynd / Civil Eats
Fréttaskýring 20. maí 2019

Fullyrðingar um skaðsemi jórturdýra á loftslagið oft á miklum villigötum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Fullyrðingar um að gróður­húsaáhrif búfjárstofna á loftslag séu svo alvarleg að best væri að hætta allri neyslu á kjöti virðast ekki standast skoðun. Oftast fylgja engin tölfræðileg gögn slíkum fullyrðingum og aragrúa rannsókna sem vísað er til ber alls ekki saman. Þá gleymist yfirleitt líka að taka inn í reikninginn að metangas, sem oftast er nefnt sem helsti skaðvaldurinn, eyðist í andrúmsloftinu á átta árum og er líka mikilvægt næringarefni örvera í jarðvegi. 
 
Ein fullyrðingin segir að ein kýr framleiði jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum á ári og bíll sem ekið er 50.000 kílómetra. Svo segja aðrir að þegar tré deyr og rotnar losi það jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum og bíll sem ekið er 200.000 km. Samkvæmt þessari speki væri þá væntanlega rökrétt að draga þá ályktun að best sé að útrýma öllum kúm á jörðinni og hætta að gróðursetja tré. Þegar farið er að skoða þessi mál í samhengi hlutanna er alveg ljóst að yfirlýsingagleðin er komin langt út yfir öll eðlileg mörk. 
 
Forfaðir þeirra nautgripa sem ræktaðir hafa verið er oft talin vera tegund sem hét „aurochs“ og var af villtum stofni evrasíu-uxa. Síðasta dýrið af þessari tegund er talið hafa verið fellt af veiðimanni nærri borginni Varsjá í Póllandi árið 1627.
 
Grasfóðruð jórturdýr hlutlaus í myndun gróðurhúsalofttegunda
 
Í sumum skýrslum og gögnum um losun gróðurhúsalofttegunda er fullyrt að nautgripir standi fyrir losun á metani (CH4) sem samsvari um 50% af ígildi losunar á koltvísýringi á heimsvísu. Aðrar „vísindalegar“ skýrslur segja 36%, 26%, eða 18% og jafnvel 16%. Í úttekt Swiss Bio Farmer 2017 eru allar þessar fullyrðingar slegnar út af borðinu og bent á þá staðreynd að kýr séu hluti af náttúrulegri hringrás þar sem taka verði inn í dæmið kolefnis- og metanbindingu í jarðvegi og ýmislegt fleira. Þar er m.a. bent á að rannsóknir sýni að mikill fjöldi baktería og örvera í jarðvegi sem kallaðar eru „methanotrophs“ eða „methanophiles“ nærast á metani og séu þannig hluti af þessari hringrás lífs á jörðinni. Slíkar örverur þrífast einmitt best þar sem mikil losun getur verið á metani, eins og í mýrum og í sjó, og spila mjög mikilvæga rullu í þessari líffræðilegu hringrás. 
 
Í ljósi áhrifa örvera á metanlosun búfjár segir í úttekt Swiss Bio Farmer að þar sem kýr lifa og skíta, samsvari losun frá einni kú því sem „methanotrophic bakteríur“ gleypa í sig á 3,4 hekturum gróðurlands. Þannig sé metanlosun frá grasfóðruðum kúm nokkurn veginn í jafnvægi við það sem örverur gleypa í sig. Áhrifin af nautgriparækt á hækkun hitastigs af völdum þess sem nefnt er gróðurhúsaáhrif séu því sáralítil eða engin. Svo ekki sé minnst á þá vísindalegu niðurstöðu að metan brotnar mjög hratt niður í andrúmsloftinu. Gróðurhúsaáhrif metans sem í flestum fullyrðingum eru sögð vera 21-–28 sinnum meiri en koltvísýrings fær vart staðist ef tekið er tillit til þess að meðal líftími metans sem sleppur út í andrúmsloftið er ekki nema 8,4 ár.
 
Kolefnishlutleysi grasfóðraðra nautgripa
 
Í maí 2018 voru birtar niðurstöður í tímaritinu Agriculturar Systems, úr fimm ára rannsókn sem stýrt var af teymi vísindamanna frá Michigan ríkisháskólanum í Bandaríkjunum (MSU) og Sambandi ábyrgra vísindamanna (Union of Concerned Scientists - UCS). Þar kom fram að ef nautgripir eru meðhöndlaðir með ákveðnum hætti í öllu ræktunarferlinu geta grasfóðraðir nautgripir verið það sem kallað er kolefnisneikvæðir (carbon-negative) til styttri tíma og kolefnishlutlausir (carbon-neutral) til lengri tíma. 
 
Rannsóknin var leidd af Paige Stanley sem lauk mastersprófi frá MSU 2017 og hefur síðan stundað doktorsnám við Berkeley-háskóla í Kaliforníu. Hann segir að mögulegt sé til lengri tíma að norðurhluti Miðvesturríkja Bandaríkjanna geti með nautgriparækt lagt meira til loftslagsmála en menn hafi áður talið með stýrðri grasbeit (Adaptive Multi-Paddock (AMP) grazing). Hún geti í raun verið liður til að draga úr loftslagsbreytingum. 
 
Skipulögð beitarstjórnin vistfræðilega jákvæð
 
Ástralski jarðvegsvistfræð­ingurinn Christien Jones telur að rannsókn vísindamanna hjá MSU sé ómetanleg í umræðunni um hvernig ræktun búfjár geti skipt máli við að draga úr loftslagsbreytingum. 
 
„Rannsóknirnar sýna að það eru klárlega að nást neikvæð gróðurhúsagasáhrif með vel skipulagðri beitarstjórnun (APM) vegna bindingar kolefnis í jarðvegi,“ segir Jones.
 
„Að auki veitir slík beitarstjórnun ótal öðrum vistkerfum stuðning. Það stuðlar þar með að auknum líffræðilegum fjölbreytileika. Meðal annars getu jarðvegs til að binda í sér vatn, hann verði þolbetri og þessi aðferð bætir stjórnun á landrofi.“ Þar vísar Jones til þess að fjúkandi jarðvegur sé oft talin helsta útflutningsvara Bandaríkjanna. 
 
Með því að ala nautgripi upp allt til slátrunar í stýrði beitarstjórnun væri ekki verið að ala gripina á kornfóðri á seinni hluta uppvaxtartímans í fóðrunarstöðvum eins og nú er gert við 97% nautgripa sem aldir eru til kjötframleiðslu í Bandaríkjunum og víðar um lönd. Þó nú séu einungis 3% gripa grasfóðraðir allan sinn lífsferil, fer slík ræktun vaxandi. Tekjur af lífrænni grasfóðursræktun nautgripa jukust úr 6 milljónum dollara árið 2012 í 89 milljónir dollara árið 2016. Er þetta drifið áfram af aukinni meðvitund neytenda um heilbrigði og dýravelferð.
 
Þá benda rannsakendur á að mykja frá nautgripunum bæti jarðveginn svo ekki þurfi að beita skordýraeitri eða öðrum áburði eins og gert er m.a. við kornrækt sem nýtt er til fóðrunar. Þá verði betra jafnvægi kolefnis og köfnunarefnis í jarðveginum. Báru vísindamenn þessar aðferðir við gögn úr tveggja ára rannsóknum við eldi nautgripa í fóðrunarstöðvum. 
 
Fjölþætt greining leiddi í ljós verulega minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda undir stýrðri beitarstjórn. Ástæðan er m.a. sögð  vera að í jarðveginum binst nægur koltvísýringur til að stöðva losun á metangasi.
 
Er íslensk búfjárrækt kolefnishlutlaus?
 
Miðað við þessar niðurstöður úr rannsókn MSU og UCS mætti ætla að verulegur hluti sauðfárbúskapar  og nautgriparæktar á Íslandi geti þegar talist kolefnishlutlaus. 
 
Nautgripir hafa verið í eldi manna í árþúsundir
 
Samkvæmt upplýsingum á síðu Department of Animal Science, þá eru til gögn sem sýna að nautgripaeldi hafi verið stundað í Mið-Austurlöndum frá því 6.500 árum fyrir Krist. Sumar heimildir nefna að jafnvel 10.000 svipaðar heimildir finnist um sauðfé, geitur, svín og hunda. 
 
Tilgangur nautgriparæktunar frá upphafi hefur verið margþættur og er svo sums staðar enn. Það er að útvega mat, þ.e. mjólk og kjöt sem og húðir í klæðnað, tjöld, báta og til annarra nota eins og í íslensku handritin. Einnig voru nautgripir notaðir sem vinnudýr til að draga vagna og plóga og er svo víða enn. 
 
Forfaðir þeirra nautgripa sem ræktaðir hafa verið er oft talinn vera tegund sem hét aurochs og var af villtum stofni evrasíu-uxa. Talið er að tegundinni hafi verið útrýmt á Bretlandseyjum á bronsöld, en síðasta dýrið af þessari tegund er talið hafa verið fellt af veiðimanni nærri borginni Varsjá í Póllandi árið 1627. Ekki er þó loku fyrir það skotið að einhverjir gripir af sömu tegund hafi lifað í öðrum heimshlutum eitthvað lengur.  
 
Jórturdýrin eru ekki mesti skaðvaldur náttúru og loftslags 
 
Í þessu samhengi er líka bent á þá athyglisverðu staðreynd að þegar Evrópumenn hófu landnám í Ameríku hafi verið þar fyrir á milli 25–100 milljónir nautgripa af buffalastofni og 100 til 200 milljónir bjóra, en öll þessi dýr voru að losa frá sér metan. Hvíti maðurinn nær útrýmdi þessum dýrum og fór að rækta nautgripi sem eru í dag að talið er nálægt 110 milljónir gripa auk annarra húsdýra. Talið er að nettólosunin þess bústofns í dag sé nokkurn vegin sú sama og var fyrir landnám hvíta mannsins í Ameríku. Það þýðir að verði öllum búfénaði í Ameríku útrýmt og náttúran látin vinna sig upp til fyrra horfs, myndi það engu breyta hvað varðar áhrif á margnefnd gróðurhúsaáhrif. 
 
Maðurinn og þéttbýlið er mesta náttúruógnin
 
Mestu áhrifin yrðu trúlega ef öllum borgum og mannvirkjum mannsins yrði eytt af yfirborðinu svo graslendi og skógar fengju að vaxa þar óáreitt. Þar með yrði líka skrúfað fyrir óhóflega losun koltvísýrings út í andrúmsloftið vegna raforkuframleiðslu og iðnaðar. Í uppbyggingu borgarsamfélagsins í krafti óhefts peningavalds felst einmitt mesta ósjálfbærnin gagnvart náttúrunni. Þannig má væntanlega færa gild rök fyrir því að höfuðborg Íslands með öllum sínum mannvirkjum og mannlegum athöfnum sé mesta ógnin við náttúru- og loftslag á Íslandi í dag. Vísindamenn eins og doktor Ólafur R. Dýrmundsson hafa bent á að sennilega sé ekkert sveitarfélag í landinu sem hefur eytt jafn miklu votlendi sem ekki verður endurheimt. Þar má nefna alla Sauðhúsamýrina, Vatnsmýrina að mestu leyti, alla Kringlumýri, alla Sogamýrina, alla Laugamýrina, alla Kleppsmýrina og nær alla Fossvogsmýrina svo eitthvað sé nefnt. Síðan eigi bændur að moka ofan í skurði án þess að fyrir liggi viðmiðunarreglur um hvers konar skurði sé hagkvæmast að moka ofan í. Þetta hefur dr. Þorsteinn Guðmundsson jarðvegsfræðingur einnig gagnrýnt og fært fyrir því greinargóð rök í Bændablaðinu. 
 
Ef menn vilja vera samkvæmir sjálfum sér í fullyrðingagleðinni þýðir það væntanlega að best sé að afmá Reykjavík og aðra þéttbýliskjarna á Íslandi af yfirborði jarðar.  
 
Samkvæmt tölum US Emissions Inventory losar úrgangur í landfyllingum, iðnaður, þar með talinn olíuiðnaður og raforku­framleiðsla um 30.000 kílótonn (kt) eða gígagrömm (Gg) af metani út í andrúmsloftið á ári.
 
Íslendingar losa 700.000 tonn af CO2 bara við að það borða mat
 
Hver einasti maður losar um 2 tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið á ári bara við neyslu á mat, samkvæmt upplýsingum FECYT (Spanish Foundation for Science and Technology) sem byggja á rannsókn Almeríu háskóla (Universidad de Almería -UAL) frá 2010. Þar var miðað við meðalmatarneyslu Spánverja sem er um 881 kílógramm á ári. Það skilar samt innan við 20% af heildarlosun hvers einstaklings á kolefnisígildum. Það þýðir að íslenska þjóðin er að losa ígildi 700.000 tonna af koltvísýringi út  í and­rúmsloftið árlega bara vegna fæðunnar sem þjóðin borðar.
 
Ofan á þetta bætist gríðarleg vatns­mengun vegna losunar úrgangsefna líkamans. Þá á eftir að nefna losun á iðragasi sem er um 0,5 til 2 kg á dag, eða að meðaltali um 547 kg á ári á hvern einstakling. Það gerir að meðaltali tæplega 192 þúsund tonn á ári. Þetta gas er talið innihalda allt að 26% metan sem er þá rétt tæplega 50.000 tonn á ári.
 
Ef notuð eru margfeldis­viðmið Loftslags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna, eða talan 21, þá þýðir það rúmlega 1 milljón tonn af CO2 ígildum á ári. Ekki er þá nærri allt upp talið því eftir er að reikna inn í dæmið allar athafnir manna við ferðalög og kolefnisfótspor vegna framleiðslu á öllum mögulegum búnaði, húsnæði og öðru sem fólk notar sem er verulegt. Er því trúlega varlega áætlað að íslenska þjóðin sé bara í sínu daglega amstri að losa sem svarar 2,5–3 milljónum tonna að CO2 ígildum. Þetta er fyrir utan aðra starfsemi í landinu eins og beina kolefnislosun stóriðju, iðnaðar og útgerðar. Ef leggja ætti ískalt mat á slíkar tölur í umræðunni, lægi væntanlega beinast við að niðurstaðan í exelskjölum sérfræðinga væri að fækka Íslendingum verulega. 
 
Fullyrðingar um gróðurhúsaáhrif jórturdýra fjarri veruleikanum
 
Í úttekt Swiss Bio Farmer er bent á að samkvæmt viðteknum fræðum og fullyrðingum sé metan talið valda um 20% af gróðurhúsaáhrifunum í andrúmsloftinu. Þá séu öll jórturdýr jarðar talin standa fyrir 20% af allri metanlosun heimsins. Það þýðir að losun jórturdýra er ekki 50%, ekki 28% og ekki 21%, heldur um 4% af heildinni í gróðurhúsaáhrifunum. 
 
Þá er einnig bent á að eldi jórturdýra og nýting graslendis til þess að hjálpa um einum milljarði af fátækasta fólki jarðar við að fá nauðsynlegt prótein samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Þessi jórturdýr sem eru að stærstum hluta nautgripir hafa, ef marka má úttektina, engin áhrif á myndun gróðurhúsalofttegunda heldur er ræktun þeirra hlutlaus vegna örvera sem lifa á metani.  
 
Kröfur fólks um magnframleiðslu á ódýru kjöti valda mengun
 
Það er ekki fyrr en eldi nautgripa fer eingöngu fram með korn- og sojabaunagjöf í sérstökum fóðrunarstöðvum (feedlots)verksmiðjubúanna en ekki með grasfóðrun af landi í samræmi við gripafjölda, að vandamál skapast fyrir alvöru. Þá verður til náttúrulegt ójafnvægi, en þetta er fyrst og fremst stundað vegna kröfu mjög svo ósjálfbærra þéttbýlisbúa um ódýrt kjöt. Við slíkar aðstæður rýkur gróðurhúsagildið staðbundið upp vegna losunar nautgripanna á metani. 
 
Tvískinnungur og fullkomin hræsni 
 
Það er þessi krafa um verksmiðju­framleitt kjöt í miklu magni á lágmarksverði sem veldur losun metans sem ekki er í takt við eðlilegt samspil dýra og náttúru. Þetta er fyrst og fremst krafa þéttbýlisbúa í heiminum sem eru orðnir í litlum eða engum tengslum við náttúruna og frumframleiðslu matvæla. Þetta fólk hefur samt gjarnan hæst í umræðunni um loftslagsmál. Það segist líka vera alfarið á móti rekstri verksmiðjubúa, en heimtar á sama tíma ódýran mat sem ekki er hægt að framleiða á annan hátt. Þetta lýsir engu öðru en tvískinnungi og fullkominni hræsni í umræðum um loftslagsmál og náttúruvernd.  
 
Niðurstaðan í umfjöllun Swiss Bio Farmer er að það eru ekki kýrnar, eða önnur jórturdýr, sem eru slæm fyrir umhverfið, heldur mannfólkið sem með aðgerðum sínum og kröfum setur allt jafnvægi úr skorðum. Síðan segir: 
„Ef þú vilt neyta nautakjöts, þá skaltu fullvissa þig um að það sé grasfóðrað.“
Í kjölfarið er bent á í umfjöllun Swiss Bio Farmer aragrúa fullyrðinga í umræðunni um nautgriparækt, sem séu hreinar rangfærslur sem byggi á fáfræði og talnagögnum sem ekki standist skoðun.
 
Vatnsaflsvirkjanir losa líka metangas
 
Það er fleira en skepnur og brennsla á jarðefnaeldsneyti sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Á vefsíðu Mother Nature Network má t.d. finna grein um losun vatnsaflsvirkjana á metangasi. Eitthvað sem hingað til hefur verið talin hreinasta orka sem til er. Þar getur þó spilað verulega rullu, hvar virkjunin er staðsett á jarðkringlunni, hvort hún er á köldu, tempruðu, eða heittempruðu belti jarðar, eða jafnvel í hitabeltinu. Ástæðan er að þegar stíflur eru byggðar til að mynda uppistöðulón fyrir virkjanir, þá kaffærist svo og svo mikill gróður. Þessi gróður rotnar og myndar metangas. Það losnar ekki endilega strax, heldur getur það safnast upp í botnleðjunni og losnar þá þegar vatnsyfirborð lækkar í lóninu. Vísað er til rannsóknar og greinar frá 2005 sem birt var í tímaritinu Mitigation (Adaptation Strategies for Global Change). Þar var staðan skoðuð í Guruá-Una stíflunni í Pará í Brasilíu. Þar sýndu rannsóknirnar að stíflan var að losa þrisvar og hálfum sinnum meira af metani en orkuver sem framleiddi sama magn af rafmagni með brennslu á olíu. 
 
Önnur rannsókn sem vísað er til og var gerð af doktorsnema í ríkisháskólanum í Washington (Washington State University) árið 2012, sýndi að leðja að baki stíflu orkuvers í Washington losaði 36 sinnum meira af metani en venjulega þegar vatnsstaðan í lóninu var lág. 
 
Metan úr freðmýrum norðurslóða einn stærsti áhrifavaldurinn í hlýnun jarðar
 
Þá er einnig bent á vaxandi vanda er varðar losun freðmýra á norðurslóðum á metani samfara hlýnandi loftslagi. Í rannsókn sem birt var í maí 2012 í ritinu Nature Geoscience, komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að metan sem sleppur út á norðurslóðum vegna hlýnunar jarðar geti mögulega hraðað hlýnunarferlinu. Þá sé þetta metan einn mesti áhrifavaldurinn í hlýnun  loftslags. 
 
Um 4% metans sagt koma úr hafinu
 
Í enn einni rannsókninni, sem er frá vísindamönnum Genomic Biology stofnun háskólans í Illinois í Bandaríkjunum, segir að 4% af metani í andrúmslofti jarðar komi úr hafinu. Þessi rannsókn var birt í ágúst 2012. Þar er greint frá því að „Nitrosopumilus maritimus“ örverur framleiði metan í hafinu í flóknu lífefnafræðilegu ferli sem rannsakendur nefna furðuefnafræði, eða „weird chemistry.“ Sögðu þeir þetta vera algjörlega óvænta niðurstöðu af tveim ástæðum. Þar hafi einn rannsakenda verið að leita að vísbendingum sem nýst gætu við gerð nýrra sýklalyfja. Þá hafi þeir komist að því að allar aðrar örverur sem finnast í lofti og vatni og eru þekktar fyrir að framleiða metan þoli ekki súrefni. Nitrosopumilus maritimus-örverurnar kynnu því að vera einhverjar vanmetnustu lífverur á jörðinni og gætu leitt til betri skilnings á náttúrulegu kerfi jarðar og loftslagsbreytingum. 
 
Moltugerð þykir góð en veldur líka losun
 
Vefrit Mother Nature Network vekur einnig athygli á að sú jákvæða iðja að umbreyta lífrænum úrgangi í mold eða moltu hafi líka sínar neikvæðu hliðar. Í slíku ferli myndist nefnilega talsvert af koltvísýringi og metani sem losni út í andrúmsloftið. Vitnað er í tölur Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna (EPA) um að vinnsla á lífrænum úrgangi með þessum hætti hafi aukist í Bandaríkjunum á árunum 1990 til 2010 um 392%. Losun koltvísýrings og metans vegna þeirrar starfsemi hafi aukist í sama hlutfalli. Frá þessari iðju komi samt sem áður lítið í hlutfalli við losun á náttúrulegu gasi, eða um 1%, og miklu minna en ef lífræni úrgangurinn yrði einfaldlega urðaður. 
 
Fullyrðingar um skaðsemi búfjárræktar standast ekki
 
Samkvæmt framansögðu virðist fátt í þessum fræðum sem styður í raun hástemmdar fullyrðingar um stórskaðlega framleiðslu á kjöti, nema kannski verksmiðjubúskapur í hreinum fóðrunarstöðvum. Í dýraeldi við eðlilegar náttúrulegar aðstæður sér lífræn hringrás um að jafna út áhrifunum af losun á metani frá jórturdýrum og fóðrar um leið nauðsynlegar örverur fyrir lífið á jörðinni. Það er hins vegar mannskepnan sjálf með öllum sínum velmegunarkröfum sem er þarna mesti skaðvaldurinn.
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...